Sólin Sólin Rís 03:40 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík

Hver er uppruni listarinnar?

Kristján Árnason bókmenntafræðingur

Þessari stóru spurningu er ekki auðsvarað í stuttu máli, ef reynt er að skoða málið frá fleiri en einni hlið eins og því hæfir. Frá sögulegu sjónarmiði verður upphaf listarinnar ekki tímasett eins og hver annar merkisatburður, svo sem fundur Vínlands, eða tilkoma einhverrar tækninýjungar, svo sem atómsprengjunnar, heldur væri nær að segja að það hverfi í grámóðu fortíðar og renni þar jafnvel saman við upphaf mannkynsins sjálfs.

Með talsverðum rétti má telja listþörfina til frumþarfa mannkyns, enda gerir hún vart við sig snemma í sögu þess líkt og í ævi hvers einstaklings þar sem hneigðin til leikja og til að búa sér til þykjustu-veröld er sterkust einmitt í frumbernsku. En til að komast nær sögulegu upphafi listarinnar, sem við höfum óneitanlega fjarlægst, hljóta að vera einkum tvær leiðir tiltækastar, annars vegar að leita til þeirra forsögulegu heimilda og menja sem við vitum elstar og hins vegar að skoða lífshætti þjóða, sem við teljum frumstæðar og enn fyrirfinnast á vorri alþjóðavæddu jarðkringlu, með tilliti til stöðu listar meðal þeirra.

Þar vekur athygli hve listin á sér fastan sess og er tengd markmiðum sem telja má hagnýt og koma að gagni í lífsbaráttunni, svo sem það að hafa áhrif á ytri öfl, hvort sem þau teljast náttúrleg eða yfirnáttúrleg: veðurguði, veiðidýr, sjúkdóma eða plágur, -- og því hafa menn hneigst til að rekja upphaf listarinnar til galdurs og særinga og bent í því sambandi á að orðið galdur hefur upphaflega merkinguna söngur, eins og orðið seiður.

Þar fyrir utan fer ekki milli mála að listin hefur frá öndverðu verið snar þáttur í samfélagslegum tengslum manna í milli sem vettvangur til að koma á framfæri boðskap og viðhorfum jafnt til lofs og til lasts og veita útrás hinum margbreytilegustu tilfinningum þar sem menn sameinast í gleði eða sorg. Almennt talað má því segja að listin hafi haft hlutverki að gegna í viðleitni mannsins til að ná valdi yfir náttúrunni, náunganum og sjálfum sér.

Ekki er þó víst að með þessu séu öll kurl komin til grafar eða allt fengið með því að einblína á ýmis hlutverk sem listin hefur gegnt í lífi manna og sum hver kynnu allt eins að vera í verkahring annarra mennta eða vísinda, heldur væri nær að leita einhvers sem mætti kalla séreðli hennar og spyrja af hvaða hvötum í sálinni listin sé sprottin og á hverju sú ánægja sem hún vekur byggist, án tillits til notagildis hennar. Þar hefur verið bent á þá ánægju sem menn hafa af eftirhermum og eftirlíkingum hvers konar, en listin felst einmitt í slíku að sögn fornra heimspekinga, og þeir hafa viljað tengja þá ánægju þekkingarþránni sem hverjum manni er í blóð borin, því að í eftirlíkingunni verði ljósara hvernig eittthvað sé.

Ef betur er að gáð felst þekkingargildi listarinnar þó ekki endilega í því að birta sem nákvæmasta eftirmynd eða spegilmynd hins áþreifanlega veruleika heldur að sjá hann í nýju ljósi og samhengi og draga þá fram hið almenna og dæmigerða fremur en hið einstaka og tilviljunarkennda, það sem gæti gerst ekki síður en það sem gerðist og loks það sem ætti að vera jafnt því sem við blasir.

Fyrir vikið kann sumum að finnast listin bera meiri keim af lygi en sannleika, enda hefur hún, nánar tiltekið skáldskaparlistin, verið skilgreind sem „hin fagra lygi“. En hvort sem við viljum bendla listina við sannleik eða lygi eða líta á hana sem kynlegt sambland af hvoru tveggja, þá þarf ekki að fara í grafgötur um að hugtakið fegurð sé einhverskonar lykilorð til skilnings og skilgreiningar á henni, enda talað um fagrar listir og sú fræðigrein sem fjallar um lögmál listar nefnd á vora tungu fagurfræði.

