Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Eru til sérstakir íslenskir steinar?

Sigurður Steinþórsson

Í stuttu máli eru ekki til neinir „sérstakir íslenskir steinar“ í þeim skilningi að þeir finnist hvergi nema hér. Hins vegar eru nokkrir steinar sem mætti kalla einkennandi fyrir Ísland. Með steinum er hér annars vegar átt við berg (grjót) og hins vegar steindir (steintegundir).

Steind er skilgreind sem kristallað fast efni eða efnasamband sem finnst sjálfstætt í náttúrunni og er myndað á náttúrulegan hátt. Berg er langoftast samsett úr mörgum steindum. Til dæmis er algengasta bergtegund Íslands, blágrýti (basalt), samsett úr fjórum meginsteindum: plagíóklas, ágíti, ólivíni og seguljárnsteini.

Einstakar steindir má sjá í grófkristölluðu bergi, en einkum í holufyllingum. Holufyllingar eru kristölluð frumefni sem fallið hafa út úr heitu grunnvatni í holum og sprungum í bergi sem grafist hefur undir yngri jarðmyndanir. Við rof geta holufyllingar komið í ljós á yfirborði og má þar iðulega finna stóra kristalla.

Eftirfarandi stein- og bergtegundir mega teljast nokkuð sérstakar eða einkennandi fyrir Ísland:

Silfurberg (kalkspat, kalsít) finnst sem holufylling víða um land. Samsetningin er CaCO3. Á ensku heitir silfurberg „Iceland spar“ því að á 17. öld fundust sérlega stórir og hreinir silfurbergskristallar á Helgustöðum við Reyðarfjörð og vöktu mikla athygli fræðimanna víða um lönd vegna sérstakra ljósbrotseiginleika sinna. Helgustaðanáman var numin annað veifið allt fram á 20. öld og silfurberg þaðan notað í ýmis ljósfræðitæki, til dæmis bergfræðismásjár. Náman lagðist af meðal annars vegna þess að aðrar og betri námur fundust í Mexíkó, og vegna þess að gerviefni komu að hluta í staðinn fyrir silfurberg í tækjum. Helgustaðanáma hefur verið friðlýst sem náttúruvætti frá árinu 1975 og þar má því hvergi raska bergmyndunum né hrófla við silfurbergi og flytja það út af svæðinu.

Zeólítar (suðusteinar, geislasteinar) finnast sömuleiðis sem holufyllingar víða um land. Samsetningin er vatnað álsilikat af kalsíni og natríni. Nafnið er tilkomið vegna þess að þeir freyða (sjóða) í eldi. Hér á landi finnast mjög margar tegundir af zeólítum, en þeir eru einkum eftirsóttir af steinasöfnurum. Zeólítar finnast sem holufyllingar víða um heim en einn þekktasti fundarstaður zeólíta í heiminum er að Teigarhorni í Berufirði sem nú er friðlýst sem náttúruvætti.

Íslandít er bergtegund sem dregur nafn sitt af landinu, en hún var fyrst „skilgreind“ um miðjan 7. áratuginn við Þingmúla í Skriðdal. Íslandít er skilgreint sem járnríkt ísúrt gosberg. Nafnið hlaut það til aðgreiningar frá andesíti sem er súra gosbergið sem einkennir til dæmis eldstöðvar í Andes- og Klettafjöllum á vesturströnd Ameríku og skilgreina mætti sem járnsnautt ísúrt gosberg. Hekluhraunin eru mörg hver íslandít.

Rhýólít kallast nú það berg sem áður nefndist líparít eða ljósgrýti (samanber blágrýti, grágrýti). Rhýólít er kísilríkt (súrt) gosberg sem er áberandi í landslaginu af því að það er svo ljóst á litinn. Mestu rhýólítsvæði landsins eru kringum Landmannalaugar (Torfajökulssvæðið) og í Borgarfirði eystra. Meðal þekktra rhýólítfjalla eru Móskarðshnjúkar í Kjós, Baula í Borgarfirði, Drápuhlíðarfjall í Helgafellssveit og Súlur við Akureyri. Rhýolít finnst aðallega á meginlöndunum en í litlum mæli á eyjum á úthafshryggjum. Miðað við að Ísland telst vera hluti af hafsbotnsskorpu jarðar er rhýólít „óeðlilega“ algengt hér og má því teljast einkennandi fyrir Ísland. Á Hawaii-eyjum, sem annars eru jarðfræðilega náskyldar Íslandi, er rhýólít óþekkt. Undanfarin 150 ár hafa jarðfræðingar fjallað með ýmsu móti um ástæður þess að rhýólít er svo algengt hér á landi sem raun ber vitni.

Blágrýti (basalt) er auðvitað mesta einkennis-bergtegund landsins, þar sem Ísland er að 9/10 hlutum úr blágrýti. Blágrýti finnst víða annars staðar, til dæmis á Grænlandi og í Skotlandi.

Sjá einnig svör sama höfundar við spurningunum:

Frekari lesning:

Leó Kristjánsson, 2001. „Silfurberg: einstæð saga kristallanna frá Helgustöðum“. Jökull, 50. árg.

Stefán Arnórsson, 1993. „Inngangur að bergfræði storkubergs“. Náttúrufræðingurinn, 62. árg. 3.-4. hefti.

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

15.4.2002

Spyrjandi

Óþekktur

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Eru til sérstakir íslenskir steinar?“ Vísindavefurinn, 15. apríl 2002. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2298.

