Sólin Sólin Rís 09:04 • sest 18:20 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:35 • Sest 10:41 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:58 • Síðdegis: 17:25 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:23 • Síðdegis: 23:25 í Reykjavík

Hvað gerist ef vísindin sanna að Guð er ekki til og var aldrei til?

Hjalti Hugason

Ólíklegt er að nokkuð muni gerast eða að einhver „sönnun" af því tagi sem spyrjandi gerir ráð fyrir muni hafa eitthvert raunverulegt gildi. Sannast sagna hafa vísindamenn og heimspekingar oft talið sig hafa lagt fram fullgild rök og jafnvel sannanir fyrir annað tveggja tilveru Guðs eða hinu að hann hafi aldrei verið til. Ekki verður séð að viðleitni af þessu tagi hafi haft nein varanleg áhrif þegar á heildina er litið. Trúarbrögðin og trúarstofnanirnar (til dæmis íslenska þjóðkirkjan) byggja ekki starf sitt eða tilveru á neinni slíkri „jákvæðri sönnun". „Neikvæðar sannanir" hafa heldur ekki orðið til þess að trúarbrögð eða trúarstofnanir hafi lagst af svo ég viti til.

Eins má spyrja: Hvaða vísindagreinar eru líklegar til að geta komið fram með sönnun af því tagi sem gert er ráð fyrir? Hvaða aðferðum og viðmiðunum ætti að beita? Og hver ætti að dæma um það að sönnunin væri gild? Álit mitt er raunar að það brjóti í bága við sjálft eðli vísindanna að telja spurningar um tilveru Guðs falli undir verksvið þeirra. Jafnvel guðfræðingar fjalla sárasjaldan um þessa spurningu! Þrátt fyrir þetta tel ég að röksemdafærslur og sannanir af því tagi sem hér um ræðir kunni að hafa nokkurt gildi og töluverð áhrif á einstaklinga sem lætur vel að hugsa á þeim brautum - jafnvel um mál sem aðrir leysa á tilfinningabundnari hátt. Hér á ég við mál eins og ástina svo dæmi sé tekið. Sumir vilja sannanir fyrir því að þeir séu elskaðir - öðrum nægir von um eða tilfinning fyrir því að svo sé. Svipað er það væntanlega á sviði trúarinnar.

Fyrir skömmu svaraði ég á öðrum vettvangi svipaðri spurningu, það er: Hvernig reiðir Guði af í heimi vísindanna við aldarlok? Ég læt svar mitt við henni fylgja hér á eftir til frekari glöggvunar:

Spurningu af þessu tagi er torvelt að svara í nútíð og marklítið að glíma við í framtíð. Vitrænt svar krefst þess að við færum spurninguna að minnsta kosti yfir í núliðna tíð: Hvernig hefur Guði reitt af í heimi vísindanna? Við verðum með öðrum orðum að líta um öxl og túlka langtímasamhengi. Í þessu tilviki kýs ég að miða við þá vísindabyltingu sem átti sér stað á 17. öld. Þá sköpuðust forsendur fyrir þeirri heimsmynd sem hefur manninn með báða fætur á jörðinni í miðpunkti. Áður var sólin miðja hinnar efnislegu heimsmyndar og Guð miðpunktur hinnar huglægu veruleikatúlkunnar. Síðan hafa margar og víðtækar byltingar gengið yfir í heimi tækni og vísinda. Má í því sambandi benda á upplýsingartímann og loks yfirstandandi tíma með hraðstígum breytingum á sviði genarannsókna, erfðagreininga og gagnabanka.

Fljótt á litið hefur kirkjunni ekki reitt vel af í þessi 300 ár. Hún hefur hrakist úr hásæti út í horn. Sú var tíð að guðfræðin var drottning vísindanna. Nú lifir fátt eitt eftir að þeirri frægð. Áður voru margir háskólar kirkjulegar stofnanir. Nú þætti rannsóknarfrelsi stefnt í voða ef fella ætti þá undir slíkan hatt. Á þessum 300 ára hrakningatíma hafa skeið afneitunar, aðlögunar og óraunsæis skipst á við tímabil þar sem kirkjan hefur fengist við vanda sinn á uppbyggilegri hátt. Frammi fyrir vísindabyltingum hefur kirkjustofnuninni oft fallist hendur og hún kosið að afneita þeirri ógn sem af þeim stafaði. Andstæðra viðbragða hefur þó einnig gætt. Gagnrýnislítið hefur þá öllum vísindalegum nýjungunum verið sporðrennt sem stórum sannleika líkt og vísindamenn geti ekki flaggað nýjum fötum eins og keisarinn forðum. Svo koma óraunsæisskeiðin þegar menn sætta sig við að vera borgarar í tveimur ríkjum - öðru um helgar en hinu á virkum dögum - og ganga út frá því að sín lög gildi í hvoru.

