Líkt og í hafinu er fjölskrúðugt dýra- og þörungalíf í efstu lögum ferskvatnsins. Þessar lífverur eru yfirleitt svo smáar að aðeins er hægt að skoða þær í víðsjá. Dýrafánan einkennist af hryggleysingjum á borð við krabbadýr, frumdýr og þyrildýr en hér til hliðar má sjá þyrildýrið spaðaþyrlu (Keratella cochlearis)sem er algengt svifdýr í Mývatni. Þetta dýr lifir á smásæjum lífrænum efnum sem fljóta um í efstu lögum vatnsins.
Dýralíf getur einnig verið fjölskrúðugt á botni vatna og tjarna, sérstaklega í þeim vötnum sem eru svo grunn að sólarljósið nær niður á botn eins og í Mývatni. Á botni Mývatns eru meðal annars dýr sem lifa á jurtaleifum og bakteríum eins og kornátan (Eurycercus lamellatus). Önnur botnlæg dýr á Mývatni stunda ránlífi og má þar meðal annars nefna holdýrið Hydra attenuata sem sjá má á myndinni hér til hliðar. Holdýrið drepur bráð sína með eitri sem kemur úr sérstökum þráðarhylkjum(nematocystes) sem finnast einnig hjá marglyttum. Þau dýr sem verða helst fyrir barðinu á þessu dýri eru smásæjar krabbaflær.
Í grunnum vötnum á Íslandi má einnig rekast á annað skætt rándýr af blóðsuguætt (Hirudinea), sem heitir Helobdella stagnalis. Í Mývatni lifir þetta dýr einkum á rykmýslirfum og liðormum.
Grasbítar eru einnig algengir í gróskumiklum vötnum með mikla frumframleiðslu og í slíkum vötnum má helst rekast á vatnabobbann (Lynmaea peregra) sem lifir á botnlægum þörungum. Eitt alstærsta krabbadýr sem finnst í lygnum vötnum á Íslandi er hinn sérstæði skötuormur (Lepidurus arcticus). Án halans getur hann orðið rúmir 2 sentímetrar á lengd og lifir einkum á smávöxnum vatnsflóm sem er mikilvæg fæða fyrir silung og vatnafugla.
Fjölbreytileiki dýrafánu í íslenskum vötnum er fábrotinn ef miðað er við dýralíf í ferskvötnum á svipuðum breiddargráðum í Evrópu og Norður-Ameríku. Íslenska dýrafánan sver sig í ætt við þá fánu sem þekkist á heimskautasvæðunum. Skýringin á þessu er að mati vísindamanna einkum sú hversu einangrað landið er og stutt síðan það kom undan heimskautaísnum fyrir 10 til 11 þúsund árum.
Af hryggdýrum er hornsíli (Gasterosteus aculeatus) sú tegund sem eflaust hefur mesta útbreiðslu í íslensku vötnum, tjörnum og lygnum ám og lækjum. Hornsíli prýðir einmitt myndina hér til hliðar. Af öðrum ferskvatnsfiskum má nefna urriða (Salmo trutta), bleikju (Salvelinus alpinus) og lax (Salmo salar) sem gengur í íslenskar ár til að hrygna.
Mun fleiri fisktegundir finnast í vötnum og ám í Evrópu en hér. Til dæmis lifa 40 til 45 tegundir í Noregi en aðeins 5 tegundir hér á landi. Á fáeinum stöðum úti í heimi lifa nokkur spendýr í vötnum og fljótum eins og til dæmis selir sem lifa meðal annars í nokkrum vötnum í Finnlandi og í Bajkalvatni í Síberíu. Höfrungar (Delpinus) og sækýr (Trichechus) lifa í stórfljótum og á vatnasvæðum utan Evrópu.
Myndina af hornsílinu fundum við á vefsetri HólaskólaÞyrludýrið fannst á vefsetri Stetson University
Myndin af holdýrinu var á vefsetrinu Fun Science Gallery