Sigurður Steinþórsson. (2002, 15. apríl). Eru til sérstakir íslenskir steinar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2298

Sigurður Steinþórsson. „Eru til sérstakir íslenskir steinar?“ Vísindavefurinn. 15. apr. 2002. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2298>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Eru til sérstakir íslenskir steinar?
Í stuttu máli eru ekki til neinir „sérstakir íslenskir steinar“ í þeim skilningi að þeir finnist hvergi nema hér. Hins vegar eru nokkrir steinar sem mætti kalla einkennandi fyrir Ísland. Með steinum er hér annars vegar átt við berg (grjót) og hins vegar steindir (steintegundir).

Steind er skilgreind sem kristallað fast efni eða efnasamband sem finnst sjálfstætt í náttúrunni og er myndað á náttúrulegan hátt. Berg er langoftast samsett úr mörgum steindum. Til dæmis er algengasta bergtegund Íslands, blágrýti (basalt), samsett úr fjórum meginsteindum: plagíóklas, ágíti, ólivíni og seguljárnsteini.

Einstakar steindir má sjá í grófkristölluðu bergi, en einkum í holufyllingum. Holufyllingar eru kristölluð frumefni sem fallið hafa út úr heitu grunnvatni í holum og sprungum í bergi sem grafist hefur undir yngri jarðmyndanir. Við rof geta holufyllingar komið í ljós á yfirborði og má þar iðulega finna stóra kristalla.

Eftirfarandi stein- og bergtegundir mega teljast nokkuð sérstakar eða einkennandi fyrir Ísland:

Silfurberg (kalkspat, kalsít) finnst sem holufylling víða um land. Samsetningin er CaCO3. Á ensku heitir silfurberg „Iceland spar“ því að á 17. öld fundust sérlega stórir og hreinir silfurbergskristallar á Helgustöðum við Reyðarfjörð og vöktu mikla athygli fræðimanna víða um lönd vegna sérstakra ljósbrotseiginleika sinna. Helgustaðanáman var numin annað veifið allt fram á 20. öld og silfurberg þaðan notað í ýmis ljósfræðitæki, til dæmis bergfræðismásjár. Náman lagðist af meðal annars vegna þess að aðrar og betri námur fundust í Mexíkó, og vegna þess að gerviefni komu að hluta í staðinn fyrir silfurberg í tækjum. Helgustaðanáma hefur verið friðlýst sem náttúruvætti frá árinu 1975 og þar má því hvergi raska bergmyndunum né hrófla við silfurbergi og flytja það út af svæðinu.

Zeólítar (suðusteinar, geislasteinar) finnast sömuleiðis sem holufyllingar víða um land. Samsetningin er vatnað álsilikat af kalsíni og natríni. Nafnið er tilkomið vegna þess að þeir freyða (sjóða) í eldi. Hér á landi finnast mjög margar tegundir af zeólítum, en þeir eru einkum eftirsóttir af steinasöfnurum. Zeólítar finnast sem holufyllingar víða um heim en einn þekktasti fundarstaður zeólíta í heiminum er að Teigarhorni í Berufirði sem nú er friðlýst sem náttúruvætti.

Íslandít er bergtegund sem dregur nafn sitt af landinu, en hún var fyrst „skilgreind“ um miðjan 7. áratuginn við Þingmúla í Skriðdal. Íslandít er skilgreint sem járnríkt ísúrt gosberg. Nafnið hlaut það til aðgreiningar frá andesíti sem er súra gosbergið sem einkennir til dæmis eldstöðvar í Andes- og Klettafjöllum á vesturströnd Ameríku og skilgreina mætti sem járnsnautt ísúrt gosberg. Hekluhraunin eru mörg hver íslandít.

Rhýólít kallast nú það berg sem áður nefndist líparít eða ljósgrýti (samanber blágrýti, grágrýti). Rhýólít er kísilríkt (súrt) gosberg sem er áberandi í landslaginu af því að það er svo ljóst á litinn. Mestu rhýólítsvæði landsins eru kringum Landmannalaugar (Torfajökulssvæðið) og í Borgarfirði eystra. Meðal þekktra rhýólítfjalla eru Móskarðshnjúkar í Kjós, Baula í Borgarfirði, Drápuhlíðarfjall í Helgafellssveit og Súlur við Akureyri. Rhýolít finnst aðallega á meginlöndunum en í litlum mæli á eyjum á úthafshryggjum. Miðað við að Ísland telst vera hluti af hafsbotnsskorpu jarðar er rhýólít „óeðlilega“ algengt hér og má því teljast einkennandi fyrir Ísland. Á Hawaii-eyjum, sem annars eru jarðfræðilega náskyldar Íslandi, er rhýólít óþekkt. Undanfarin 150 ár hafa jarðfræðingar fjallað með ýmsu móti um ástæður þess að rhýólít er svo algengt hér á landi sem raun ber vitni.

Blágrýti (basalt) er auðvitað mesta einkennis-bergtegund landsins, þar sem Ísland er að 9/10 hlutum úr blágrýti. Blágrýti finnst víða annars staðar, til dæmis á Grænlandi og í Skotlandi.

Sjá einnig svör sama höfundar við spurningunum:

Frekari lesning:

Leó Kristjánsson, 2001. „Silfurberg: einstæð saga kristallanna frá Helgustöðum“. Jökull, 50. árg.

Stefán Arnórsson, 1993. „Inngangur að bergfræði storkubergs“. Náttúrufræðingurinn, 62. árg. 3.-4. hefti....