Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hverjir eru kostir og gallar klónunar?

Bryndís Valsdóttir

Áður en lengra er haldið þarf að gera greinarmun á tvenns konar tilgangi með einræktun, læknisfræðilegum tilgangi og æxlunartilgangi, og skoða síðan kosti og galla hvors um sig.

Einræktun í æxlunartilgangi gæti gefið fleirum kost á að eignast börn sem væru líffræðilega tengd þeim sjálfum. Enga sæðisfrumu þarf í einræktun, aðeins líkamsfrumukjarna og eggfrumu sem kjarni hefur verið tekinn úr. Því gætu pör með ófrjósemisvandamál eða arfgenga sjúkdóma, lesbíur eða einhleypar konur, eignast börn án utanaðkomandi hráefnis.



Andmæli gegn hugmyndinni eru mörg. Sum þeirra eru byggð á misskilningi á borð við þann að sá einræktaði verði alveg eins og sá sem átti líkamsfrumuna. Það verður hann ekki, meðal annars vegna þess að hann yrði úr annarri eggfrumu. Erfðaefni er ekki bara í kjarna eggsins heldur eru líka svokölluð hvatberagen í umfryminu. Vegna þessa yrði erfðamengi þess einræktaða örlítið öðruvísi en þess sem átti líkamsfrumuna. Auk þess myndu þeir mótast á mismunandi hátt á meðgöngunni ef það er ekki sama kona sem gengur með báða.

Önnur andmæli eru byggð á getgátum og framtíðarspám sem eru til að mynda tengdar sálarlífi þess einræktaða og áhrifum á erfðafræðilegan fjölbreytileika mannlífs í framtíðinni. Eitt er þó ljóst, að megingallinn er lágt árangurshlutfall (1-3%) úr dýratilraunum. Líkur á mistökum í formi vanskapnaðar og dauða einhvers staðar í ferlinu eru miklar og slíkur fórnarkostnaður er siðferðilega óviðunandi þegar verið er að fást við manneskjur.

En það er líka mögulegt að nota einræktun í læknisfræðilegum tilgangi. Hugmyndin er sú að einrækta fósturvísi úr líkamsfrumu einstaklings sem haldinn er alvarlegum sjúkdómi. Á fyrstu sólarhringunum eru frumur fósturvísis ósérhæfðar og geta tekið að sér hvaða hlutverk sem er í líkamanum, svokallaðar stofnfrumur. Þeim er síðan komið fyrir í skemmdum vef eða líffæri sjúklings þar sem þær taka að sér endurnýjunarhlutverk. Ástæða þess að æskilegt þykir að nota einræktaðar stofnfrumur úr sjúklingi sjálfum er að þær valda þá ekki höfnunareinkennum hjá honum eins og gæti gerst væri fósturvísirinn kynæxlaður. En með þessu skapast stórt siðferðilegt álitamál því hér er verið að mynda nýtt líf í öðrum tilgangi en sjálfs þess vegna. Þarna er hugmyndin að búa til fósturvísi til að lækna "eiganda" hans og deyða hann síðan. Margir telja þetta siðferðilega rangt en aðrir telja ávinninginn vega þyngra en fórnina í þessu tilliti.



Mynd: Úr kvikmyndinni Alien Resurrection

Höfundur

Útgáfudagur

12.4.2002

Spyrjandi

Heimir Pétursson

Tilvísun

Bryndís Valsdóttir. „Hverjir eru kostir og gallar klónunar?“ Vísindavefurinn, 12. apríl 2002. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2296.

Bryndís Valsdóttir. (2002, 12. apríl). Hverjir eru kostir og gallar klónunar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2296

Bryndís Valsdóttir. „Hverjir eru kostir og gallar klónunar?“ Vísindavefurinn. 12. apr. 2002. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2296>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hverjir eru kostir og gallar klónunar?
Áður en lengra er haldið þarf að gera greinarmun á tvenns konar tilgangi með einræktun, læknisfræðilegum tilgangi og æxlunartilgangi, og skoða síðan kosti og galla hvors um sig.

Einræktun í æxlunartilgangi gæti gefið fleirum kost á að eignast börn sem væru líffræðilega tengd þeim sjálfum. Enga sæðisfrumu þarf í einræktun, aðeins líkamsfrumukjarna og eggfrumu sem kjarni hefur verið tekinn úr. Því gætu pör með ófrjósemisvandamál eða arfgenga sjúkdóma, lesbíur eða einhleypar konur, eignast börn án utanaðkomandi hráefnis.



Andmæli gegn hugmyndinni eru mörg. Sum þeirra eru byggð á misskilningi á borð við þann að sá einræktaði verði alveg eins og sá sem átti líkamsfrumuna. Það verður hann ekki, meðal annars vegna þess að hann yrði úr annarri eggfrumu. Erfðaefni er ekki bara í kjarna eggsins heldur eru líka svokölluð hvatberagen í umfryminu. Vegna þessa yrði erfðamengi þess einræktaða örlítið öðruvísi en þess sem átti líkamsfrumuna. Auk þess myndu þeir mótast á mismunandi hátt á meðgöngunni ef það er ekki sama kona sem gengur með báða.

Önnur andmæli eru byggð á getgátum og framtíðarspám sem eru til að mynda tengdar sálarlífi þess einræktaða og áhrifum á erfðafræðilegan fjölbreytileika mannlífs í framtíðinni. Eitt er þó ljóst, að megingallinn er lágt árangurshlutfall (1-3%) úr dýratilraunum. Líkur á mistökum í formi vanskapnaðar og dauða einhvers staðar í ferlinu eru miklar og slíkur fórnarkostnaður er siðferðilega óviðunandi þegar verið er að fást við manneskjur.

En það er líka mögulegt að nota einræktun í læknisfræðilegum tilgangi. Hugmyndin er sú að einrækta fósturvísi úr líkamsfrumu einstaklings sem haldinn er alvarlegum sjúkdómi. Á fyrstu sólarhringunum eru frumur fósturvísis ósérhæfðar og geta tekið að sér hvaða hlutverk sem er í líkamanum, svokallaðar stofnfrumur. Þeim er síðan komið fyrir í skemmdum vef eða líffæri sjúklings þar sem þær taka að sér endurnýjunarhlutverk. Ástæða þess að æskilegt þykir að nota einræktaðar stofnfrumur úr sjúklingi sjálfum er að þær valda þá ekki höfnunareinkennum hjá honum eins og gæti gerst væri fósturvísirinn kynæxlaður. En með þessu skapast stórt siðferðilegt álitamál því hér er verið að mynda nýtt líf í öðrum tilgangi en sjálfs þess vegna. Þarna er hugmyndin að búa til fósturvísi til að lækna "eiganda" hans og deyða hann síðan. Margir telja þetta siðferðilega rangt en aðrir telja ávinninginn vega þyngra en fórnina í þessu tilliti.



Mynd: Úr kvikmyndinni Alien Resurrection...