Sólin Sólin Rís 08:57 • sest 18:26 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:39 • Sest 09:49 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:12 • Síðdegis: 18:32 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:01 • Síðdegis: 12:30 í Reykjavík

Hvað er níhílisti?

Guðmundur Hálfdanarson

Níhilisti er einstaklingur sem aðhyllist níhilisma. Nafnið er dregið af latnenska orðinu 'nihil', ekkert, og gefur til kynna að heimspekilegur níhilismi er heimspeki neitunar. Þannig neitar siðfræðilegur níhilisti því að unnt sé að réttlæta eða gagnrýna siðferðilega dóma, meðal annars á þeirri forsendu að siðferðileg lögmál séu einvörðungu byggð á huglægu vali eða tilfinningum þeirra sem setja þau fram. Á sama hátt hafnar þekkingarfræðilegur níhilisti því að hægt sé að réttlæta eða gagnrýna þekkingu manna, vegna þess að fullyrðingar af því tagi hljóta að byggjast á algildum sannindum, en engin slík sannindi eru til að mati níhilista. Í augum þeirra er öll þekking því afstæð og háð þeim tíma og aðstæðum sem hún sprettur úr.

Pólitískur níhilisti vill eyðileggja allar pólítískar stofnanir samfélagsins, en hefur ekki fastmótaðar hugmyndir um hvað á að koma í þeirra stað. Helsta einkenni níhilismans er afneitun hvers konar siðalögmála og merkingar með lífinu. Trúarbrögð, heimspeki og siðmenning eru aðeins aðferðir til fela tilgangsleysi lífins, segir til dæmis rúmensk-franski heimspekingurinn E.M. Cioran í bók sinni Précis de décomposition (1949, Handbók um eyðingu/rotnun) og tjáir hann þar útbreidda skoðun meðal níhilsita.

Hugtökin níhilisti og níhilismi finnast í ritum allt aftur til miðalda, en það er fyrst á síðari hluta 19. aldar sem þau hljóta nokkra útbreiðslu. Upphafið má rekja til rússneskra rithöfunda um miðja öldina, og er þekktasta dæmið að finna í bók Ívans Túrgenevs, Feður og synir (1862) en þar lýsir ein sögupersónan, Bazarov, því yfir að hann sé níhilisti og neiti þar með öllum gildum.

Í skáldsögu sinni Hinir óðu (Besy) sem út kom 1871-72 gagnrýnir rithöfundurinn Fjodor Dostojevskíj hugmyndafræði níhilista á áhrifaríkan hátt, en þar er dregin upp sú mynd af þeim að með því að hafna Guði hafi þeir glatað þeim gildum sem leiðbeina manninum í lífinu. Þar með er líf þeirra merkingarlaust og þeir enda með að svipta sig lífi.

Í reynd lögðu rússneskir níhilistar megináherslu á það að afneita kosmískum lögmálum og boðuðu mjög harða efnishyggju. Að þeirra mati var enginn sannleikur til nema sá sem sanna mátti á vísndalegan hátt og vísindin mundu á endanum leiða manninn út úr myrkri vanþekkingar (þeir voru því undir sterkum áhrifum frá pósitífisma). Rússneskir íhaldsmenn óttuðust níhilista mjög vegna þess að þeir afneituðu einnig eindregið hefðbundnum stofnunum samfélagsins, allt frá fjölskyldunni til kirkju og ríkis. Rússnesku níhilistarnir höfðu ekki veruleg áhrif sem slíkir, en ruddu þó brautina fyrir bæði bolsésvískum byltingarmönnum og anarkistum.

Aðra þekktustu notkun hugtaksins níhilismi á 19. öld er að finna í verkum þýska heimspekingsins Friedrichs Nietzsches, og þá sérstaklega í bók hans Viljinn til valda (Der Wille zur Macht, sem kom út að honum látnum árið 1901). Þar lýsti hann því hvernig "dauði Guðs" hefði grafið undan siðfræði Vesturlanda og rænt Evrópumenn trúnni á tilgang lífsins. Evrópsk menning myndi af þeim sökum einkennast í æ ríkari mæli af níhilisma, eða tilfinningu tilgangs- og merkingarleysis.

Nietzsche spáði því þó að maðurinn myndi ekki sætta sig við slíkt ástand til lengdar, vegna þess að kristin trú hafði vanið hann á að trúa á æðri tilgang í lífinu. Í framtíðinni kæmu Evrópubúar því til með að búa sér til nýja guði, svo sem þjóðernið eða þjóðríkið, til að gæða líf sitt tilgangi. Ekki taldi Nietzsche að þessi nýja trú myndi leiða margt jákvætt af sér, vegna þess að í framtíðinni myndi mannkynið steypa sér út í styrjaldir í nafni þjóðernis eða annars konar bræðralags, á sama hátt og kristin trú hafði gert á fyrri tímum.

Mynd af Fjodor Dostojevskíj fengin frá The Realm of Existentialism

Höfundur

Guðmundur Hálfdanarson

prófessor í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

17.3.2000

Spyrjandi

Sveinbjörn Geirsson

Tilvísun

Guðmundur Hálfdanarson. „Hvað er níhílisti?“ Vísindavefurinn, 17. mars 2000. Sótt 23. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=247.

