Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er ekkert erfiðara að skilja sinn eigin heila en aðra heila, og það er ekkert erfiðara að skilja heila en aðra flókna hluti. En það er svo önnur spurning hvort maður er miklu nær um sjálfan sig þótt maður skilji sinn eigin heila.
Heilinn er líffæri og gerð hans og starfsemi má lýsa nákvæmlega á máli lífeðlisfræðinnar. Að vísu yrði slík lýsing gífurlega flókin þar sem venjulegur heili er gífurlega flókinn, en það er ekki óhugsandi að vísindin eigi eftir að gera okkur kleift að lýsa heila í smáatriðum. Við getum því vel ímyndað okkur að í framtíðinni getum við gefið lífeðlisfræðilega lýsingu á stöðu heilans á tilteknu augnabliki og jafnvel sagt til um hvernig ástand heilans muni breytast frá einu augnabliki til hins næsta. Slík lýsing væri ef til vill sambærileg við lýsingu á tölvu sem gerði tæmandi grein fyrir því í hvaða stöðu tölvan er, það er hvaða rofar eru opnir og hvaða rofar eru lokaðir, og hvernig tölvan færist úr einni stöðu í aðra.
Ef við höfum skilning á þeim lögmálum sem starfsemi heilans lýtur og ef við höfum almenna lýsingu á því hvernig heilar eru gerðir, þá höfum við það sem við getum kallað almenna þekkingu á mannsheilanum. Ef við höfum að auki tæmandi lífeðlisfræðilega lýsingu á tilteknum heila þá höfum við sérstaka þekkingu á þeim tiltekna heila.
En ef ég hef almenna þekkingu á mannsheilanum og sérstaka þekkingu á mínum eigin heila, hef ég þá betri skilning á sjálfum mér? Ég hef vissulega betri skilning á einu af líffærum mínum, rétt eins og sambærileg greinargerð fyrir starfsemi þarmanna gæfi mér betri skilning á því líffæri. En slíkur skilningur á heilanum gæfi mér engu betri skilning á sjálfum mér sem persónu. Ég væri engu nær um hvað ég teldi mikilsvert í lífinu, hvað ég teldi rétt og hvað rangt né heldur um hvað ég væri að hugsa.
En hvers vegna skyldi ekki vera nóg að hafa sérstaka þekkingu á tilteknum heila til þess að vita hvað sá sem hefur þann heila er að hugsa? Í sem stystu máli er ástæðan sú að við hugsum ekki með heilanum. Að vísu er heilinn okkur nauðsynlegur ef við viljum hugsa og hann er það líffæri sem mestu máli skiptir fyrir hugsunina og allt okkar hugarstarf. En hann er ekki líffæri hugsunar á sama hátt og fæturnir eru líffæri gangs og hjartað líffæri blóðdælingar. Við hugsum ekki með heilanum á sama hátt og við göngum með fótunum og dælum blóði með hjartanu.
Við getum sagt að hjartað sé líffæri blóðdælingar vegna þess að það er milliliðalaus gerandi dælingarinnar og fæturnir eru líffæri gangs vegna þess að þeir eru milliliðalausir gerendur gangsins. Og vegna þessa getum við líka sagt að við dælum blóði með hjartanu og göngum með fótunum. En heilinn er ekki milliliðalaus gerandi hugsunar. Þegar ég hugsa tiltekna hugsun, til dæmis þá hugsun að ég skuli fara í kaffi til ömmu, þá dugir ekki að tiltekin heilastarfsemi eigi sér stað. Heilastarfsemin gæti átt sér stað án þess að hugsunin væri um ömmu mína eða kaffiheimsóknir. Til þess að ég geti hugsað um ömmu þarf amma að vera til – eða hafa verið til því við getum líka hugsað um látið fólk. En það er ekki nóg með að það sem við hugsum um þurfi að vera til eða hafa verið til, það sem við hugsum um þarf að hafa orkað á huga okkar, beint eða í gegnum milliliði.
Sjón og hugsun eru sambærileg í þessu tilliti. Við sjáum ekki með heilanum og heldur ekki með augunum. Til þess að sjá eitthvað þarf virkan samstarfsaðila – það sem maður sér – og því dugir ekki að augað, sjóntaugin og heilinn starfi eðlilega til þess að maður sjái eitthvað. Það er ekki nóg að líta í áttina að manni til að sjá manninn, og það er ekki heldur nóg að líta í áttina að manninum og hafa mynd af honum í huganum til þess að sjá manninn. Til þess að sjá manninn verður maðurinn sjálfur að orka á sjónskynið og vera valdur að tilteknum hræringum í heilanum.
Án virkra samstarfsaðila sjónar sést ekki neitt, maður hefur í besta falli missýnir. Og þar sem þessir virku samstarfsaðilar eru ekki hluti af heilanum, hvort sem um sjón eða hugsun er að ræða, dugir ekki að hafa þekkingu á heilanum til þess að vita hvað tiltekinn maður er að hugsa.
Það einkenni hugsunar og sjónar að þessi ferli krefjast virkra samstarfsaðilja er kallað íbyggni (e. intentionality). Það er eitt einkenni íbygginna hluta að þeir eru um eitthvað, þeir hafa viðfang sem er utan við hlutinn sjálfan. Hlaup eða blóðdæling er hins vegar ekki um neitt. Og að öllu jöfnu eru efnaferli ekki íbyggin; þegar sykur leysist upp í vatni á sér stað efnaferli, en þetta ferli er ekki um neitt. Og þótt efnaferli heilans séu nauðsynlegur fylgifiskur mannlegrar hugarstarfsemi, þá eru þessi ferli ekki um neitt frekar en streymi blóðsins um æðakerfið.
Heimildir og frekara lesefni
Mikael M. Karlsson, “Hugsum við með heilanum?”, Hugur, 7. ár 1995.
Í þessu hefti Hugar eru fleiri greinar um hugarheimspeki og gervigreind.
Þorsteinn Gylfason, “Er andinn ódauðlegur?”, Tilraun um heiminn, Heimskringla 1992.
Fleiri svör á Vísindavefnum um heilann
Ólafur Páll Jónsson. „Er hægt að skilja sinn eigin heila?“ Vísindavefurinn, 23. maí 2002, sótt 9. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2412.
Ólafur Páll Jónsson. (2002, 23. maí). Er hægt að skilja sinn eigin heila? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2412
Ólafur Páll Jónsson. „Er hægt að skilja sinn eigin heila?“ Vísindavefurinn. 23. maí. 2002. Vefsíða. 9. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2412>.