Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:29 • Síðdegis: 18:52 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:31 • Síðdegis: 12:34 í Reykjavík

Hvað eru tundurdufl?

Helga Sverrisdóttir

Tundurdufl (mine á ensku og dönsku) er nafn á sprengjum sem lagðar eru í sjóinn til þess að granda skipum og kafbátum. Herskipin sem leggja tundurduflin kallast tundurduflaleggjarar (e. minelayer). Sprengjurnar springa ef þær verða fyrir höggi vegna áreksturs, hljóðs, segulsviðs eða þrýstings. Tundurdufl eru oft lögð í höfnum eða vogum og víkum til þess að loka siglingaleiðum. Stundum eru tundurduflin látin sökkva til botns og kallast þá botndufl. En stundum eru þau fest við akkeri og látin mara í kafi og kallast þá flotdufl. Sprengjuhleðsla getur verið frá 150 til 500 kíló.

Herskip sem eru sérstaklega hönnuð með það fyrir augum að eyða tundurduflum kallast tundurduflaslæðarar (minesweepers). Tundurduflum er til dæmis eytt á þann hátt að tundurduflaslæðararnir draga á eftir sér slóða sem leysir festar tundurduflanna sem síðan fljóta upp á yfirborðið. Þá er skotið á duflin og þeim eytt.

Ógrynni af tundurduflum voru lögð í sjóinn í seinni heimstyrjöld eða 600 til 700 þúsund. Allt að þriðjungur þeirra var lagður kringum Ísland og tundurduflabelti voru þá út af Vestfjörðum, í Faxaflóa, Hvalfirði, Eyjafirði og Seyðisfirði. Íslenskir sjómenn hafa því frá lokum seinna stríðs oft fengið dufl í veiðarfærin eða séð þau á reki. Fundist hafa hátt í 3000 dufl við Ísland en á seinni árum hafa fimm til sex dufl fundist á ári. Ef tundurdufl finnast eyða sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar þeim. Þó að öryggisbúnaður sé í flestum tundurduflum sem á að gera þau óvirk ef þau fljóta upp er hættulegt að treysta á hann. Tundurdufl geta verið virk áratugum saman og því á alltaf að fara varlega í kringum þau.

Tundurduflum er stundum ruglað saman við tundurskeyti (e. torpedo) sem eru allt önnur gerð af sprengju. Tundurskeyti er vindillaga neðansjávarsprengja sem hægt er að skjóta frá skipi, kafbáti eða flugvél. Oft eru þau í sérstökum skipum sem nefnast tundurskeytabátar (torpedo boats). Tundurskeytin springa nálægt skotmarki sínu og eru yfirleitt notuð til þess að granda skipum eða kafbátum.

Enn eitt hertól með forskeytinu tundur- er til en það er svokallaður tundurspillir (destroyer). Tundurspillir kallast herskip sem einkum er notað í kafbátahernaði eða sem fylgdarskip annara herskipa og skipalesta. Tundurspillar eru vel vopnum búnir, hraðskreiðir og allt að 150 metrar að lengd.

Heimildir

Landhelgisgæsla Íslands

Íslenska alfræðiorðabókin. Örn og Örlygur. 1990

Myndin var á vefsetrinu www.wired.com

Höfundur

stjórnmálafræðingur, um tíma starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

27.5.2002

Spyrjandi

Sölvi Rúnar Pétursson, f. 1987

Tilvísun

Helga Sverrisdóttir. „Hvað eru tundurdufl?“ Vísindavefurinn, 27. maí 2002. Sótt 22. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2422.

Helga Sverrisdóttir. (2002, 27. maí). Hvað eru tundurdufl? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2422

Helga Sverrisdóttir. „Hvað eru tundurdufl?“ Vísindavefurinn. 27. maí. 2002. Vefsíða. 22. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2422>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru tundurdufl?
Tundurdufl (mine á ensku og dönsku) er nafn á sprengjum sem lagðar eru í sjóinn til þess að granda skipum og kafbátum. Herskipin sem leggja tundurduflin kallast tundurduflaleggjarar (e. minelayer). Sprengjurnar springa ef þær verða fyrir höggi vegna áreksturs, hljóðs, segulsviðs eða þrýstings. Tundurdufl eru oft lögð í höfnum eða vogum og víkum til þess að loka siglingaleiðum. Stundum eru tundurduflin látin sökkva til botns og kallast þá botndufl. En stundum eru þau fest við akkeri og látin mara í kafi og kallast þá flotdufl. Sprengjuhleðsla getur verið frá 150 til 500 kíló.

Herskip sem eru sérstaklega hönnuð með það fyrir augum að eyða tundurduflum kallast tundurduflaslæðarar (minesweepers). Tundurduflum er til dæmis eytt á þann hátt að tundurduflaslæðararnir draga á eftir sér slóða sem leysir festar tundurduflanna sem síðan fljóta upp á yfirborðið. Þá er skotið á duflin og þeim eytt.

Ógrynni af tundurduflum voru lögð í sjóinn í seinni heimstyrjöld eða 600 til 700 þúsund. Allt að þriðjungur þeirra var lagður kringum Ísland og tundurduflabelti voru þá út af Vestfjörðum, í Faxaflóa, Hvalfirði, Eyjafirði og Seyðisfirði. Íslenskir sjómenn hafa því frá lokum seinna stríðs oft fengið dufl í veiðarfærin eða séð þau á reki. Fundist hafa hátt í 3000 dufl við Ísland en á seinni árum hafa fimm til sex dufl fundist á ári. Ef tundurdufl finnast eyða sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar þeim. Þó að öryggisbúnaður sé í flestum tundurduflum sem á að gera þau óvirk ef þau fljóta upp er hættulegt að treysta á hann. Tundurdufl geta verið virk áratugum saman og því á alltaf að fara varlega í kringum þau.

Tundurduflum er stundum ruglað saman við tundurskeyti (e. torpedo) sem eru allt önnur gerð af sprengju. Tundurskeyti er vindillaga neðansjávarsprengja sem hægt er að skjóta frá skipi, kafbáti eða flugvél. Oft eru þau í sérstökum skipum sem nefnast tundurskeytabátar (torpedo boats). Tundurskeytin springa nálægt skotmarki sínu og eru yfirleitt notuð til þess að granda skipum eða kafbátum.

Enn eitt hertól með forskeytinu tundur- er til en það er svokallaður tundurspillir (destroyer). Tundurspillir kallast herskip sem einkum er notað í kafbátahernaði eða sem fylgdarskip annara herskipa og skipalesta. Tundurspillar eru vel vopnum búnir, hraðskreiðir og allt að 150 metrar að lengd.

Heimildir

Landhelgisgæsla Íslands

Íslenska alfræðiorðabókin. Örn og Örlygur. 1990

Myndin var á vefsetrinu www.wired.com

...