Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaFélagsvísindiMannfræðiEru líkur á því að maðurinn blandist svo mikið á næstu 2 – 300 árum að á endanum verði bara til einn ljósgulbrúnn kynþáttur?
Spyrjandi virðist vilja vita hvort líkur séu á að smám saman verði til eitt mannkyn sem er eins að litarhætti, og væntanlega ýmsu öðru er lýtur að útliti. Hvort mannkyn framtíðarinnar verði einsleitt og án sérkenna staðbundinna hópa.
Mannkynið er ein tegund þó að nokkur munur sé á útliti, einkum hörundslit. Fólk á norðurhluta hnattarins er yfirleitt ljósara á hörund en það sem býr nær miðbaug. Háralitur og augnalitur er einnig mismunandi eftir því hvar fólk býr. Þegar kemur að hinum lífeðlisfræðilegu þáttum mannskepnunnar er hins vegar engan mun að finna milli hinna svokölluðu kynþátta.
Þeir þættir sem ákvarða útlit eru til dæmis erfðir, umhverfi, mataræði, og hugmyndir um æskilegt útlit (makaval, eins og Darwin benti á). Dökkt hörund er góð vörn gegn útfjólublárri geislun, ljós húð hins vegar hleypir inn sólargeislum sem styrkja vítamínbúskap líkamans. Fólk sem býr hátt yfir sjávarmáli hefur fleiri rauð blóðkorn en þeir sem búa nær sjávarmáli. Þannig hefur umhverfi og aðstæður mikil áhrif á hvaða eiginleikar verða ríkjandi á hverjum stað.
En hvað þarf til að einn ljósgulbrúnn kynþáttur verði til?
Það má hugsa sér að allt mannkyn blandist þannig að allir jarðarbúar hafi möguleika á að æxlast innbyrðist um alllangt skeið, til dæmis í tíu til tólf, eða jafnvel hundrað kynslóðir. Það er ógerlegt að vita með nokkurri vissu hvað út úr því muni koma. Blöndun getur leitt til margs konar tilbrigða og alls ekki víst að einhvers konar einsleitni verði ríkjandi.
Hins vegar er nær óhugsandi að alger blöndun mannkyns geti nokkru sinni orðið að veruleika. Talið er að rúmlega sex milljarðar manna séu á jörðinni. Þar af eru nær átta hundruð milljónir í Afríku, rúmlega fimm hundruð milljónir í Mið- og Suður-Ameríku, þrjú hundruð milljónir í Norður-Ameríku, nær þrír milljarðar og sjö hundruð milljónir í Asíu, rúmlega sjö hundruð milljónir í Evrópu og þrjátíu milljónir í Eyjaálfu (Ástralíu, Nýja – Sjálandi og Kyrrahafseyjum). Fjölgun er langsamlega örust í Afríku og Asíu. Enda þótt ekki komi til blöndunar er því líklegast að eftir tvær til þrjár aldir verði mikill meirihluti mannkyns búsettur í Asíu og Afríku. Asíufólk er hins vegar langt frá því að vera einn kynþáttur og það er ekkert sem bendir til þess að þar verði blöndun sem leiði til þess að einsleitt mannkyn verði þar til.
Náttúruhamfarir, drepsóttir og styrjaldir geta breytt þessum hlutföllum að einhverju leyti en alls ekki svo að það hafi áhrif á framtíð mannkyns.
Svarið við spurningunni er því nei, það eru nær engan líkur á því að til verði mannkyn sem að flestu er eins að útliti. En það er hins vegar heillandi að velta fyrir sér mannkyninu eins og það er nú og hvort einhver önnur atriði en kynblöndun geti leitt til breytinga á því sem heild, án þess að það glati þeim útlitsmun sem nú er á fólki.
Sjá einnig svar Einars Árnasonar við spurningunni: Fækkar víkjandi erfðaeiginleikum sem einkenna norrænt fólk með auknum fólksflutningum á næstu áratugum?
Haraldur Ólafsson mannfræðingur. „Eru líkur á því að maðurinn blandist svo mikið á næstu 2 – 300 árum að á endanum verði bara til einn ljósgulbrúnn kynþáttur?“ Vísindavefurinn, 20. mars 2002, sótt 10. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2215.
Haraldur Ólafsson mannfræðingur. (2002, 20. mars). Eru líkur á því að maðurinn blandist svo mikið á næstu 2 – 300 árum að á endanum verði bara til einn ljósgulbrúnn kynþáttur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2215
Haraldur Ólafsson mannfræðingur. „Eru líkur á því að maðurinn blandist svo mikið á næstu 2 – 300 árum að á endanum verði bara til einn ljósgulbrúnn kynþáttur?“ Vísindavefurinn. 20. mar. 2002. Vefsíða. 10. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2215>.