Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða áhrif hafði Aristóteles á miðöldum og fyrir hvað var hann þekktur?

Gunnar Harðarson

Aristóteles var þekktastur og áhrifamestur heimspekinga á miðöldum og með nokkrum rétti mætti kalla 12. og 13. öld aldir Aristótelesar. Þegar Tómas frá Akvínó vísar til Aristótelesar í ritum sínum lætur hann sér nægja að kalla hann “heimspekinginn” – allir vita við hvern er átt. Rit Aristótelesar voru uppgötvuð smátt og smátt og má skipta viðtökum við heimspeki hans á miðöldum í nokkra áfanga.

Fyrst ber að nefna rökfræðiritin. “Eldri rökfræðin” sem svo var kölluð (logica vetus), en það voru rökfræðirit á borð við Umsagnir (De categoris) og Dóma (De interpretatione), var þekkt og notuð í kennslu allt frá því að rómverski heimspekingurinn Boethius þýddi þau á latínu um 510-522. Við þessi rit studdust fræðimenn, heimspekingar og guðfræðingar framan af miðöldum. Það er ekki fyrr en á öðrum fjórðungi tólftu aldar að nýjar þýðingar á fleiri rökfræðiritum Aristótelesar koma fram, og gengu þau undir nafninu “nýja rökfræðin” (logica nova). Þessar þýðingar voru flestar eftir Jakob frá Feneyjum, sem starfaði bæði í Grikklandi og á Ítalíu.

Áhugi á ritum Aristótelesar jókst mjög upp úr þessu og spreyttu ýmsir þýðendur sig á ritum hans. Meðal annars þýddu bæði Jakob frá Feneyjum og Michael Scotus Eðlisfræðina, Um sálina og hluta úr Frumspekinni, hinn fyrri úr grísku um 1125-1150, hinn síðari úr arabísku um 1220-1235. Michael Scotus, sem starfaði bæði á Spáni og á Ítalíu, þýddi einnig Stóra skýringarrit spænsk-arabíska heimspekingsins Averroesar á Frumspekinni og skipti það miklu máli fyrir viðtökur heimspeki Aristótelesar á 13. öld, því að þá fengu fræðimenn bæði heildartexta Frumspekinnar og skýringar á textanum. Siðfræðina þýddu ýmsir fræðimenn um svipað leyti, m.a. enski heimspekingurinn Robert Grosseteste um 1246, svo og ýmis náttúrufræðirit.

Flæmski dóminíkanamunkurinn Wilhelm frá Moerbeke, sem starfaði bæði á Grikklandi og við páfahirðina á Ítalíu, þýddi úr grísku þau rit sem á vantaði og endurskoðaði fyrri þýðingar á árunum 1260-1280 og var yfirleitt stuðst við þýðingar hans eftir það, en þó var það ekki algilt. Stjórnspekina þýddi hann upp úr 1260 og Skáldskaparfræðin um 1278. Segja má að öll rit Aristótelesar hafi verið aðgengileg á latínu um 1300. Til samanburðar má benda á að öll rit Platóns voru ekki til í latneskum þýðingum fyrr en undir 1500.

Áhrif Aristótelesar eru fólgin bæði í aðferðum hans og hugtökum, en ekki hvað síst í þeirri heildarheimsmynd sem rit hans létu miðaldamönnum í té og vék ekki fyrr en með vísindabyltingunni á 17. öld. Auk heimsmyndarinnar má segja að Aristóteles hafi með rökfræðiritum sínum haft mikil áhrif á hugsunarhátt Vesturlandabúa með greiningu sinni á hlut og eiginleika, sönnum og ósönnum setningum og samsetningu þeirra í gildri rökfærslu (syllogisma). Á miðöldum gætir hrifa frá frumspeki hans til dæmis hjá Tómas frá Akvínó, frá stjórnspeki hans hjá Marsiliusi frá Padua og frá rökfræði hans hjá Vilhjálmi af Ockham. Á 13. öld voru rit hans bönnuð með reglulegu millibili, fyrst 1210, og síðasta og áhrifamesta bannið var sett í París 1277, þegar ýmsar kenningar kenndar við Averroes voru bannaðar. Talið er að þetta bann hafi að einhverju leyti ýtt undir breyttar áherslur í heimspeki 14. aldar og breytt viðhorf til hlutverks skynseminnar í guðfræði.

