Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað leiðir eru til úrbóta þegar jarðvegsmengun er orðin mikil?

Cornelis Aart Meyles og Kristján Geirsson

Viðbrögð og aðgerðir vegna jarðvegsmengunar fara fyrst og fremst eftir tveimur meginþáttum. Annars vegar hvaða efni er um að ræða og hins vegar magni mengunarefna. Hér á eftir er fjallað stuttlega um þessa tvo meginþætti.

Mengunarefni má flokka á ýmsa vegu. Ein algengasta skiptingin er:
  • Þungmálmar
  • Þrávirk lífræn efni
  • Geislavirk efni
  • Olíuefni
  • Næringarefni
Einnig má bæta við samsettum þáttum eins og sorpi og skólpi en skaðleg efni í þeim má fella undir þessa skiptingu, að undanskilinni sjónmenguninni. Hér á eftir verður í stuttu máli fjallað um olíuefni, þrávirk lífræn efni og þungmálma.

Olíumengun í jarðvegi

Mestar líkur eru á að jarðvegur mengist af olíu frá tönkum, leiðslum eða vegna flutnings, til dæmis með bílum. Hollustuvernd ríkisins, í samvinnu við umhverfisráðuneytið, heilbrigðisfulltrúa og aðra embættismenn sveitarfélaga og fulltrúa olíufélaga, hefur gefið út leiðbeiningar um viðbrögð við olíumengun jarðvegs (nr. 8, desember 1998). Á vefsíðu Hollustverndar ríkisins www.hollver.is má nálgast skýrslu á PDF-formi um olíumengaðan jarðveg.

Áður en lengra er haldið er rétt að hafa í huga að olía er náttúrulegt efni og hún eyðist með tímanum, meðal annars fyrir áhrif sérhæfðra örvera. Oft þarf þó að grípa til aðgerða hafi olíumengun átt sér stað. Við hreinsun olíu úr jarðvegi fjarri upprunastað eru aðallega notaðar þrjár aðferðir; lífræn hreinsun, skolun og hitameðferð.

Í lífrænni hreinsun brjóta örverur niður olíuefni með súrefnisbruna. Til að þetta ferli geti átt sér stað þurfa næringarefni að vera til staðar í réttum hlutföllum og réttu rakastigi. Næringarefnum (nitri og fosfór) er blandað í jarðveginn. Reynt er að tryggja að sem mest súrefni leiki um jarðveginn auk þess sem koma verður í veg fyrir að hann þorni. Kostir aðferðarinnar eru þeir að hún er ódýr (um það bil 2.000 kr/tonn) og að eiginleikar jarðvegsins breytast ekki. Helstu ókostirnir eru þeir að aðferðin krefst landsvæðis, hreinsun getur tekið langan tíma (3-18 mánuði), oft er erfitt að hreinsa jarðveg fullkomlega og það er viss hætta á að meðal mengunarefna séu efni sem geta hamlað niðurbroti. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að mengunarefni berist frá hreinsunarstaðnum.

Við skolun er jarðvegur skolaður með vatni sem blandað er til dæmis sýru, basa eða lífrænum leysiefnum. Mengun í jarðvegi leysist upp í vökvanum og skolast úr með honum. Vökvanum er síðan safnað saman og mengunarefni hreinsuð úr honum og eytt á viðeigandi hátt. Kostir þessarar aðferðar eru helstir þeir að aðferðin er fljótleg, hægt er að hreinsa nær allar gerðir olíumengunar og eiginleikar jarðvegsins breytast lítið. Ókostirnir eru hins vegar þeir að aðferðin er dýr, erfitt er að fá jarðveg alveg hreinan og erfitt er að hreinsa leir. Mengun sem skolast úr jarðvegi þarf að meðhöndla eða urða og íblöndunarefnin geta hamlað eðlilegu lífi í jarðvegi seinna meir.

Við hitameðferð er jarðvegur hitaður upp svo að mengunarefni gufa upp eða brenna. Hitunin getur verið tvenns konar; bein brennsla þar sem jarðvegur er brenndur (1000-1300 ºC) eða óbein brennsla þar sem jarðvegur er hitaður upp í 300-850ºC í geymi. Kostir hitameðferðar eru að aðferðin er fljótleg og hún hreinsar lífræn mengunarefni mjög vel. Ókostirnir eru hins vegar að aðferðin er dýr (5.000-50.000 kr/tonn) og ekki er hægt að endurnýta jarðveginn sem venjulegan jarðveg. Í dag eru til dæmis kröfur í Danmörku um að jarðveg, sem meðhöndlaður hefur verið með hitameðferð, verði að urða.

