Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hverjir hönnuðu nótnaskrift upphaflega og hvernig hefur hún breyst síðan?

Karólína Eiríksdóttir

Vitað er að Forn-Grikkir skráðu nótnaheiti með bókstöfum og almennt er talið að innan kirkjunnar hafi fyrstu tilraunir til að skrásetja tónlist hafist á 6. öld. Margs konar tilraunastarfsemi átti sér stað áður en það kerfi sem þekkist í dag mótaðist, en grunnurinn að því kom fram innan kirkjunnar á 9. öld.

Ekki hefur enn fundist þjóðflokkur sem á sér enga tónlistarhefð og almennt er talið að tónlist, sem og aðrar listir, hafi fylgt mannkyninu frá árdögum þess. Tónlist hafði því verið iðkuð alllengi áður en hún var færð í letur og ekki hefur nema hluti tónlistar heimsins verið skráður, en það er aðallega vestræn klassísk tónlist. Stærstur hluti tónlistar frá öðrum menningarsvæðum er varðveittur í munnlegri geymd og lærist frá manni til manns eða frá kynslóð til kynslóðar.

Á fyrstu öldum kirkjunnar var þessi sami háttur hafður á og tónlistin barst á milli manna í lifandi tónlistarflutningi. Þetta gildir að nokkru leyti enn því að megnið af popp- og tölvutónlist nútímans er ekki skráð á nótur, heldur er hún varðveitt í hljóðritunum. Þess vegna má segja að hljóðritanir hafi að hluta yfirtekið varðveisluhlutverk nótnaskriftar.

Til að koma tónlist áleiðis þarf nótnaskrift að uppfylla tvö meginskilyrði, það er að tilgreina tónhæð og lengd nótnanna. Að auki bætast við ýmis tákn sem gefa til kynna styrkleika, mismunandi áherslur, hraða og hugblæ, svo að nokkuð sé nefnt. Nótnaskriftarkerfi sem fullnægir þessum skilyrðum var margar aldir í mótun.

Þörf fyrir að skrá tónlist vaknaði hjá kirkjunnar mönnum þegar einraddaður kirkjusöngur varð flóknari og farið var að breiða hann út til fjarlægra staða. Þess vegna er talið að þegar á 6. öld hafi tákn, sem áttu að gefa til kynna hvernig tónlistin skyldi hljóma, verið sett inn í tíða- og messusöngtextana. Þessi tákn hafa væntanlega aðeins gefið vísbendingar um nótnaheiti og stefnu laglína.

Á 9. öld kom fram vísir að kerfi sem síðar varð að fimm strengja nótnakerfinu með mismunandi lyklum sem notast er við í dag. Þetta kerfi studdist upphaflega við tvær línur, sem sýndu nóturnar og f (mið-c og f þar fyrir neðan). Línan sem táknaði c´ var gul eða græn en línan sem sýndi f var rauð. Það er næstum óhjákvæmilegt að mönnum hafi smám saman hugkvæmst að bæta við línum eftir því sem tónsvið tónlistarinnar víkkaði og fjölröddun varð algengari. Meðal þeirra sem komu að þróun þessa kerfis var Guido frá Arezzo (um 990-1050).

Sú nótnamynd sem var við líði á þessum tíma voru svokallaðar naumur, en þær sýna tónhæð stakra tóna eða hópa tveggja eða fleiri tóna. Þetta kerfi gefur ekki lengd nótnanna til kynna. Það var ekki fyrr en á dögum Leonins, sem starfaði við Notre Dame-kirkjuna í París upp úr miðri 12. öld, að takttegundir voru skráðar. Leonin þróaði kerfi 6 ryþmískra hátta. Þeir voru allir í 6/8 takti og gáfu til kynna hljóðfall viðkomandi lags. Hugmyndina mun Leonin hafa fengið úr riti Ágústínusar kirkjuföður De Musica eða Um tónlistina.

Mæld nótnaskrift, það er sú aðferð að sköpulag hverrar nótu gefi lengd hennar til kynna, kom til sögunnar á 13. öld. Fyrstu nótnagildin voru longur og brevur (langar og stuttar nótur). Franco frá Köln er talinn upphafsmaður þessa kerfis. Það hélt áfram að þróast og alls komust átta nótnagildi í notkun. Meðal nótnagilda sem bættust við voru semibrevur, minimur, semiminimur og fusur, eða fyrirrennarar heilnótna, hálfnótna, fjórðapartsnótna og svo framvegis. Þetta eru þær nótur sem flestir hafa séð myndir af í handritum; tíglar og ferningar í ýmsum stærðum, með eða án nótnahálsa.

Um 1600 var nótnaskriftin orðin nokkurn veginn eins og hún er í dag. Á dögum Bachs (1685-1750) var þetta kerfi orðið mjög þróað. Þó vantaði eitt upp á enn því að engar leiðbeiningar voru um styrkleika, áherslumerki eða annað sem gefur til kynna hugblæ flutningsins. Slík tákn þróuðust aðallega eftir 1750.

