Sólin Sólin Rís 10:54 • sest 15:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:02 • Síðdegis: 20:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:45 • Síðdegis: 14:25 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:54 • sest 15:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:02 • Síðdegis: 20:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:45 • Síðdegis: 14:25 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Breytist útlit minka eftir árstíma eða kyni?

Róbert Arnar Stefánsson



Útlit minka er breytilegt milli árstíða. Stafar það af breytingum á feldinum og líkamsástandi dýranna. Kynjamunur er á stærð minka en að öðru leyti eru kynin lík í útliti.

Minkar fara úr hárum tvisvar á ári og nýr feldur vex. Þeir fara í sumarbúning í apríl og vetrarbúning í september og október. Nokkur munur er á útliti búninganna, þótt báðir séu dökkbrúnir í fyrstu. Vetrarhárin eru nokkuð þéttari og lengri, sem veitir meiri einangrun og veldur því (ásamt þyngdaraukningu, sjá síðar) að minkar virðast stærri að vetrarlagi. Meiri gljái er á vetrarfeldinum en sumarfeldinum en þegar líður frá háraskiptum upplitast feldurinn vegna sólarljóss. Eðli málsins samkvæmt verður upplitunin meiri á sumrin, þegar sól er hæst á lofti, og getur feldurinn orðið ljósbrúnn á fullorðnum dýrum þegar líður að hausti. Upplitunin er oft meiri hjá minkum sem lifa við sjó því selta sjávar fer illa með feldinn. Í ágúst og september, þegar hvolpar sumarsins eru orðnir stálpaðir, má þekkja ung dýr frá fullorðnum á lit. Ungu dýrin eru þá nokkru dekkri en þau eldri, enda hefur sólin ekki lýst feldinn eins mikið.

Mikill kynjamunur er á stærð hjá minkum. Læður eru að jafnaði rúmlega 600 grömm en steggir tvöfalt þyngri eða um 1.200 grömm. Að öðru leyti eru kynin lík í útliti utan kynfæra og spena.

Líkamsástand minka breytist mikið eftir árstíma. Læður þyngjast á meðgöngu en geta lést mjög þegar líður á sumarið, enda þurfa þær þá að sjá hvolpum sínum fyrir fæðu, auk þess að veiða fyrir sig sjálfar. Í seinni hluta ágústmánaðar eru hvolparnir hins vegar orðnir sjálfbjarga og minnkar þá álagið á móðurina mikið.

Þyngdarbreytingar steggja eru greinilegri. Þeir ná hámarksþyngd í janúar og febrúar, það er rétt fyrir upphaf fengitíma, sem stendur frá lokum febrúar til apríl. Á fengitímanum ferðast steggirnir mikið í leit að læðum til að makast við og léttast að jafnaði um fimmtung. Um sumarið taka þeir að þyngjast á ný og heldur sú þynging áfram fram að næsta fengitíma þegar ferlið endurtekur sig.

Sjá einnig svar sama höfundar við spurningunni Hver er stofnstærð villiminks á Íslandi? Á hann sér einhverja náttúrulega óvini?



Mynd: Fjölskyldu og húsdýragarðurinn

Höfundur

forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands

Útgáfudagur

13.6.2002

Spyrjandi

Svala Smáradóttir, f. 1985

Tilvísun

Róbert Arnar Stefánsson. „Breytist útlit minka eftir árstíma eða kyni?“ Vísindavefurinn, 13. júní 2002, sótt 4. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2487.

Róbert Arnar Stefánsson. (2002, 13. júní). Breytist útlit minka eftir árstíma eða kyni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2487

Róbert Arnar Stefánsson. „Breytist útlit minka eftir árstíma eða kyni?“ Vísindavefurinn. 13. jún. 2002. Vefsíða. 4. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2487>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Breytist útlit minka eftir árstíma eða kyni?


Útlit minka er breytilegt milli árstíða. Stafar það af breytingum á feldinum og líkamsástandi dýranna. Kynjamunur er á stærð minka en að öðru leyti eru kynin lík í útliti.

Minkar fara úr hárum tvisvar á ári og nýr feldur vex. Þeir fara í sumarbúning í apríl og vetrarbúning í september og október. Nokkur munur er á útliti búninganna, þótt báðir séu dökkbrúnir í fyrstu. Vetrarhárin eru nokkuð þéttari og lengri, sem veitir meiri einangrun og veldur því (ásamt þyngdaraukningu, sjá síðar) að minkar virðast stærri að vetrarlagi. Meiri gljái er á vetrarfeldinum en sumarfeldinum en þegar líður frá háraskiptum upplitast feldurinn vegna sólarljóss. Eðli málsins samkvæmt verður upplitunin meiri á sumrin, þegar sól er hæst á lofti, og getur feldurinn orðið ljósbrúnn á fullorðnum dýrum þegar líður að hausti. Upplitunin er oft meiri hjá minkum sem lifa við sjó því selta sjávar fer illa með feldinn. Í ágúst og september, þegar hvolpar sumarsins eru orðnir stálpaðir, má þekkja ung dýr frá fullorðnum á lit. Ungu dýrin eru þá nokkru dekkri en þau eldri, enda hefur sólin ekki lýst feldinn eins mikið.

Mikill kynjamunur er á stærð hjá minkum. Læður eru að jafnaði rúmlega 600 grömm en steggir tvöfalt þyngri eða um 1.200 grömm. Að öðru leyti eru kynin lík í útliti utan kynfæra og spena.

Líkamsástand minka breytist mikið eftir árstíma. Læður þyngjast á meðgöngu en geta lést mjög þegar líður á sumarið, enda þurfa þær þá að sjá hvolpum sínum fyrir fæðu, auk þess að veiða fyrir sig sjálfar. Í seinni hluta ágústmánaðar eru hvolparnir hins vegar orðnir sjálfbjarga og minnkar þá álagið á móðurina mikið.

Þyngdarbreytingar steggja eru greinilegri. Þeir ná hámarksþyngd í janúar og febrúar, það er rétt fyrir upphaf fengitíma, sem stendur frá lokum febrúar til apríl. Á fengitímanum ferðast steggirnir mikið í leit að læðum til að makast við og léttast að jafnaði um fimmtung. Um sumarið taka þeir að þyngjast á ný og heldur sú þynging áfram fram að næsta fengitíma þegar ferlið endurtekur sig.

Sjá einnig svar sama höfundar við spurningunni Hver er stofnstærð villiminks á Íslandi? Á hann sér einhverja náttúrulega óvini?



Mynd: Fjölskyldu og húsdýragarðurinn...