Guðmundur Hálfdanarson. (2000, 17. mars). Hvað er níhílisti? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=247

Guðmundur Hálfdanarson. „Hvað er níhílisti?“ Vísindavefurinn. 17. mar. 2000. Vefsíða. 23. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=247>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er níhílisti?
Níhilisti er einstaklingur sem aðhyllist níhilisma. Nafnið er dregið af latnenska orðinu 'nihil', ekkert, og gefur til kynna að heimspekilegur níhilismi er heimspeki neitunar. Þannig neitar siðfræðilegur níhilisti því að unnt sé að réttlæta eða gagnrýna siðferðilega dóma, meðal annars á þeirri forsendu að siðferðileg lögmál séu einvörðungu byggð á huglægu vali eða tilfinningum þeirra sem setja þau fram. Á sama hátt hafnar þekkingarfræðilegur níhilisti því að hægt sé að réttlæta eða gagnrýna þekkingu manna, vegna þess að fullyrðingar af því tagi hljóta að byggjast á algildum sannindum, en engin slík sannindi eru til að mati níhilista. Í augum þeirra er öll þekking því afstæð og háð þeim tíma og aðstæðum sem hún sprettur úr.

Pólitískur níhilisti vill eyðileggja allar pólítískar stofnanir samfélagsins, en hefur ekki fastmótaðar hugmyndir um hvað á að koma í þeirra stað. Helsta einkenni níhilismans er afneitun hvers konar siðalögmála og merkingar með lífinu. Trúarbrögð, heimspeki og siðmenning eru aðeins aðferðir til fela tilgangsleysi lífins, segir til dæmis rúmensk-franski heimspekingurinn E.M. Cioran í bók sinni Précis de décomposition (1949, Handbók um eyðingu/rotnun) og tjáir hann þar útbreidda skoðun meðal níhilsita.

Hugtökin níhilisti og níhilismi finnast í ritum allt aftur til miðalda, en það er fyrst á síðari hluta 19. aldar sem þau hljóta nokkra útbreiðslu. Upphafið má rekja til rússneskra rithöfunda um miðja öldina, og er þekktasta dæmið að finna í bók Ívans Túrgenevs, Feður og synir (1862) en þar lýsir ein sögupersónan, Bazarov, því yfir að hann sé níhilisti og neiti þar með öllum gildum.

Í skáldsögu sinni Hinir óðu (Besy) sem út kom 1871-72 gagnrýnir rithöfundurinn Fjodor Dostojevskíj hugmyndafræði níhilista á áhrifaríkan hátt, en þar er dregin upp sú mynd af þeim að með því að hafna Guði hafi þeir glatað þeim gildum sem leiðbeina manninum í lífinu. Þar með er líf þeirra merkingarlaust og þeir enda með að svipta sig lífi.

Í reynd lögðu rússneskir níhilistar megináherslu á það að afneita kosmískum lögmálum og boðuðu mjög harða efnishyggju. Að þeirra mati var enginn sannleikur til nema sá sem sanna mátti á vísndalegan hátt og vísindin mundu á endanum leiða manninn út úr myrkri vanþekkingar (þeir voru því undir sterkum áhrifum frá pósitífisma). Rússneskir íhaldsmenn óttuðust níhilista mjög vegna þess að þeir afneituðu einnig eindregið hefðbundnum stofnunum samfélagsins, allt frá fjölskyldunni til kirkju og ríkis. Rússnesku níhilistarnir höfðu ekki veruleg áhrif sem slíkir, en ruddu þó brautina fyrir bæði bolsésvískum byltingarmönnum og anarkistum.

Aðra þekktustu notkun hugtaksins níhilismi á 19. öld er að finna í verkum þýska heimspekingsins Friedrichs Nietzsches, og þá sérstaklega í bók hans Viljinn til valda (Der Wille zur Macht, sem kom út að honum látnum árið 1901). Þar lýsti hann því hvernig "dauði Guðs" hefði grafið undan siðfræði Vesturlanda og rænt Evrópumenn trúnni á tilgang lífsins. Evrópsk menning myndi af þeim sökum einkennast í æ ríkari mæli af níhilisma, eða tilfinningu tilgangs- og merkingarleysis.

Nietzsche spáði því þó að maðurinn myndi ekki sætta sig við slíkt ástand til lengdar, vegna þess að kristin trú hafði vanið hann á að trúa á æðri tilgang í lífinu. Í framtíðinni kæmu Evrópubúar því til með að búa sér til nýja guði, svo sem þjóðernið eða þjóðríkið, til að gæða líf sitt tilgangi. Ekki taldi Nietzsche að þessi nýja trú myndi leiða margt jákvætt af sér, vegna þess að í framtíðinni myndi mannkynið steypa sér út í styrjaldir í nafni þjóðernis eða annars konar bræðralags, á sama hátt og kristin trú hafði gert á fyrri tímum.

Mynd af Fjodor Dostojevskíj fengin frá The Realm of Existentialism ...