Jafnframt hinu hefðbundna nótnakerfi hafa önnur þróast til hliðar, Hið svokallaða solfa kerfi (do, re, mí, fa, so, la, tí, do) er sennilega þekktast hér á landi. Það er upprunnið hjá Guido frá Arezzo. Á 15. og 16. öld var sérstakt kerfi við líði fyrir lútur, hljómborðshljóðfæri, gítara og fleiri hljóðfæri; það kallaðist tablatúr. Nú á dögum hafa jazzleikarar sérstakan hátt á að auðkenna hljóma með bókstöfum og tölustöfum. Á barokktímanum tíðkaðist tölusettur bassi þar sem bassalínan var skrifuð niður en tölustafir gáfu til kynna hvernig ætti að hljómsetja hana.

Á 20. öld voru alls konar tilraunir í gangi til að koma til móts við nýja strauma í tónlist. Á tímabili var meðal annars reynt að túlka tónverk á myndrænan hátt. Flytjandinn átti síðan að styðjast við myndina til að koma tónverkinu til skila. Það gefur auga leið að slík nótnaskrift er ekki mjög nákvæm og smáatriði í takti og tónhæð skipta ekki máli í tónverki sem notar þannig nótnaskrift. Einnig var reynt að sýna tónhæð á hefðbundinn hátt en gefa lengd nótna til kynna með láréttum strikum og tímapunktum. Hreina og klára raf- og tölvutónlist er yfirleitt ekki reynt að skrá sérstaklega á pappír, enda ekki þörf á því þar sem enginn er flytjandinn. Nótnaskriftarforrit hafa líka komið til sögu en þau hafa ekki breytt kerfinu sem slíku.

Flestar tilraunir til að umbylta núverandi nótnaskrift hafa ekki verið langlífar, enda þjónar þetta kerfi flestri vestrænni tónlist vel enn í dag. Ástæðan er væntanlega sú að kerfið er byggt á reynslu kynslóðanna og hefur því farið í gegnum sömu þróun og tónlistin sjálf.



Mynd 1: State Library of South Australia

Mynd 2: Treasures of the State Library of South Australia

Mynd 3: Columbia University, New York

Höfundur

Útgáfudagur

5.4.2002

Spyrjandi

Kristján Loftsson

Tilvísun

Karólína Eiríksdóttir. „Hverjir hönnuðu nótnaskrift upphaflega og hvernig hefur hún breyst síðan?“ Vísindavefurinn, 5. apríl 2002. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2267.

Karólína Eiríksdóttir. (2002, 5. apríl). Hverjir hönnuðu nótnaskrift upphaflega og hvernig hefur hún breyst síðan? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2267

Karólína Eiríksdóttir. „Hverjir hönnuðu nótnaskrift upphaflega og hvernig hefur hún breyst síðan?“ Vísindavefurinn. 5. apr. 2002. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2267>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hverjir hönnuðu nótnaskrift upphaflega og hvernig hefur hún breyst síðan?
Vitað er að Forn-Grikkir skráðu nótnaheiti með bókstöfum og almennt er talið að innan kirkjunnar hafi fyrstu tilraunir til að skrásetja tónlist hafist á 6. öld. Margs konar tilraunastarfsemi átti sér stað áður en það kerfi sem þekkist í dag mótaðist, en grunnurinn að því kom fram innan kirkjunnar á 9. öld.

Ekki hefur enn fundist þjóðflokkur sem á sér enga tónlistarhefð og almennt er talið að tónlist, sem og aðrar listir, hafi fylgt mannkyninu frá árdögum þess. Tónlist hafði því verið iðkuð alllengi áður en hún var færð í letur og ekki hefur nema hluti tónlistar heimsins verið skráður, en það er aðallega vestræn klassísk tónlist. Stærstur hluti tónlistar frá öðrum menningarsvæðum er varðveittur í munnlegri geymd og lærist frá manni til manns eða frá kynslóð til kynslóðar.

Á fyrstu öldum kirkjunnar var þessi sami háttur hafður á og tónlistin barst á milli manna í lifandi tónlistarflutningi. Þetta gildir að nokkru leyti enn því að megnið af popp- og tölvutónlist nútímans er ekki skráð á nótur, heldur er hún varðveitt í hljóðritunum. Þess vegna má segja að hljóðritanir hafi að hluta yfirtekið varðveisluhlutverk nótnaskriftar.

Til að koma tónlist áleiðis þarf nótnaskrift að uppfylla tvö meginskilyrði, það er að tilgreina tónhæð og lengd nótnanna. Að auki bætast við ýmis tákn sem gefa til kynna styrkleika, mismunandi áherslur, hraða og hugblæ, svo að nokkuð sé nefnt. Nótnaskriftarkerfi sem fullnægir þessum skilyrðum var margar aldir í mótun.

