Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Marie Curie er einn frægasti eðlis- og efnafræðingur sögunnar. Hún hlaut tvisar sinnum Nóbelsverðlaun fyrir rannsóknir sínar á geislavirkni og frumefninu radíni. Rannsóknir hennar voru sannkallað brautryðjendastarf varðandi eiginleika frumefna og þróun og nýtingu kjarnorku.
Marie Curie, eða Maria Sklodowska eins og hún hét upphaflega, fæddist í Varsjá í Póllandi árið 1867. Hún missti móður sína þegar hún var 11 ára gömul. Faðir hennar var kennari í eðlisfræði og stærðfræði og vöktu þessi fræði mikinn áhuga hjá stúlkunni. Faðir Marie hélt dætrum sínum að bókum enda þótti honum eðlilegt að stúlkur stunduðu nám jafnt við stráka. Þessi afstaða var um margt óvenjuleg fyrir þennan tíma því að stúlkum var þá til dæmis meinaður aðgangur að háskólum í Póllandi.
Marie var góðum gáfum gædd og gat til dæmis talað fimm tungumál sem ung stúlka. Henni var margt fleira til lista lagt og gat leikið á píanó, dansað og saumað af mikilli list. Náttúruvísindi áttu þó hug hennar allan og æðsti draumur hennar var að geta stundað nám við Sorbonne háskólann í París í Frakklandi. Fjölskylda hennar var þó ekki vel efnum búin svo að litlar líkur virtust á því að þessi draumur hennar gæti ræst. En Marie dó ekki ráðalaus og í stað þess að fara í háskólanám strax vann hún sem kennslukona hjá nokkrum fjölskyldum í Póllandi. Peningana sem hún vann sér inn sendi hún systur sinni sem lagði stund á læknisfræði í París. Þær systur höfðu gert með sér samkomulag um að styðja hvor aðra til náms. Marie borgaði fyrst nám systur sinnar en síðar borgaði systirin fyrir nám Marie.
Árið 1891 kom Maria Sklodowska loks til Parísar til þess að stunda nám við Sorbonne. Af 12.000 nemendum skólans voru einungis örfáar konur. Marie helti sér út í námið og lifði mjög einföldu og fábreyttu lífi. Pierre Curie hitti hún árið 1894 og giftist honum árið eftir. Pierre var þegar orðin frægur eðlis- og efnafræðingur. Þau áttu eftir að vinna mikið saman. Marie var ekki mikið fyrir íburð og segir sagan að hún hafi valið sér brúðarkjól gagngert með það fyrir augum að geta notað hann í rannsóknarstofunni seinna.
Á þessum tíma var vitað að til væru efni sem gáfu frá sér geislun en ekki var vitað af hverju. Marie Curie eyddi miklum tíma í að rannsaka hvort þetta fyrirbæri væri til í ólíkum frumefnum. Það var síðar nefnt geislavirkni (enska radioactivity). Pierre og Marie uppgötvuðu árið 1898 frumefnin radín og pólon, sem var skírt eftir heimalandi Marie. Þau sáu að þessi efni gáfu frá sér geisla og breyttust með tímanum í önnur efni. Uppgvötvun þeirra hafði byltingu í för með sér í vísindaheiminum því að talið hafði verið að frumefni væru óumbreytanleg. Vinna Marie fólst að miklu leyti í því að vinna radíum þannig að yrði nógu hreint til þess að hægt væri að búa til úr því málm. Vinnan bar árangur og Marie lauk doktorsprófi árið 1903 við Sorbonne. Sama ár fengu Marie og Pierre ásamt samstarfsmanni sínum Henri Becquerel nóbelsverðlaun í eðlisfræði fyrir rannsóknir á geislavirkni.
Marie og Pierre eignuðust tvær dætur, Iréne árið 1897 og Éve árið 1904. Tveimur árum eftir að yngri dóttirin fæddist lést Pierre af slysförum eftir að hestvagn ók á hann. Þetta var mikið áfall fyrir Marie. Eftir andlát hans eyddi hún nánast öllum sínum tíma við rannsóknir. Sama ár og Pierre dó fékk hún leyfi til þess að kenna við Sorbonne, fyrst kvenna.
Árið 1911 fékk hún aftur Nóbelsverðlaun en nú í efnafræði, fyrir rannsóknir sínar á því hvernig væri hægt að einangra radíum. Marie Curie hélt áfram að rannsaka geislavirkni og notkun geislavirkni í læknisfræði. Hún uppgötvaði til dæmis að geislar gætu læknað húðkrabbamein.
Marie Curie var fræg um heim allan og hélt hún fyrirlestra víða jafnframt því sem hún hélt áfram rannsóknum. En það var heilsuspillandi að vinna með geislavirkni og svo fór að Marie fór að finna fyrir mikilli þreytu, var oft með höfuðverk og hita. Marie lést árið 1934 úr hvítblæði sem hún fékk sennilega vegna geislavirkni frá frumefnum sem hún hafði unnið með. Eldri dóttir hennar, Iréne hélt rannsóknum móður sinnar áfram ásamt eiginmanni sínum. Þau hlutu Nóbelsverðlaun árið 1935 fyrir uppgötvun sína á örvaðri geislavirkni (artificial radioactivity).
Yngri dóttir Curie-hjónanna, Éve, skrifaði ævisögu móður sinnar sem varð allfræg og heitir á frummálinu, frönsku, Madame Curie. Hún hefur verið þýdd á mörg tungumál, þar á meðal íslensku, og er til á nokkrum málum á Landsbókasafni. -- Einnig hefur talsvert verið fjallað um Marie Curie í tengslum við vaxandi áhuga á konum í vísindum í seinni tíð. Er það að vonum því að hún hefur gegnt mikilvægu hlutverki sem eins konar táknmynd vísindakvenna.
Heimildir: Britannica Online
Tímaritið Lifandi Vísindi nr. 12/2000.
Myndin af Marie Curie á rannsóknarstofunni sinni er fengin á vefsetrinu The ChemTeam Photo Gallery
Ulrika Andersson. „Hver var vísindakonan Marie Curie og hverjar voru helstu uppgötvanir hennar?“ Vísindavefurinn, 7. maí 2002, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2366.
Ulrika Andersson. (2002, 7. maí). Hver var vísindakonan Marie Curie og hverjar voru helstu uppgötvanir hennar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2366
Ulrika Andersson. „Hver var vísindakonan Marie Curie og hverjar voru helstu uppgötvanir hennar?“ Vísindavefurinn. 7. maí. 2002. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2366>.