Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sígaunar (einnig kallaðir Rómafólk) eru stærsti minnihlutahópur í Evrópu. Hugsanlega búa allt að átta milljónir sígauna á meginlandinu í dag, aðrar heimildir telja þá á bilinu tvær til fimm milljónir, en erfitt er að áætla fjölda þeirra þar sem þeir eru sjaldnast taldir í manntölum vegna flökkulífs. Flestir sígaunar búa í Austur-Evrópu. Sjálfir nefna sígaunar sig Rom eða Romani, sem er komið úr sanskrít og merkir 'maður' eða 'eiginmaður'.
Sígaunar eiga rætur að rekja til Indlands en á miðöldum höfðu þeir flust búferlum og sest víða að í Evrópu, flestir líklega í suðausturhluta Evrópu. Fyrst fóru þeir til Persíu um árið 1000 og þaðan til Grikklands snemma á 14. öld. Frá Grikklandi fluttust þeir til Balkanlandanna og síðan vestur á bóginn, alla leið til Englands. Í Evrópu unnu þeir fyrir sér, til dæmis við járnsmíðar eða sem skemmtikraftar. Þannig gátu þeir séð sér farborða án þess að gerast ánauðugir bændur.
Sígaunabúðir í Essex á Englandi. Mynd frá 19. öld.
Í Englandi á 16. öld ofsótti Hinrik VIII þá sígauna sem ekki vildu gerast bændur og í Rúmeníu voru sígaunar hnepptir í þrældóm af landeigendum og seldir á uppboðum allt til ársins 1856. Á tímum helfararinnar voru allt að 400.000 sígaunar teknir af lífi.
Enginn hefur getað skýrt fyllilega af hverju sígaunar tóku sig til og fluttu búferlum frá Indlandi. Forn persnesk fræði geta þess að um árið 1000 hafi shahinn í Persíu boðið allt að 12.000 sígaunum til ríkis síns til að skemmta þegnum sínum með hljóðfæraslætti. Eftir söng og hljóðfæraslátt um árabil í ríki Persa áttu sígaunarnir síðan að hafa haldið för sinni áfram vestur á bóginn.
Tónlist sígauna er jafn fjölbreytileg og löndin sem þeir búa í og skilin á milli sígaunatónlistar og annarra tónlistarhefða eru oft mjög óljós. Lítil sátt er um það hvernig beri að skilgreina hugtakið sígaunatónlist. Sumir telja að tónlist sígauna sé eingöngu sú sem sígaunar leika fyrir sjálfa sig á eigin tungumáli, á meðan aðrir segja að í raun sé ekki til hrein sígaunatónlist, vegna þess að hún hafi ætíð lagað sig að tónlistarhefð þess lands sem sígaunarnir bjuggu í hverju sinni.
Þeir sígaunar sem höfðu lifibrauð sitt af hljóðfæraslætti (og nefndust lautari) þurftu að geta leikið þá tónlist sem áheyrendur vildu hlýða á. Þeir reyndu þess vegna að læra tónlist ´innfæddra´ til þess að tryggja sér sem mesta atvinnu. Þar sem algengt var að sígaunar helguðu sig hljóðfæraleik fóru ýmsir að kalla alla tónlistarmenn sígauna, þótt þeir væru alls ekki komnir af sígaunum. Í sumum tungumálum er eitt og sama orðið notað yfir tónlistarmann og sígauna.
Sígaunahljómsveit í Rússlandi. Mynd frá 1865.
Færa má fyrir því rök að tónlist sígauna hafi breyst og þróast eftir því sem þeir fluttu sig frá einu landi til annars. Líklegt er að sígaunar hafi tekið upp einkenni þeirrar tónlistar sem fyrir var, hvar sem þeir fóru, og blandað eigin tónlistarhefð og einnig varð tónlist 'innfæddra' fyrir áhrifum af tónlist sígauna. Margt í sígaunatónlist Ungverjalands minnir á ungverska þjóðlagatónlist, og sígaunatónlist á Spáni hefur spænskan flamenco-hljóm. Klassísk tónskáld, eins og til dæmis Liszt, Dvorák, Rachmaninov og ekki síst Bartók urðu fyrir miklum áhrifum af sígaunatónlist. Gítarleikarinn og goðsagnapersónan Django Reinhardt, sem var af sígaunaættum, blandaði saman á áhrifaríkan hátt sígaunatónlist og amerískri djasstónlist.
Hvað sem þessum kenningum líður, er þó hægt að greina nokkur atriði sem einkenna alla sígaunatónlist. Tónaröð sem tónlist sígauna byggir á, skalinn c-d-es-fís-g-as-b-c, er frábrugðinn hinum hefðbundnu dúr og moll tóntegundum sem vestræn tónlist byggir á. Einnig ber mikið á krómatík, eða hálftónsbilum, og notkun svonefndra míkrótóna í tónlistinni, það er að segja minni tónbilum en notuð eru í vestrænum tónstiga. Eins er spuni mjög mikilvægur þáttur í tónlistinni, en allt rennir þetta stoðum undir þá kenningu að tónlist sígauna eigi rætur að rekja til tónlistar Miðausturlanda eða indverskrar tónlistar. Þessir þættir eru þó ekki einsdæmi í tónlist sígaunanna, þá er einnig finna í annarri tónlist.
Sígaunahljómsveit að spila í Búdapest 2019.
Tónlist sígauna er iðulega sungin, og þá af karlmanni. Stúlkubörn eru að vísu hvött til að syngja og dansa en samt helga flestar konur sig hlutverki eiginkvenna og mæðra þegar þær komast á fullorðinsaldur. Raddbeitingin er sérstök, en sígaunar nota svokallaða brjóströdd í stað höfuðraddar; það gefur tónlist þeirra hrárri hljóm. Hljóðfæraval sígauna er mismunandi eftir svæðum, en segja má að þeir hafi í gegnum tíðina notast við það sem hendi var næst. Oft var það einfaldlega eitthvað sem hægt var að slá takt með, eins og til dæmis skeiðar, en annars fer söngurinn mikið fram við undirleik fiðlu og cymbaloms.
Tónlistarmaðurinn beitir ýmsum brögðum til að hreyfa við hlustandanum og tilfinningum hans. Leikræn tilþrif í tilfinningaþrunginni tónlistinni eru mikil, og notar flytjandinn óspart ævintýralegar hraðabreytingar, skreytinótur og skyndilegar áherslur, til að toga tónlistina - og tilfinningar áheyrandans - til og frá. Hávaðasamar brass-sveitir sem spila á tryllingslegum ofsahraða eru önnur tegund sígaunatónlistar og bera því glöggt vitni hve fjölbreytt sígaunatónlist er.
Heimildir og myndir:
Ása Briem og Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað eru sígaunar og hafa þeir einhverja sérstaka tónlistarstefnu?“ Vísindavefurinn, 24. maí 2002, sótt 9. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2418.
Ása Briem og Jón Gunnar Þorsteinsson. (2002, 24. maí). Hvað eru sígaunar og hafa þeir einhverja sérstaka tónlistarstefnu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2418
Ása Briem og Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað eru sígaunar og hafa þeir einhverja sérstaka tónlistarstefnu?“ Vísindavefurinn. 24. maí. 2002. Vefsíða. 9. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2418>.