Sólin Sólin Rís 07:03 • sest 19:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:28 • Sest 09:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:55 • Síðdegis: 19:13 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:52 • Síðdegis: 13:06 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:03 • sest 19:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:28 • Sest 09:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:55 • Síðdegis: 19:13 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:52 • Síðdegis: 13:06 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju nefnist Vetrarbrautin Milky Way á erlendum málum?

Sævar Helgi Bragason og Þorsteinn Vilhjálmsson

Ekki er vitað fullkomlega hvernig nafnið á Vetrarbrautinni okkar, Milky Way, er til komið en á latínu heitir hún Via lactea sem hefur sömu merkingu. Alþjóðaorðið sem nú heitir á ensku galaxy er hins vegar komið beint úr grísku og er dregið af gala sem þýðir mjólk. Það er nú notað sem safnheiti um þau fyrirbæri alheimsins sem við nefnum vetrarbrautir með litlum staf og eru hliðstæð Vetrarbrautinni okkar. Við getum notað heitið Mjólkurslæðan á íslensku þegar við viljum leggja áherslu á þessa hlið nafngiftarinnar.

Í grískri goðafræði segir frá nafngiftum margra fyrirbæra á himninum. Í grísku sögninni um uppruna nafnsins á Mjólkurslæðunni er Seifur sem oftar í aðalhlutverki. Eftir að hann hafði fellt föður sinn Krónos af stalli skipti hann veröldinni milli sín og bræðra sinna; Hades réð undirheimunum, Póseidon varð sjávarguð en Seifur réð því sem eftir varð, aðallega himninum. Seifur varð æðstur allra guða og settist að á tindi Ólympsfjalls, þar sem aðalguðirnir tólf höfðust við. Seifur átti systur sem hét Hera og var hún upphaflega verndargyðja Samosar, rétt eins og Aþena var verndargyðja Aþenuborgar. Hera varð síðar eiginkona Seifs en hann átti líka margar lagskonur bæði fyrr og síðar.

Margar sagnir eru til um kvennafar Seifs og afbrýðisemi Heru í kjölfar þess. Þegar Seifur átti í ástarævintýri með Alkmene fæddist þeim sonurinn Herakles. Seifur plataði Heru til að hafa Herakles á brjósti. Þegar hún komst að því hver átti barnið, reif hún brjóstið frá munni hans svo að mjólkin spýttist þvert yfir himininn.

Þannig á nafn Mjólkurslæðunnar að vera til komið samkvæmt goðsögunum. Hitt er svo annað mál að við sjáum þetta fyrirbæri sem hvítleita slæðu á himninum og hefur því ekki verið langsótt að kenna það við mjólk.

Aðrar þjóðir og þjóðflokkar höfðu auðvitað sínar skýringar á Vetrarbrautinni. Kung-búskmennirnir í Kalaharí-eyðimörkinni í Botsúana höfðu sína eigin skýringu á þessu fyrirbæri sem er oft beint fyrir ofan þá breiddargráðu þar sem þeir búa, þannig að hún liggur þá um hvirfilpunkt himins (zenith). Búskmennirnir nefndu slæðuna "hrygg næturinnar", eins og himinninn væri mikil skepna sem við lifum inni í. Útskýring þeirra er auðskiljanleg. Búskmennirnir trúðu að Vetrarbrautin héldi nóttinni uppi; ef ekki væri fyrir hana, myndu brot úr nóttinni falla niður á okkur.

Margir indíánaflokkar í Ameríku töldu Vetrarbrautina veg sem leiddi látnar sálir til endanlegs hvíldarstaðar. Sjófarendur í Pólýnesíu sáu hana hins vegar sem stóran bláan hákarl. Í Kína til forna var Vetrarbrautin talin mikið fljót – Stjörnufljótið – og á sitthvorum enda fljótsins sitja Vega og Altair, ástfangið aðskilið par sem fær ekki að hittast nema einu sinni á ári. Í sænsku heitir Vetrarbrautin "Vintergatan" svipað og í íslensku en í dönsku kallast hún "Mælkevejen" eins og í ensku.

Heimildir:

Illugi Jökulsson. Saga stjörnumerkjanna. JPV Forlag, Reykjavík, 2000.

Sagan, Carl. Cosmos. Random House, New York, 1983.

