Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Fyrir hvað stendur JRR í nafni Tolkiens?

Ármann Jakobsson

Tolkien hét fullu nafni John Ronald Reuel Tolkien en af þessum nöfnum var Ronald oftast notað. Reuel var eins konar ættarnafn: Faðir hans hét Arthur Reuel og synir hans báru einnig þetta nafn. Eftirnafn hans er þýskættað en föðurfjölskylda hans mun hafa flutt frá Saxlandi (Sachsen) til Englands á 18. öld. Sjálfur fæddist hann í Suður-Afríku, í Óraníufríríkinu, þann 3. janúar 1892. Hann flutti hins vegar heim til Englands á fimmta ári.

Tolkien missti báða foreldra sína í bernsku, föðurinn á fimmta ári en móðurina þegar hann var tólf ára. Hann átti einn bróður. Hét sá Hilary en það nafn kemur við sögu í einni bóka Tolkiens, Farmer Giles of Ham (1949; ísl. Gvendur bóndi á Svínafelli, 1979). Móðirin var katólsk og Tolkien gerðist katólskur árið 1900. Tók kirkjan að sér uppeldi bræðranna munaðarlausu þó að þeir byggju einnig hjá fjarskyldum ættingjum og vandalausum.

Árið 1916 gekk Tolkien að eiga Edith Bratt (1889-1971). Áttu þau fjögur börn, þrjá syni og eina dóttur. Sonurinn Christopher (f. 1924) var afar handgenginn skáldverkum föðurins og fer með höfundarréttinn. Hann er norrænufræðingur ágætur og hefur gefið út fornaldarsöguna Hervarar sögu og Heiðreks. Þrjú barna Tolkiens eru enn á lífi.

Tolkien var afburða námsmaður, einkum í málum. Hann lauk prófi frá Oxford-háskóla árið 1915 en barðist síðan í heimsstyrjöldinni fyrri og kvaðst hafa misst þar alla bestu vini sína nema einn. Meðal annars barðist hann í orrustunni við Somme þar sem mannfall Breta var stórkostlegt. Eftir stríðið beið hans hins vegar háskólakennsla í nær 40 ár þó að fyrst hafi hann unnið við Nýju ensku orðabókina (oft kölluð Oxford English Dictionary). Segja má að stríðið og orðabókarstörfin hafi í jöfnum mæli mótað skáldverk hans.

Tolkien kenndi við Leeds-háskóla í fimm ár (1920-1925) en var síðan prófessor við Oxford-háskóla í 34 ár (1925-1959). Hann hafði þó aldrei lokið nema grunnnámi við háskóla en Oxfordháskóli veitti MA-gráður án prófs. Tolkien var mikils metinn í heimi fræðanna og eftir hann liggja áhrifamiklar fræðilegar greinar, þar á meðal fyrirlesturinn Beowulf, the Monster and the Critics sem hafði mikil áhrif á rannsóknir á Bjólfskviðu, fyrir utan auðvitað öll skáldverkin. Íslenskumaður var Tolkien prýðilegur og var fremstur í flokki í leshring einum í Oxford sem einbeitti sér að íslenskum miðaldasögum. Nefndu þeir sig kolbítana (The Coalbiters). Meðal helstu vina hans í Oxford var C.S. Lewis, höfundur bókanna um Narníu, en saga hans er sögð í leikritinu og kvikmyndinni Shadowlands.



Helstu skáldverk Tolkiens eru barnabókin The Hobbit sem gefinn var út árið 1937 (ísl. Hobbit 1978, Hobbitinn 1997) og The Lord of the Rings sem kom út í þremur hlutum árin 1954-1955 (ísl. Hringadróttinssaga, 1993-1995). Tolkien leit þó jafnan á verkið sem eitt og orðið "trílógía" var honum mjög til ama. Þá kom The Silmarillion út eftir lát hans, árið 1977 (ísl. Silmerillinn 1999). Leit Tolkien á það sem mikilvægasta verk sitt en öðrum hefur þótt það heldur sérviskulegra en hin verkin tvö. Þá liggur eftir hann smælki og útgáfur fornra enskra ljóða (þar á meðal Gawain og græni riddarinn og Perlan).

Tolkien og frú bjuggu áfram nálægt Oxford eftir að hann lét af störfum en fluttu síðan til Bournemouth. Eftir lát konu sinnar fluttist Tolkien aftur til Oxford og lést þar 2. september 1973.



Mynd af J.R.R. Tolkien: Spacelight: vefsíða um líf og störf J.R.R. Tolkiens

Mynd úr Hringadróttinssögu: Tolkien in Oxford

Höfundur

Ármann Jakobsson

prófessor við íslensku- og menningardeild HÍ

Útgáfudagur

20.3.2002

Spyrjandi

Héðinn Árnason, fæddur 1986

Tilvísun

Ármann Jakobsson. „Fyrir hvað stendur JRR í nafni Tolkiens?“ Vísindavefurinn, 20. mars 2002, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2219.

