Þegar bornir eru saman leikir feðra og mæðra við börn sín, kemur í ljós athyglisverður mismunur (Parke, 1995). Feðurnir leika oftar líkamlega leiki við börnin, bera þau á hestbaki, henda þeim upp í loft og svo framvegis. Mæðurnar lesa hins vegar oftar fyrir börnin og leika rólegri leiki. Feðurnir eru ófyrirsjáanlegri og börnum finnst oft meira fjör í leikjum við þá en við mæðurnar. Mæðurnar eru hins vegar næmari á vísbendingar barnanna um að þau vilji fá athygli og umönnun. Því leita börnin til foreldranna við mismunandi aðstæður. Þessi kynjamunur í leikjum er þó menningarbundinn. Hann er til dæmis meiri í Bandaríkjunum en í Svíþjóð.
Einnig er athyglisvert hvað foreldrarnir gera þegar þeir eru með börnunum. Feðurnir fara oftar í gönguferðir og styttri ferðalög, sýna börnunum eitthvað skemmtilegt en mæðurnar eyða meiri tíma í að sinna þeim inni við. Barnið mundi sennilega leita til föður síns til að gera með honum eitthvað skemmtilegt, en til móður sinnar til að uppfylla þarfir sínar. Einnig er athyglisvert að þegar faðirinn er einstæður, verða leikir hans og umönnun blanda af mynstri feðra og mæðra almennt, en þó nær mynstri mæðra.
Ljóst er að feðurnir geta eins vel sinnt um börnin og mæðurnar, sé þeim gefið tækifæri til þess. Rannsóknir sýna að það er börnunum mjög hollt að feður þeirra sinni þeim. Umönnun feðra tengist hærri greind barna, betri námsárangri, meiri félagsþroska og betri aðlögun en hjá börnum sem feðurnir sinntu lítið (Gottfried, Bathurst og Gottfried, 1994). Það er því til mikils að vinna að feður taki sér tíma til að sinna börnunum og að mæður geri þeim það kleift.
Heimildir
Baumrind, D. (1991). Effective parenting during the early adolescent transition. Í P.A. Cowan og M. Heatherington (ritstj.). Family transition. Hillsdale, NJ: Erlbaum.
Cox, M.J., Owen, M.T., Henderson, V.K. og Margand, N.A. (1992). Prediction of infant-father and infant-mother attachment. Developmental Psychology, 28, 474-483.
Gottfried, A.E., Bathurst, K., og Gottfried, A.W. (1994). Role of maternal and dual-earner employment status in children's development: A longitudinal study from infancy through early adolescence. Í A.E. Gottfried og A.W. Gottfried (ritstj.). Redefining families: Implications for children's development. New York: Plenum.
Parke, R.D. (1995). Fathers and families. Í M.H. Bornstein (ritstj.). Handbook of parenting (3. bindi, bls. 27-63). Mahwah, NJ: Erlbaum.
Sjáið einnig svar Sigrúnar Júlíusdóttur við spurningunni Af hverju eru sumir háðir foreldrum sínum en aðrir ekki?
Mynd: HB