Þrávirk lífræn efni

Vandamálið við þessi efni er þrávirkni þeirra, það er að þau eyðast mjög hægt í náttúrunni. Sum eru eitruð, önnur safnast upp í lífverum og geta haft alvarleg áhrif eftir langan tíma. Þess vegna er oft erfitt að hreinsa efnin úr jarðveginum. Aðgerðir geta þá miðað að því að einangra mengunina eða gera hana óskaðlega, til dæmis með urðun á viðurkenndum stöðum. PCB-mengaður jarðvegur hefur verið fluttur út frá Íslandi til eyðingar og meðhöndlunar í sérhannaðri stöð.

Þungmálmar

Þungmálmar eru náttúruleg frumefni og eru hluti af umhverfinu. Samsöfnun þeirra getur þó verið skaðleg. Þessi efni eyðast ekki og mjög erfitt að hreinsa þau úr jarðveginum. Viðbrögð við þungmálmamengun miða því að því að gera mengaðan jarðveg óskaðlegan, til dæmis með því að urða hann eða einangra mengunina. Þar á eftir fylgir langtímavöktun til að fylgjast með því að mengunin berist ekki út frá urðunarstað.

Umfang mengunar

Við mat á því til hvaða aðgerða skal gripið verður að líta til umfangs mengunar og áhættu fyrir lífríki og almenning. Ef um er að ræða mengun sem getur verið hættuleg geta almannavarnanefndir þurft að grípi inn í. Í verstu tilfellunum er hugsanlegt að flytja þurfi íbúa á brott frá menguðu svæði og loka því.

Ef mengun er hins vegar lítil er oft litið til þess hvort ekki sé farsælast að aðhafast ekkert en láta náttúruna sjá um þetta sjálfa. Slík „aðgerð“ leiðir af sér minnst rask, er yfirleitt ódýrust og í sumum tilfellum mun fljótlegri en dýrar og umfangsmiklar framkvæmdir. Hvert einstakt tilfelli verður að vega og meta í því sambandi. Því næst eru mismunandi aðferðir skoðaðar og síðan valið að beita einhverjum þeirra, meðal annars eins og lýst var hér að framan.

Reglur

Um nokkurt skeið hefur verið unnið að reglugerð um verndun jarðvegs gegn mengun og viðbrögð við jarðvegsmengun. Málið er flókið og hefur ekki enn verið til lykta leitt.

Höfundar

sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun

sérfræðingur á mengunarsviði Hollustuverndar Ríkisins

Útgáfudagur

24.5.2002

Spyrjandi

Sigurlaug Jensdóttir, f. 1983

Tilvísun

Cornelis Aart Meyles og Kristján Geirsson. „Hvað leiðir eru til úrbóta þegar jarðvegsmengun er orðin mikil?“ Vísindavefurinn, 24. maí 2002, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2415.

Cornelis Aart Meyles og Kristján Geirsson. (2002, 24. maí). Hvað leiðir eru til úrbóta þegar jarðvegsmengun er orðin mikil? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2415

Cornelis Aart Meyles og Kristján Geirsson. „Hvað leiðir eru til úrbóta þegar jarðvegsmengun er orðin mikil?“ Vísindavefurinn. 24. maí. 2002. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2415>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað leiðir eru til úrbóta þegar jarðvegsmengun er orðin mikil?
Viðbrögð og aðgerðir vegna jarðvegsmengunar fara fyrst og fremst eftir tveimur meginþáttum. Annars vegar hvaða efni er um að ræða og hins vegar magni mengunarefna. Hér á eftir er fjallað stuttlega um þessa tvo meginþætti.

Mengunarefni má flokka á ýmsa vegu. Ein algengasta skiptingin er:
  • Þungmálmar
  • Þrávirk lífræn efni
  • Geislavirk efni
  • Olíuefni
  • Næringarefni
Einnig má bæta við samsettum þáttum eins og sorpi og skólpi en skaðleg efni í þeim má fella undir þessa skiptingu, að undanskilinni sjónmenguninni. Hér á eftir verður í stuttu máli fjallað um olíuefni, þrávirk lífræn efni og þungmálma.

Olíumengun í jarðvegi

Mestar líkur eru á að jarðvegur mengist af olíu frá tönkum, leiðslum eða vegna flutnings, til dæmis með bílum. Hollustuvernd ríkisins, í samvinnu við umhverfisráðuneytið, heilbrigðisfulltrúa og aðra embættismenn sveitarfélaga og fulltrúa olíufélaga, hefur gefið út leiðbeiningar um viðbrögð við olíumengun jarðvegs (nr. 8, desember 1998). Á vefsíðu Hollustverndar ríkisins www.hollver.is má nálgast skýrslu á PDF-formi um olíumengaðan jarðveg.

Áður en lengra er haldið er rétt að hafa í huga að olía er náttúrulegt efni og hún eyðist með tímanum, meðal annars fyrir áhrif sérhæfðra örvera. Oft þarf þó að grípa til aðgerða hafi olíumengun átt sér stað. Við hreinsun olíu úr jarðvegi fjarri upprunastað eru aðallega notaðar þrjár aðferðir; lífræn hreinsun, skolun og hitameðferð.