Þörf fyrir að skrá tónlist vaknaði hjá kirkjunnar mönnum þegar einraddaður kirkjusöngur varð flóknari og farið var að breiða hann út til fjarlægra staða. Þess vegna er talið að þegar á 6. öld hafi tákn, sem áttu að gefa til kynna hvernig tónlistin skyldi hljóma, verið sett inn í tíða- og messusöngtextana. Þessi tákn hafa væntanlega aðeins gefið vísbendingar um nótnaheiti og stefnu laglína.

Á 9. öld kom fram vísir að kerfi sem síðar varð að fimm strengja nótnakerfinu með mismunandi lyklum sem notast er við í dag. Þetta kerfi studdist upphaflega við tvær línur, sem sýndu nóturnar og f (mið-c og f þar fyrir neðan). Línan sem táknaði c´ var gul eða græn en línan sem sýndi f var rauð. Það er næstum óhjákvæmilegt að mönnum hafi smám saman hugkvæmst að bæta við línum eftir því sem tónsvið tónlistarinnar víkkaði og fjölröddun varð algengari. Meðal þeirra sem komu að þróun þessa kerfis var Guido frá Arezzo (um 990-1050).

Sú nótnamynd sem var við líði á þessum tíma voru svokallaðar naumur, en þær sýna tónhæð stakra tóna eða hópa tveggja eða fleiri tóna. Þetta kerfi gefur ekki lengd nótnanna til kynna. Það var ekki fyrr en á dögum Leonins, sem starfaði við Notre Dame-kirkjuna í París upp úr miðri 12. öld, að takttegundir voru skráðar. Leonin þróaði kerfi 6 ryþmískra hátta. Þeir voru allir í 6/8 takti og gáfu til kynna hljóðfall viðkomandi lags. Hugmyndina mun Leonin hafa fengið úr riti Ágústínusar kirkjuföður De Musica eða Um tónlistina.

Mæld nótnaskrift, það er sú aðferð að sköpulag hverrar nótu gefi lengd hennar til kynna, kom til sögunnar á 13. öld. Fyrstu nótnagildin voru longur og brevur (langar og stuttar nótur). Franco frá Köln er talinn upphafsmaður þessa kerfis. Það hélt áfram að þróast og alls komust átta nótnagildi í notkun. Meðal nótnagilda sem bættust við voru semibrevur, minimur, semiminimur og fusur, eða fyrirrennarar heilnótna, hálfnótna, fjórðapartsnótna og svo framvegis. Þetta eru þær nótur sem flestir hafa séð myndir af í handritum; tíglar og ferningar í ýmsum stærðum, með eða án nótnahálsa.

Um 1600 var nótnaskriftin orðin nokkurn veginn eins og hún er í dag. Á dögum Bachs (1685-1750) var þetta kerfi orðið mjög þróað. Þó vantaði eitt upp á enn því að engar leiðbeiningar voru um styrkleika, áherslumerki eða annað sem gefur til kynna hugblæ flutningsins. Slík tákn þróuðust aðallega eftir 1750.

Jafnframt hinu hefðbundna nótnakerfi hafa önnur þróast til hliðar, Hið svokallaða solfa kerfi (do, re, mí, fa, so, la, tí, do) er sennilega þekktast hér á landi. Það er upprunnið hjá Guido frá Arezzo. Á 15. og 16. öld var sérstakt kerfi við líði fyrir lútur, hljómborðshljóðfæri, gítara og fleiri hljóðfæri; það kallaðist tablatúr. Nú á dögum hafa jazzleikarar sérstakan hátt á að auðkenna hljóma með bókstöfum og tölustöfum. Á barokktímanum tíðkaðist tölusettur bassi þar sem bassalínan var skrifuð niður en tölustafir gáfu til kynna hvernig ætti að hljómsetja hana.

Á 20. öld voru alls konar tilraunir í gangi til að koma til móts við nýja strauma í tónlist. Á tímabili var meðal annars reynt að túlka tónverk á myndrænan hátt. Flytjandinn átti síðan að styðjast við myndina til að koma tónverkinu til skila. Það gefur auga leið að slík nótnaskrift er ekki mjög nákvæm og smáatriði í takti og tónhæð skipta ekki máli í tónverki sem notar þannig nótnaskrift. Einnig var reynt að sýna tónhæð á hefðbundinn hátt en gefa lengd nótna til kynna með láréttum strikum og tímapunktum. Hreina og klára raf- og tölvutónlist er yfirleitt ekki reynt að skrá sérstaklega á pappír, enda ekki þörf á því þar sem enginn er flytjandinn. Nótnaskriftarforrit hafa líka komið til sögu en þau hafa ekki breytt kerfinu sem slíku.

Flestar tilraunir til að umbylta núverandi nótnaskrift hafa ekki verið langlífar, enda þjónar þetta kerfi flestri vestrænni tónlist vel enn í dag. Ástæðan er væntanlega sú að kerfið er byggt á reynslu kynslóðanna og hefur því farið í gegnum sömu þróun og tónlistin sjálf.



Mynd 1: State Library of South Australia

Mynd 2: Treasures of the State Library of South Australia

Mynd 3: Columbia University, New York...