Kjóinn er um 45 sentímetrar á lengd og vegur á bilinu 350-500 grömm. Vænghaf Kjóans er um 120 sentímetrar. Kjóinn étur ótal tegundir smádýra eins og skordýr en einnig étur hann ber og jurtir þó að í litlum mæli sé. Kjóinn er alræmdur þjófur sem tekur oft unga eða egg frá öðrum fuglum og oft má sjá hann stela fæðu frá sjófuglum með því að elta þá þangað til sjófuglarnir sleppa fæðunni sem þeir hafa veitt.
Ef einhver gerist svo djarfur að nálgast hreiður kjóans má hinn sami verða viðbúinn heiftúðlegum árásum hans enda ver hann óðal sitt af einstakri hörku líkt og skúmurinn. Stofnstærð kjóans hér á landi er frá 5.000 - 10.000 para.

Kjóinn verpir allt í kringum norðurheimskaut eins og sjá má á kortinu. Kjóinn tilheyrir kjóaættinni (Stercorariidae) en Skúmurinn (Stercorarius skua) tilheyrir einnig þeirri ætt. Skúmurinn er reyndar náskyldur kjóanum og tilheyra þeir sömu ættkvíslinni. Tveir aðrir fuglar sem eru náskyldir kjóanum slæðast hingað til lands stöku sinnum en eru ekki varpfuglar hérlendis, það eru ískjóinn (Stercorarius pomarinus) og fjallkjói (Stercorarius longicaudus). Kortið af varpútbreiðslu kjóans var á vefsetrinu www.bird-stamps.org Myndin af kjóanum var á fauna.is