Í lífrænni hreinsun brjóta örverur niður olíuefni með súrefnisbruna. Til að þetta ferli geti átt sér stað þurfa næringarefni að vera til staðar í réttum hlutföllum og réttu rakastigi. Næringarefnum (nitri og fosfór) er blandað í jarðveginn. Reynt er að tryggja að sem mest súrefni leiki um jarðveginn auk þess sem koma verður í veg fyrir að hann þorni. Kostir aðferðarinnar eru þeir að hún er ódýr (um það bil 2.000 kr/tonn) og að eiginleikar jarðvegsins breytast ekki. Helstu ókostirnir eru þeir að aðferðin krefst landsvæðis, hreinsun getur tekið langan tíma (3-18 mánuði), oft er erfitt að hreinsa jarðveg fullkomlega og það er viss hætta á að meðal mengunarefna séu efni sem geta hamlað niðurbroti. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að mengunarefni berist frá hreinsunarstaðnum.

Við skolun er jarðvegur skolaður með vatni sem blandað er til dæmis sýru, basa eða lífrænum leysiefnum. Mengun í jarðvegi leysist upp í vökvanum og skolast úr með honum. Vökvanum er síðan safnað saman og mengunarefni hreinsuð úr honum og eytt á viðeigandi hátt. Kostir þessarar aðferðar eru helstir þeir að aðferðin er fljótleg, hægt er að hreinsa nær allar gerðir olíumengunar og eiginleikar jarðvegsins breytast lítið. Ókostirnir eru hins vegar þeir að aðferðin er dýr, erfitt er að fá jarðveg alveg hreinan og erfitt er að hreinsa leir. Mengun sem skolast úr jarðvegi þarf að meðhöndla eða urða og íblöndunarefnin geta hamlað eðlilegu lífi í jarðvegi seinna meir.

Við hitameðferð er jarðvegur hitaður upp svo að mengunarefni gufa upp eða brenna. Hitunin getur verið tvenns konar; bein brennsla þar sem jarðvegur er brenndur (1000-1300 ºC) eða óbein brennsla þar sem jarðvegur er hitaður upp í 300-850ºC í geymi. Kostir hitameðferðar eru að aðferðin er fljótleg og hún hreinsar lífræn mengunarefni mjög vel. Ókostirnir eru hins vegar að aðferðin er dýr (5.000-50.000 kr/tonn) og ekki er hægt að endurnýta jarðveginn sem venjulegan jarðveg. Í dag eru til dæmis kröfur í Danmörku um að jarðveg, sem meðhöndlaður hefur verið með hitameðferð, verði að urða.

Þrávirk lífræn efni

Vandamálið við þessi efni er þrávirkni þeirra, það er að þau eyðast mjög hægt í náttúrunni. Sum eru eitruð, önnur safnast upp í lífverum og geta haft alvarleg áhrif eftir langan tíma. Þess vegna er oft erfitt að hreinsa efnin úr jarðveginum. Aðgerðir geta þá miðað að því að einangra mengunina eða gera hana óskaðlega, til dæmis með urðun á viðurkenndum stöðum. PCB-mengaður jarðvegur hefur verið fluttur út frá Íslandi til eyðingar og meðhöndlunar í sérhannaðri stöð.

Þungmálmar

Þungmálmar eru náttúruleg frumefni og eru hluti af umhverfinu. Samsöfnun þeirra getur þó verið skaðleg. Þessi efni eyðast ekki og mjög erfitt að hreinsa þau úr jarðveginum. Viðbrögð við þungmálmamengun miða því að því að gera mengaðan jarðveg óskaðlegan, til dæmis með því að urða hann eða einangra mengunina. Þar á eftir fylgir langtímavöktun til að fylgjast með því að mengunin berist ekki út frá urðunarstað.

Umfang mengunar

Við mat á því til hvaða aðgerða skal gripið verður að líta til umfangs mengunar og áhættu fyrir lífríki og almenning. Ef um er að ræða mengun sem getur verið hættuleg geta almannavarnanefndir þurft að grípi inn í. Í verstu tilfellunum er hugsanlegt að flytja þurfi íbúa á brott frá menguðu svæði og loka því.

Ef mengun er hins vegar lítil er oft litið til þess hvort ekki sé farsælast að aðhafast ekkert en láta náttúruna sjá um þetta sjálfa. Slík „aðgerð“ leiðir af sér minnst rask, er yfirleitt ódýrust og í sumum tilfellum mun fljótlegri en dýrar og umfangsmiklar framkvæmdir. Hvert einstakt tilfelli verður að vega og meta í því sambandi. Því næst eru mismunandi aðferðir skoðaðar og síðan valið að beita einhverjum þeirra, meðal annars eins og lýst var hér að framan.

Reglur

Um nokkurt skeið hefur verið unnið að reglugerð um verndun jarðvegs gegn mengun og viðbrögð við jarðvegsmengun. Málið er flókið og hefur ekki enn verið til lykta leitt.

...