Sólin Sólin Rís 09:19 • sest 17:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:08 • Síðdegis: 19:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:57 • Síðdegis: 13:22 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:19 • sest 17:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:08 • Síðdegis: 19:20 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:57 • Síðdegis: 13:22 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Mundi vindakerfi jarðar breytast mikið við það að jörðin væri fullkomlega hnöttótt?

Haraldur Ólafsson

Vindar á jörðinni stafa af mismuni í loftþrýstingi sem er til kominn af mismun í hitun loftsins milli svæða. Þættir á borð við snúning jarðar, viðnám við jörð og fasaskipti vatns hafa svo einnig áhrif á hvernig vindar blása.

Þótt jörðin væri fullkomlega hnöttótt, þannig að öll fjöll væru jöfnuð út og ummál jarðarinnar yrði nákvæmlega hið sama hvort sem mælt yrði eftir miðbaug eða um heimskautin, er óvíst hvort grundvallarbreytingar yrðu á vindakerfum. Við hugsum okkur væntanlega að möndulsnúningur jarðar breyttist ekki og því yrði sólgeislun við heimskautin áfram einungis brot af því sem yrði við miðbaug. Eðli varmaskipta milli andrúmslofts annars vegar og lands og hafs hins vegar yrði sömuleiðis hið sama og fyrr.

Á hinn bóginn er vitað að fjöll ráða töluverðu um það, hvernig vindar blása. Ef borin eru saman meðalvindakort á suðurhveli og norðurhveli jarðar sést nokkur munur, til dæmis á lögun vestanvindabeltisins. Talið er að þessi munur stafi af ólíku hlutfalli meginlanda af yfirborði jarðar, en einnig af fjallgörðum á norðurhveli sem eiga sér ekki hliðstæðu á suðurhveli. Ástæða er þvi til að ætla að á fullkomlega kúlulaga jörð væri vindakerfi að einhverju marki ólíkt því sem nú er á jörðinni.

Líkön sem notuð eru til að reikna þróun veðurfars á jörðinni taka ekki að fullu tillit til landslags vegna takmarkaðrar reiknigetu þeirra tölva sem til ráðstöfunar eru. Nokkur áhersla er því lögð á að rannsaka sérstaklega áhrif fjalla á veður og veðurfar, bæði í næsta nágrenni við fjöllin sem og fjarri þeim. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á Íslandi benda til þess að ein orsök Íslandslægðarinnar sé Grænland og að tíðni norðvestanáttar væri meiri á vestanverðu Íslandi ef Grænland væri ekki til staðar. Þá hefur komið í ljós að tilvist Grænlands getur stuðlað að dýpkun lægða sem fara yfir Norður-Atlantshaf á leið til Bretlandseyja og meginlands Evrópu.

Höfundur

Haraldur Ólafsson

prófessor í veðurfræði við HÍ

Útgáfudagur

14.3.2000

Spyrjandi

Steinn Jónsson

Tilvísun

Haraldur Ólafsson. „Mundi vindakerfi jarðar breytast mikið við það að jörðin væri fullkomlega hnöttótt?“ Vísindavefurinn, 14. mars 2000, sótt 3. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=235.

Haraldur Ólafsson. (2000, 14. mars). Mundi vindakerfi jarðar breytast mikið við það að jörðin væri fullkomlega hnöttótt? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=235

Haraldur Ólafsson. „Mundi vindakerfi jarðar breytast mikið við það að jörðin væri fullkomlega hnöttótt?“ Vísindavefurinn. 14. mar. 2000. Vefsíða. 3. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=235>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Mundi vindakerfi jarðar breytast mikið við það að jörðin væri fullkomlega hnöttótt?
Vindar á jörðinni stafa af mismuni í loftþrýstingi sem er til kominn af mismun í hitun loftsins milli svæða. Þættir á borð við snúning jarðar, viðnám við jörð og fasaskipti vatns hafa svo einnig áhrif á hvernig vindar blása.

Þótt jörðin væri fullkomlega hnöttótt, þannig að öll fjöll væru jöfnuð út og ummál jarðarinnar yrði nákvæmlega hið sama hvort sem mælt yrði eftir miðbaug eða um heimskautin, er óvíst hvort grundvallarbreytingar yrðu á vindakerfum. Við hugsum okkur væntanlega að möndulsnúningur jarðar breyttist ekki og því yrði sólgeislun við heimskautin áfram einungis brot af því sem yrði við miðbaug. Eðli varmaskipta milli andrúmslofts annars vegar og lands og hafs hins vegar yrði sömuleiðis hið sama og fyrr.

Á hinn bóginn er vitað að fjöll ráða töluverðu um það, hvernig vindar blása. Ef borin eru saman meðalvindakort á suðurhveli og norðurhveli jarðar sést nokkur munur, til dæmis á lögun vestanvindabeltisins. Talið er að þessi munur stafi af ólíku hlutfalli meginlanda af yfirborði jarðar, en einnig af fjallgörðum á norðurhveli sem eiga sér ekki hliðstæðu á suðurhveli. Ástæða er þvi til að ætla að á fullkomlega kúlulaga jörð væri vindakerfi að einhverju marki ólíkt því sem nú er á jörðinni.

Líkön sem notuð eru til að reikna þróun veðurfars á jörðinni taka ekki að fullu tillit til landslags vegna takmarkaðrar reiknigetu þeirra tölva sem til ráðstöfunar eru. Nokkur áhersla er því lögð á að rannsaka sérstaklega áhrif fjalla á veður og veðurfar, bæði í næsta nágrenni við fjöllin sem og fjarri þeim. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á Íslandi benda til þess að ein orsök Íslandslægðarinnar sé Grænland og að tíðni norðvestanáttar væri meiri á vestanverðu Íslandi ef Grænland væri ekki til staðar. Þá hefur komið í ljós að tilvist Grænlands getur stuðlað að dýpkun lægða sem fara yfir Norður-Atlantshaf á leið til Bretlandseyja og meginlands Evrópu....