
Miklar deilur hafa spunnist um innbyrðis skyldleika krókódíla á síðustu áratugum en ofangreint ættartré krókódílaættbálksins Crocodylia er það nýjasta sem til er en það var sett fram árið 1997 af tveimur bandarískum líffræðingum. Það sem helst aðgreinir tegundirnar innan ættanna Alligatoridae og Crocodylidae er að trjónan er breiðari, flatari og hringlaga hjá alligatorum en eiginlegir krókódílar hafa langa og hvassa trjónu. Einnig eru tennurnar ólíkar hjá dýrunum. Þegar alligatorar loka kjaftinum sést ekki í tennur dýrsins en tennurnar hjá krókódílum skaga upp úr og sjást greinilega þó að dýrið sé með kjaftinn lokaðan.

Krókodíll af tegundinni Crocodylus palustris sem lifir á Indlandi. Dýrið tilheyrir ættkvíslinni Crocodylus sem telst til ættarinnar Crocodylidea í töflunni hér á undan. Tennur neðri skoltsins sjást greinilega á myndinni.
Af eiginlegum alligatorum (Alligator) eru til tvær tegundir eins og áður er sagt: ameríski krókódíllinn (l. Alligator missisippiensis) og kínverski krókódíllinn (Alligator sinensis). Alligatorar þola betur sveiflur í hitastigi en krókódílar enda eru þeir aðlagaðir að meira tempruðu loftslagi en krókódílar hitabeltisins. Ameríski krókódíllinn lifir til dæmis sums staðar á svæðum þar sem árstíðaskipti eru, þannig að veturnir eru kaldari en sumrin. Kínverski krókódíllinn lifir í Yangtse fljótinu og er minni en sá ameríski eða um tveir og hálfur metri fullvaxinn.

Ein tegund alligatora, Melanosuchus niger sem lifir á fljótasvæðum Amazon svæðisins. Ættkvíslin Melanosuchus er ein af fjórum í ættinni Alligatoridae í töflunni hér á undan.
Ameríski krókódíllinn lifir aðallega í suðausturríkjum Bandaríkjanna en finnst einnig vestur í fljótinu Ríó Grande í Texas. Hann lifir aðallega í vötnum og í votlendi. Ameríski krókódíllinn var ofveiddur á fyrri hluta 20. aldar en var alfriðaður árið 1967. Veiðar hafa þó verið leyfðar að nýju í nokkrum ríkjum enda hefur tegundin tekið vel við sér á undanförnum áratugum. Aðrar ættkvíslir innan ættarinnar eru Caiman, Melanosuchus og Paleosuchus sem eru smávaxnar tegundir sem lifa í Mið- og Suður Ameríku. Krókodílar af ættinni Crocodylidae lifa flestar í Afríku, Asíu eða Eyjaálfu, þó með nokkrum undantekningum því að þrjár tegundir lifa í Ameríku. Lífshættir dýranna í ættunum þremur eru mjög áþekkir. Allar tegundirnar eru skæð rándýr sem leggjast einnig á hræ. Myndirnar eru fengnar af vefsetrunum sommerlad.de og Florida Museum of Natural History