Þetta þarf ekki að þýða að listin eigi að beinast alfarið að því sem fagurt er og sneiða hjá hinu ljóta og lágkúrulega, en þó má segja að í afhjúpun hins ljóta í ljótleika sínum felist skírskotun til hins fagra og hún hljóti í því að lúta kröfum um ákveðna markvísi og skipulag, samræmi og samhljóm, og því ekki út í hött þegar skáld hafa viljað setja jafnaðarmerki milli fegurðar og sannleika. En fegurðin er annað og meira en umbúðir til að koma á framfæri einhverjum sannleika í eitt skipti fyrir öll heldur eitthvað sem veitir listaverkinu varanlegt yndi og aðdráttarafl. Og þegar betur er að gáð er það fegurðin eða þráin eftir henni sem á ekki minnstan þátt í því að listaverk verði til, þar sem hún vekur og glæðir sköpunarþrána sem er einn angi getnaðarþrár, frumafls alls lífs, og það er einmitt töframáttur hennar sem megnar að halda á loft og varðveita minnisverða reynslu kynslóðanna og skapa þannig tengsl manna í millum, ekki einungis lifenda heldur og liðinna sem óborinna.

Þannig má að lokum klykkja út með því að bæði þörf manna til að gera sér grein fyrir umhverfi sínu og ná valdi yfir því og þráin til að njóta fegurðar eigi sinn þátt í tilurð þess margþætta fyrirbrigðis sem við nefnum listaverk, enda hefur listinni löngum verið talið til ágætis að hún sameini hið gagnlega hinu ánægjulega: utile dulci eins og sagt er á latínu.Skoðið einnig svör við eftirfarandi spurningum á Vísindavefnum

Höfundur

dósent í almennri bókmenntafræði við HÍ

Útgáfudagur

31.5.2002

Spyrjandi

Brynjar Valþórsson, f. 1985

Tilvísun

Kristján Árnason bókmenntafræðingur. „Hver er uppruni listarinnar?“ Vísindavefurinn, 31. maí 2002. Sótt 25. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2448.

Kristján Árnason bókmenntafræðingur. (2002, 31. maí). Hver er uppruni listarinnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2448

Kristján Árnason bókmenntafræðingur. „Hver er uppruni listarinnar?“ Vísindavefurinn. 31. maí. 2002. Vefsíða. 25. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2448>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er uppruni listarinnar?
Þessari stóru spurningu er ekki auðsvarað í stuttu máli, ef reynt er að skoða málið frá fleiri en einni hlið eins og því hæfir. Frá sögulegu sjónarmiði verður upphaf listarinnar ekki tímasett eins og hver annar merkisatburður, svo sem fundur Vínlands, eða tilkoma einhverrar tækninýjungar, svo sem atómsprengjunnar, heldur væri nær að segja að það hverfi í grámóðu fortíðar og renni þar jafnvel saman við upphaf mannkynsins sjálfs.

Með talsverðum rétti má telja listþörfina til frumþarfa mannkyns, enda gerir hún vart við sig snemma í sögu þess líkt og í ævi hvers einstaklings þar sem hneigðin til leikja og til að búa sér til þykjustu-veröld er sterkust einmitt í frumbernsku. En til að komast nær sögulegu upphafi listarinnar, sem við höfum óneitanlega fjarlægst, hljóta að vera einkum tvær leiðir tiltækastar, annars vegar að leita til þeirra forsögulegu heimilda og menja sem við vitum elstar og hins vegar að skoða lífshætti þjóða, sem við teljum frumstæðar og enn fyrirfinnast á vorri alþjóðavæddu jarðkringlu, með tilliti til stöðu listar meðal þeirra.

Þar vekur athygli hve listin á sér fastan sess og er tengd markmiðum sem telja má hagnýt og koma að gagni í lífsbaráttunni, svo sem það að hafa áhrif á ytri öfl, hvort sem þau teljast náttúrleg eða yfirnáttúrleg: veðurguði, veiðidýr, sjúkdóma eða plágur, -- og því hafa menn hneigst til að rekja upphaf listarinnar til galdurs og særinga og bent í því sambandi á að orðið galdur hefur upphaflega merkinguna söngur, eins og orðið seiður.