En víkjum að upphafsspurningunni. Þegar vöngum er velt yfir því hvernig Guði muni reiða af er í raun spurt um framtíð orðræðunnar um Guð. Í því sambandi er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að um hann eru til tvær orðræður: Orðræða trúarinnar og orðræða guðfræðinnar. Milli þeirra eru margháttuð tengsl. Þó tekst kirkjunni ef til vill best í glímu sinni við vísindin þegar hún heldur þeim aðgreindum. Orðræða trúarinnar er í ætt við málfar ljóðsins. Eins og ljóð verða ort um langa framtíð mun áfram verða rætt um Guð á máli trúarinnar. Ljóð sprettur oft af glímu skálds við lifaðan veruleika. Eins verður orðræða trúarinnar að eiga rætur í þeim veruleika sem mælandinn hrærist í. Hún er því ekki óháð vísindunum að svo miklu leyti sem þau eru hluti veruleikans. Trúin lýtur þó ekki valdi vísindanna. Orðræða guðfræðinnar er á hinn bóginn hluti af vísindunum og lýtur sömu lögmálum og þau. Hún hefur tekið margháttuðum breytingum og mun halda áfram að breytast í framtíðinni. Í upphafi var Guð viðfang hinnar guðfræðilegu orðræðu. Nú fæst guðfræðin frekar við orðræðu trúarinnar. Hvert viðfang hennar verður í framtíðinni er ef til vill ekki ljóst. Kannski verður guðfræðin í vaxandi mæli sitt eigið viðfang eða orðræða um orðræðuna um Guð.

Þetta var í raun aðeins yfirborðsleg túlkun á kirkjusögunni en spurt var um afdrif Guðs sjálfs. Mig grunar að dýpst í hjarta tilverunnar sitji Guð á hástóli sínum og brosi út í annað. Að vísu stolt(ur) yfir viðleitni okkar til að brjóta tilveruna til mergjar en samt svolítið áhyggjufull(ur) yfir því að við förum okkur að voða. Þau vísindi sem þekkja bæði stolt og áhyggjur munu að mínum dómi reynast best í framtíðinni. Trúarbrögð og vísindi eru ekki andstæðingar.

Höfundur

Hjalti Hugason

prófessor emeritus í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

14.3.2000

Spyrjandi

Viðar Kristinsson

Tilvísun

Hjalti Hugason. „Hvað gerist ef vísindin sanna að Guð er ekki til og var aldrei til?“ Vísindavefurinn, 14. mars 2000. Sótt 21. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=236.

Hjalti Hugason. (2000, 14. mars). Hvað gerist ef vísindin sanna að Guð er ekki til og var aldrei til? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=236

Hjalti Hugason. „Hvað gerist ef vísindin sanna að Guð er ekki til og var aldrei til?“ Vísindavefurinn. 14. mar. 2000. Vefsíða. 21. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=236>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað gerist ef vísindin sanna að Guð er ekki til og var aldrei til?
Ólíklegt er að nokkuð muni gerast eða að einhver „sönnun" af því tagi sem spyrjandi gerir ráð fyrir muni hafa eitthvert raunverulegt gildi. Sannast sagna hafa vísindamenn og heimspekingar oft talið sig hafa lagt fram fullgild rök og jafnvel sannanir fyrir annað tveggja tilveru Guðs eða hinu að hann hafi aldrei verið til. Ekki verður séð að viðleitni af þessu tagi hafi haft nein varanleg áhrif þegar á heildina er litið. Trúarbrögðin og trúarstofnanirnar (til dæmis íslenska þjóðkirkjan) byggja ekki starf sitt eða tilveru á neinni slíkri „jákvæðri sönnun". „Neikvæðar sannanir" hafa heldur ekki orðið til þess að trúarbrögð eða trúarstofnanir hafi lagst af svo ég viti til.

Eins má spyrja: Hvaða vísindagreinar eru líklegar til að geta komið fram með sönnun af því tagi sem gert er ráð fyrir? Hvaða aðferðum og viðmiðunum ætti að beita? Og hver ætti að dæma um það að sönnunin væri gild? Álit mitt er raunar að það brjóti í bága við sjálft eðli vísindanna að telja spurningar um tilveru Guðs falli undir verksvið þeirra. Jafnvel guðfræðingar fjalla sárasjaldan um þessa spurningu! Þrátt fyrir þetta tel ég að röksemdafærslur og sannanir af því tagi sem hér um ræðir kunni að hafa nokkurt gildi og töluverð áhrif á einstaklinga sem lætur vel að hugsa á þeim brautum - jafnvel um mál sem aðrir leysa á tilfinningabundnari hátt. Hér á ég við mál eins og ástina svo dæmi sé tekið. Sumir vilja sannanir fyrir því að þeir séu elskaðir - öðrum nægir von um eða tilfinning fyrir því að svo sé. Svipað er það væntanlega á sviði trúarinnar.

