Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er ataraxía?

Svavar Hrafn Svavarsson

Gríska nafnorðið ataraxía merkir „hugarró“. Það er sett saman úr neitandi forskeyti og nafnorðinu tarakhē, sem merkir „truflun“ eða „æsingur“.

Hugtakið var notað innan grískrar siðfræði. Þar tilheyrði það upphaflega ekki þeirri markhyggju sem einkennir kenningar Platons og Aristótelesar um færsældina (evdæmonía), að til sé endanlegt markmið mannlegrar breytni og lífsins alls sem við ættum að líta til og mögulegt sé að gera skynsamlega grein fyrir. Það er einna fyrst að finna hjá Demókrítosi (f. 460/57 f.Kr.) ásamt áþekkum hugtökum, sem öll eiga að lýsa ánægjulegu hugarástandi.

Epikúros (341-270 f.Kr.) sótti margt til Demókrítosar, ekki síst atómkenninguna. Hugmynd hans um ánægju (hedonē), sældarhyggjan, var hins vegar sett fram innan ramma markhyggjunnar. Þar gegnir ataraxía lykilhlutverki og lýsir því hugarástandi að vera laus við þjáningu, sem er snar þáttur farsældarinnar. Stóumenn nota líka hugtakið til að lýsa hugarástandi þess sem hefur öðlast farsældina. Pyrrhon gerir sér enn fremur mat úr hugtakinu, en á svipaðan hátt og Demókrítos; vafalaust er hann skuldbundinn honum.

Pyrrhonskir efahyggjumenn, en þeirra nafntogaðastur er Sextos Empeiríkos (um 200 e.Kr.), nota einnig hugtakið til að lýsa ákjósanlegu hugarástandi. Þeir benda á að öllum skoðunum fylgi skuldbinding og henni fylgi æsingur; leggi maður skoðanir fyrir róða fylgi hugarró. Þó er þetta ekki skoðun þeirra, enda hafa þeir engar skoðanir. Þeim þótti hægast að rökræða við aðra heimspekinga á forsendum þeirra og leiða þá í mótsögn eða að einhverri niðurstöðu sem féll illa að kenningum þeirra. Þannig færðu efahyggjumenn rök fyrir því að skoðanir andstæðinga þeirra leiddu til þeirrar niðurstöðu að það væru efahyggjumenn sem öðluðust hugarró.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Svavar Hrafn Svavarsson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

24.4.2009

Spyrjandi

Gabríela Mikaelsdóttir

Tilvísun

Svavar Hrafn Svavarsson. „Hvað er ataraxía?“ Vísindavefurinn, 24. apríl 2009, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=23028.

Svavar Hrafn Svavarsson. (2009, 24. apríl). Hvað er ataraxía? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=23028

Svavar Hrafn Svavarsson. „Hvað er ataraxía?“ Vísindavefurinn. 24. apr. 2009. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=23028>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er ataraxía?
Gríska nafnorðið ataraxía merkir „hugarró“. Það er sett saman úr neitandi forskeyti og nafnorðinu tarakhē, sem merkir „truflun“ eða „æsingur“.

Hugtakið var notað innan grískrar siðfræði. Þar tilheyrði það upphaflega ekki þeirri markhyggju sem einkennir kenningar Platons og Aristótelesar um færsældina (evdæmonía), að til sé endanlegt markmið mannlegrar breytni og lífsins alls sem við ættum að líta til og mögulegt sé að gera skynsamlega grein fyrir. Það er einna fyrst að finna hjá Demókrítosi (f. 460/57 f.Kr.) ásamt áþekkum hugtökum, sem öll eiga að lýsa ánægjulegu hugarástandi.

Epikúros (341-270 f.Kr.) sótti margt til Demókrítosar, ekki síst atómkenninguna. Hugmynd hans um ánægju (hedonē), sældarhyggjan, var hins vegar sett fram innan ramma markhyggjunnar. Þar gegnir ataraxía lykilhlutverki og lýsir því hugarástandi að vera laus við þjáningu, sem er snar þáttur farsældarinnar. Stóumenn nota líka hugtakið til að lýsa hugarástandi þess sem hefur öðlast farsældina. Pyrrhon gerir sér enn fremur mat úr hugtakinu, en á svipaðan hátt og Demókrítos; vafalaust er hann skuldbundinn honum.

Pyrrhonskir efahyggjumenn, en þeirra nafntogaðastur er Sextos Empeiríkos (um 200 e.Kr.), nota einnig hugtakið til að lýsa ákjósanlegu hugarástandi. Þeir benda á að öllum skoðunum fylgi skuldbinding og henni fylgi æsingur; leggi maður skoðanir fyrir róða fylgi hugarró. Þó er þetta ekki skoðun þeirra, enda hafa þeir engar skoðanir. Þeim þótti hægast að rökræða við aðra heimspekinga á forsendum þeirra og leiða þá í mótsögn eða að einhverri niðurstöðu sem féll illa að kenningum þeirra. Þannig færðu efahyggjumenn rök fyrir því að skoðanir andstæðinga þeirra leiddu til þeirrar niðurstöðu að það væru efahyggjumenn sem öðluðust hugarró.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:...