Gríski bókstafurinn ómega (W eða w) stóð í forngrísku fyrir langt o-hljóð. Það var einungis lengdin sem aðgreindi hann frá stafnum ómikron (O eða o), sem var skrifaður alveg eins og O í okkar stafrófi og stóð fyrir stutt o-hljóð. Þessi aðgreining sést raunar á nöfnum stafanna því að omega þýðir bókstaflega "stóra o" en omíkron þýðir "litla o".
Ómega kemur oft fyrir í kirkjulist og stendur þá með gríska stafnum alfa (A eða a) sem í grísku táknaði ýmist stutt eða langt a-hljóð, og samsvarar nánast algerlega A í stafrófum nútímans. Saman vísa þessir bókstafir til Guðs eða Krists og tákna að hann sé alger og alltumlykjandi, upphaf og endir allra hluta. Táknið kemur fyrst fyrir í Opinberun Jóhannesar þar sem segir:- Ég er Alfa og Ómega, segir Drottinn Guð, hann sem er og var og kemur, hinn alvaldi. (Opinberun Jóhannesar 1:8)
- Og hann sagði við mig: ,,Það er fram komið. Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns." (Opinberun Jóhannesar 21:6)
- Ég er Alfa og Ómega, hinn fyrsti og hinn síðasti, upphafið og endirinn. (Opinberun Jóhannesar 22:13)
- Svo segir Drottinn, konungur Ísraels og frelsari, Drottinn allsherjar: "Ég er hinn fyrsti og ég er hinn síðasti, og enginn Guð er til nema ég." (Jesaja 44:6)
- Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. (Sálmarnir 90:2)
- Encyclopædia Britannica
- Goodwin, William W. Greek Grammar, Bristol Classical Press, London, 1997,
- Biblían
Mynd: HB