Ármann Jakobsson. (2002, 20. mars). Fyrir hvað stendur JRR í nafni Tolkiens? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2219

Ármann Jakobsson. „Fyrir hvað stendur JRR í nafni Tolkiens?“ Vísindavefurinn. 20. mar. 2002. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2219>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Fyrir hvað stendur JRR í nafni Tolkiens?
Tolkien hét fullu nafni John Ronald Reuel Tolkien en af þessum nöfnum var Ronald oftast notað. Reuel var eins konar ættarnafn: Faðir hans hét Arthur Reuel og synir hans báru einnig þetta nafn. Eftirnafn hans er þýskættað en föðurfjölskylda hans mun hafa flutt frá Saxlandi (Sachsen) til Englands á 18. öld. Sjálfur fæddist hann í Suður-Afríku, í Óraníufríríkinu, þann 3. janúar 1892. Hann flutti hins vegar heim til Englands á fimmta ári.

Tolkien missti báða foreldra sína í bernsku, föðurinn á fimmta ári en móðurina þegar hann var tólf ára. Hann átti einn bróður. Hét sá Hilary en það nafn kemur við sögu í einni bóka Tolkiens, Farmer Giles of Ham (1949; ísl. Gvendur bóndi á Svínafelli, 1979). Móðirin var katólsk og Tolkien gerðist katólskur árið 1900. Tók kirkjan að sér uppeldi bræðranna munaðarlausu þó að þeir byggju einnig hjá fjarskyldum ættingjum og vandalausum.

Árið 1916 gekk Tolkien að eiga Edith Bratt (1889-1971). Áttu þau fjögur börn, þrjá syni og eina dóttur. Sonurinn Christopher (f. 1924) var afar handgenginn skáldverkum föðurins og fer með höfundarréttinn. Hann er norrænufræðingur ágætur og hefur gefið út fornaldarsöguna Hervarar sögu og Heiðreks. Þrjú barna Tolkiens eru enn á lífi.

Tolkien var afburða námsmaður, einkum í málum. Hann lauk prófi frá Oxford-háskóla árið 1915 en barðist síðan í heimsstyrjöldinni fyrri og kvaðst hafa misst þar alla bestu vini sína nema einn. Meðal annars barðist hann í orrustunni við Somme þar sem mannfall Breta var stórkostlegt. Eftir stríðið beið hans hins vegar háskólakennsla í nær 40 ár þó að fyrst hafi hann unnið við Nýju ensku orðabókina (oft kölluð Oxford English Dictionary). Segja má að stríðið og orðabókarstörfin hafi í jöfnum mæli mótað skáldverk hans.

Tolkien kenndi við Leeds-háskóla í fimm ár (1920-1925) en var síðan prófessor við Oxford-háskóla í 34 ár (1925-1959). Hann hafði þó aldrei lokið nema grunnnámi við háskóla en Oxfordháskóli veitti MA-gráður án prófs. Tolkien var mikils metinn í heimi fræðanna og eftir hann liggja áhrifamiklar fræðilegar greinar, þar á meðal fyrirlesturinn Beowulf, the Monster and the Critics sem hafði mikil áhrif á rannsóknir á Bjólfskviðu, fyrir utan auðvitað öll skáldverkin. Íslenskumaður var Tolkien prýðilegur og var fremstur í flokki í leshring einum í Oxford sem einbeitti sér að íslenskum miðaldasögum. Nefndu þeir sig kolbítana (The Coalbiters). Meðal helstu vina hans í Oxford var C.S. Lewis, höfundur bókanna um Narníu, en saga hans er sögð í leikritinu og kvikmyndinni Shadowlands.



Helstu skáldverk Tolkiens eru barnabókin The Hobbit sem gefinn var út árið 1937 (ísl. Hobbit 1978, Hobbitinn 1997) og The Lord of the Rings sem kom út í þremur hlutum árin 1954-1955 (ísl. Hringadróttinssaga, 1993-1995). Tolkien leit þó jafnan á verkið sem eitt og orðið "trílógía" var honum mjög til ama. Þá kom The Silmarillion út eftir lát hans, árið 1977 (ísl. Silmerillinn 1999). Leit Tolkien á það sem mikilvægasta verk sitt en öðrum hefur þótt það heldur sérviskulegra en hin verkin tvö. Þá liggur eftir hann smælki og útgáfur fornra enskra ljóða (þar á meðal Gawain og græni riddarinn og Perlan).

Tolkien og frú bjuggu áfram nálægt Oxford eftir að hann lét af störfum en fluttu síðan til Bournemouth. Eftir lát konu sinnar fluttist Tolkien aftur til Oxford og lést þar 2. september 1973.



Mynd af J.R.R. Tolkien: Spacelight: vefsíða um líf og störf J.R.R. Tolkiens

Mynd úr Hringadróttinssögu: Tolkien in Oxford...