Spurningin er sjálfsagt til komin af því að bókstafurinn ð kemur aldrei fyrir í upphafi orða og þarafleiðandi hvorki í upphafi setninga né fremst í sérnöfnum þar sem við höfum hástafi (stóra stafi). Í venjulegum texta eins og þessum hér er þess vegna engin þörf á stóru Ð.
Hins vegar kemur oft fyrir að við skrifum heil orð með HÁSTÖFUM, til dæmis í fyrirsögnum. Á tölvuöld getur líka verið þægilegt að skrifa ÁHERSLUORÐ í textum með hástöfum, til að mynda í tölvupósti þar sem ekki er kostur á öðrum leturbreytingum eins og skáletri. Hástafirnir skila sér líka betur milli mismunandi miðla og forrita en aðrar leturbreytingar.
STÓRT Ð ER SEM SAGT TIL AF ÞVÍ AÐ ÞAÐ ER EINFALDLEGA ÞÖRF Á ÞVÍ ÞRÁTT FYRIR ALLT.
Mynd: HB