Fyrir skömmu svaraði ég á öðrum vettvangi svipaðri spurningu, það er: Hvernig reiðir Guði af í heimi vísindanna við aldarlok? Ég læt svar mitt við henni fylgja hér á eftir til frekari glöggvunar:

Spurningu af þessu tagi er torvelt að svara í nútíð og marklítið að glíma við í framtíð. Vitrænt svar krefst þess að við færum spurninguna að minnsta kosti yfir í núliðna tíð: Hvernig hefur Guði reitt af í heimi vísindanna? Við verðum með öðrum orðum að líta um öxl og túlka langtímasamhengi. Í þessu tilviki kýs ég að miða við þá vísindabyltingu sem átti sér stað á 17. öld. Þá sköpuðust forsendur fyrir þeirri heimsmynd sem hefur manninn með báða fætur á jörðinni í miðpunkti. Áður var sólin miðja hinnar efnislegu heimsmyndar og Guð miðpunktur hinnar huglægu veruleikatúlkunnar. Síðan hafa margar og víðtækar byltingar gengið yfir í heimi tækni og vísinda. Má í því sambandi benda á upplýsingartímann og loks yfirstandandi tíma með hraðstígum breytingum á sviði genarannsókna, erfðagreininga og gagnabanka.

Fljótt á litið hefur kirkjunni ekki reitt vel af í þessi 300 ár. Hún hefur hrakist úr hásæti út í horn. Sú var tíð að guðfræðin var drottning vísindanna. Nú lifir fátt eitt eftir að þeirri frægð. Áður voru margir háskólar kirkjulegar stofnanir. Nú þætti rannsóknarfrelsi stefnt í voða ef fella ætti þá undir slíkan hatt. Á þessum 300 ára hrakningatíma hafa skeið afneitunar, aðlögunar og óraunsæis skipst á við tímabil þar sem kirkjan hefur fengist við vanda sinn á uppbyggilegri hátt. Frammi fyrir vísindabyltingum hefur kirkjustofnuninni oft fallist hendur og hún kosið að afneita þeirri ógn sem af þeim stafaði. Andstæðra viðbragða hefur þó einnig gætt. Gagnrýnislítið hefur þá öllum vísindalegum nýjungunum verið sporðrennt sem stórum sannleika líkt og vísindamenn geti ekki flaggað nýjum fötum eins og keisarinn forðum. Svo koma óraunsæisskeiðin þegar menn sætta sig við að vera borgarar í tveimur ríkjum - öðru um helgar en hinu á virkum dögum - og ganga út frá því að sín lög gildi í hvoru.

En víkjum að upphafsspurningunni. Þegar vöngum er velt yfir því hvernig Guði muni reiða af er í raun spurt um framtíð orðræðunnar um Guð. Í því sambandi er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að um hann eru til tvær orðræður: Orðræða trúarinnar og orðræða guðfræðinnar. Milli þeirra eru margháttuð tengsl. Þó tekst kirkjunni ef til vill best í glímu sinni við vísindin þegar hún heldur þeim aðgreindum. Orðræða trúarinnar er í ætt við málfar ljóðsins. Eins og ljóð verða ort um langa framtíð mun áfram verða rætt um Guð á máli trúarinnar. Ljóð sprettur oft af glímu skálds við lifaðan veruleika. Eins verður orðræða trúarinnar að eiga rætur í þeim veruleika sem mælandinn hrærist í. Hún er því ekki óháð vísindunum að svo miklu leyti sem þau eru hluti veruleikans. Trúin lýtur þó ekki valdi vísindanna. Orðræða guðfræðinnar er á hinn bóginn hluti af vísindunum og lýtur sömu lögmálum og þau. Hún hefur tekið margháttuðum breytingum og mun halda áfram að breytast í framtíðinni. Í upphafi var Guð viðfang hinnar guðfræðilegu orðræðu. Nú fæst guðfræðin frekar við orðræðu trúarinnar. Hvert viðfang hennar verður í framtíðinni er ef til vill ekki ljóst. Kannski verður guðfræðin í vaxandi mæli sitt eigið viðfang eða orðræða um orðræðuna um Guð.

Þetta var í raun aðeins yfirborðsleg túlkun á kirkjusögunni en spurt var um afdrif Guðs sjálfs. Mig grunar að dýpst í hjarta tilverunnar sitji Guð á hástóli sínum og brosi út í annað. Að vísu stolt(ur) yfir viðleitni okkar til að brjóta tilveruna til mergjar en samt svolítið áhyggjufull(ur) yfir því að við förum okkur að voða. Þau vísindi sem þekkja bæði stolt og áhyggjur munu að mínum dómi reynast best í framtíðinni. Trúarbrögð og vísindi eru ekki andstæðingar. ...