Höfundar

Sævar Helgi Bragason

stjörnufræðikennari

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

27.5.2002

Spyrjandi

Janus Uggason

Tilvísun

Sævar Helgi Bragason og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju nefnist Vetrarbrautin Milky Way á erlendum málum?“ Vísindavefurinn, 27. maí 2002, sótt 19. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2425.

Sævar Helgi Bragason og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2002, 27. maí). Af hverju nefnist Vetrarbrautin Milky Way á erlendum málum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2425

Sævar Helgi Bragason og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju nefnist Vetrarbrautin Milky Way á erlendum málum?“ Vísindavefurinn. 27. maí. 2002. Vefsíða. 19. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2425>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju nefnist Vetrarbrautin Milky Way á erlendum málum?
Ekki er vitað fullkomlega hvernig nafnið á Vetrarbrautinni okkar, Milky Way, er til komið en á latínu heitir hún Via lactea sem hefur sömu merkingu. Alþjóðaorðið sem nú heitir á ensku galaxy er hins vegar komið beint úr grísku og er dregið af gala sem þýðir mjólk. Það er nú notað sem safnheiti um þau fyrirbæri alheimsins sem við nefnum vetrarbrautir með litlum staf og eru hliðstæð Vetrarbrautinni okkar. Við getum notað heitið Mjólkurslæðan á íslensku þegar við viljum leggja áherslu á þessa hlið nafngiftarinnar.

Í grískri goðafræði segir frá nafngiftum margra fyrirbæra á himninum. Í grísku sögninni um uppruna nafnsins á Mjólkurslæðunni er Seifur sem oftar í aðalhlutverki. Eftir að hann hafði fellt föður sinn Krónos af stalli skipti hann veröldinni milli sín og bræðra sinna; Hades réð undirheimunum, Póseidon varð sjávarguð en Seifur réð því sem eftir varð, aðallega himninum. Seifur varð æðstur allra guða og settist að á tindi Ólympsfjalls, þar sem aðalguðirnir tólf höfðust við. Seifur átti systur sem hét Hera og var hún upphaflega verndargyðja Samosar, rétt eins og Aþena var verndargyðja Aþenuborgar. Hera varð síðar eiginkona Seifs en hann átti líka margar lagskonur bæði fyrr og síðar.

Margar sagnir eru til um kvennafar Seifs og afbrýðisemi Heru í kjölfar þess. Þegar Seifur átti í ástarævintýri með Alkmene fæddist þeim sonurinn Herakles. Seifur plataði Heru til að hafa Herakles á brjósti. Þegar hún komst að því hver átti barnið, reif hún brjóstið frá munni hans svo að mjólkin spýttist þvert yfir himininn.

Þannig á nafn Mjólkurslæðunnar að vera til komið samkvæmt goðsögunum. Hitt er svo annað mál að við sjáum þetta fyrirbæri sem hvítleita slæðu á himninum og hefur því ekki verið langsótt að kenna það við mjólk.

Aðrar þjóðir og þjóðflokkar höfðu auðvitað sínar skýringar á Vetrarbrautinni. Kung-búskmennirnir í Kalaharí-eyðimörkinni í Botsúana höfðu sína eigin skýringu á þessu fyrirbæri sem er oft beint fyrir ofan þá breiddargráðu þar sem þeir búa, þannig að hún liggur þá um hvirfilpunkt himins (zenith). Búskmennirnir nefndu slæðuna "hrygg næturinnar", eins og himinninn væri mikil skepna sem við lifum inni í. Útskýring þeirra er auðskiljanleg. Búskmennirnir trúðu að Vetrarbrautin héldi nóttinni uppi; ef ekki væri fyrir hana, myndu brot úr nóttinni falla niður á okkur.

Margir indíánaflokkar í Ameríku töldu Vetrarbrautina veg sem leiddi látnar sálir til endanlegs hvíldarstaðar. Sjófarendur í Pólýnesíu sáu hana hins vegar sem stóran bláan hákarl. Í Kína til forna var Vetrarbrautin talin mikið fljót – Stjörnufljótið – og á sitthvorum enda fljótsins sitja Vega og Altair, ástfangið aðskilið par sem fær ekki að hittast nema einu sinni á ári. Í sænsku heitir Vetrarbrautin "Vintergatan" svipað og í íslensku en í dönsku kallast hún "Mælkevejen" eins og í ensku.

Heimildir:

Illugi Jökulsson. Saga stjörnumerkjanna. JPV Forlag, Reykjavík, 2000.

Sagan, Carl. Cosmos. Random House, New York, 1983....