Þar fyrir utan fer ekki milli mála að listin hefur frá öndverðu verið snar þáttur í samfélagslegum tengslum manna í milli sem vettvangur til að koma á framfæri boðskap og viðhorfum jafnt til lofs og til lasts og veita útrás hinum margbreytilegustu tilfinningum þar sem menn sameinast í gleði eða sorg. Almennt talað má því segja að listin hafi haft hlutverki að gegna í viðleitni mannsins til að ná valdi yfir náttúrunni, náunganum og sjálfum sér.

Ekki er þó víst að með þessu séu öll kurl komin til grafar eða allt fengið með því að einblína á ýmis hlutverk sem listin hefur gegnt í lífi manna og sum hver kynnu allt eins að vera í verkahring annarra mennta eða vísinda, heldur væri nær að leita einhvers sem mætti kalla séreðli hennar og spyrja af hvaða hvötum í sálinni listin sé sprottin og á hverju sú ánægja sem hún vekur byggist, án tillits til notagildis hennar. Þar hefur verið bent á þá ánægju sem menn hafa af eftirhermum og eftirlíkingum hvers konar, en listin felst einmitt í slíku að sögn fornra heimspekinga, og þeir hafa viljað tengja þá ánægju þekkingarþránni sem hverjum manni er í blóð borin, því að í eftirlíkingunni verði ljósara hvernig eittthvað sé.

Ef betur er að gáð felst þekkingargildi listarinnar þó ekki endilega í því að birta sem nákvæmasta eftirmynd eða spegilmynd hins áþreifanlega veruleika heldur að sjá hann í nýju ljósi og samhengi og draga þá fram hið almenna og dæmigerða fremur en hið einstaka og tilviljunarkennda, það sem gæti gerst ekki síður en það sem gerðist og loks það sem ætti að vera jafnt því sem við blasir.

Fyrir vikið kann sumum að finnast listin bera meiri keim af lygi en sannleika, enda hefur hún, nánar tiltekið skáldskaparlistin, verið skilgreind sem „hin fagra lygi“. En hvort sem við viljum bendla listina við sannleik eða lygi eða líta á hana sem kynlegt sambland af hvoru tveggja, þá þarf ekki að fara í grafgötur um að hugtakið fegurð sé einhverskonar lykilorð til skilnings og skilgreiningar á henni, enda talað um fagrar listir og sú fræðigrein sem fjallar um lögmál listar nefnd á vora tungu fagurfræði.

Þetta þarf ekki að þýða að listin eigi að beinast alfarið að því sem fagurt er og sneiða hjá hinu ljóta og lágkúrulega, en þó má segja að í afhjúpun hins ljóta í ljótleika sínum felist skírskotun til hins fagra og hún hljóti í því að lúta kröfum um ákveðna markvísi og skipulag, samræmi og samhljóm, og því ekki út í hött þegar skáld hafa viljað setja jafnaðarmerki milli fegurðar og sannleika. En fegurðin er annað og meira en umbúðir til að koma á framfæri einhverjum sannleika í eitt skipti fyrir öll heldur eitthvað sem veitir listaverkinu varanlegt yndi og aðdráttarafl. Og þegar betur er að gáð er það fegurðin eða þráin eftir henni sem á ekki minnstan þátt í því að listaverk verði til, þar sem hún vekur og glæðir sköpunarþrána sem er einn angi getnaðarþrár, frumafls alls lífs, og það er einmitt töframáttur hennar sem megnar að halda á loft og varðveita minnisverða reynslu kynslóðanna og skapa þannig tengsl manna í millum, ekki einungis lifenda heldur og liðinna sem óborinna.

Þannig má að lokum klykkja út með því að bæði þörf manna til að gera sér grein fyrir umhverfi sínu og ná valdi yfir því og þráin til að njóta fegurðar eigi sinn þátt í tilurð þess margþætta fyrirbrigðis sem við nefnum listaverk, enda hefur listinni löngum verið talið til ágætis að hún sameini hið gagnlega hinu ánægjulega: utile dulci eins og sagt er á latínu.Skoðið einnig svör við eftirfarandi spurningum á Vísindavefnum...