Heimild

The Cambridge History of Later Medieval Philosophy, ritstj. Norman Kretzmann, Anthony Kenny og Jan Pinborg, Cambridge University Press, 1982.

Um rökfræði Aristótelesar má lesa í svari Ólafs Páls Jónssonar við spurningunni Hvers vegna er rökfræðin svona flókin og hver er tilgangurinn með henni?

Rit eftir Aristóteles á íslensku

Umsagnir, Sigurjón Halldórsson þýddi, Ararit 1992.

Frumspekin I, Svavar Hrafn Svavarsson þýddi, Hið íslenzka bókmenntafélag 1999.

Um skáldskaparlistina, Kristján Árnason þýddi, Hið íslenzka bókmenntafélag 1976.

Siðfræði Nikomakkosar, Hið íslenzka bókmenntafélag 1995.

Um sálina, Sigurjón Björnsson þýddi, Hið íslenzka bókmenntafélag, 1985.



Mynd af Aristótelesi: High Altitude Observatory

Mynd af Ockham: Universitat i Oslo

Mynd af Tómasi frá Akvínó: The Public Philosopher

Höfundur

Gunnar Harðarson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

21.6.2002

Spyrjandi

Ingunn Jóhannesdóttir

Tilvísun

Gunnar Harðarson. „Hvaða áhrif hafði Aristóteles á miðöldum og fyrir hvað var hann þekktur?“ Vísindavefurinn, 21. júní 2002, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2513.

Gunnar Harðarson. (2002, 21. júní). Hvaða áhrif hafði Aristóteles á miðöldum og fyrir hvað var hann þekktur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2513

Gunnar Harðarson. „Hvaða áhrif hafði Aristóteles á miðöldum og fyrir hvað var hann þekktur?“ Vísindavefurinn. 21. jún. 2002. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2513>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða áhrif hafði Aristóteles á miðöldum og fyrir hvað var hann þekktur?
Aristóteles var þekktastur og áhrifamestur heimspekinga á miðöldum og með nokkrum rétti mætti kalla 12. og 13. öld aldir Aristótelesar. Þegar Tómas frá Akvínó vísar til Aristótelesar í ritum sínum lætur hann sér nægja að kalla hann “heimspekinginn” – allir vita við hvern er átt. Rit Aristótelesar voru uppgötvuð smátt og smátt og má skipta viðtökum við heimspeki hans á miðöldum í nokkra áfanga.

Fyrst ber að nefna rökfræðiritin. “Eldri rökfræðin” sem svo var kölluð (logica vetus), en það voru rökfræðirit á borð við Umsagnir (De categoris) og Dóma (De interpretatione), var þekkt og notuð í kennslu allt frá því að rómverski heimspekingurinn Boethius þýddi þau á latínu um 510-522. Við þessi rit studdust fræðimenn, heimspekingar og guðfræðingar framan af miðöldum. Það er ekki fyrr en á öðrum fjórðungi tólftu aldar að nýjar þýðingar á fleiri rökfræðiritum Aristótelesar koma fram, og gengu þau undir nafninu “nýja rökfræðin” (logica nova). Þessar þýðingar voru flestar eftir Jakob frá Feneyjum, sem starfaði bæði í Grikklandi og á Ítalíu.

Áhugi á ritum Aristótelesar jókst mjög upp úr þessu og spreyttu ýmsir þýðendur sig á ritum hans. Meðal annars þýddu bæði Jakob frá Feneyjum og Michael Scotus Eðlisfræðina, Um sálina og hluta úr Frumspekinni, hinn fyrri úr grísku um 1125-1150, hinn síðari úr arabísku um 1220-1235. Michael Scotus, sem starfaði bæði á Spáni og á Ítalíu, þýddi einnig Stóra skýringarrit spænsk-arabíska heimspekingsins Averroesar á Frumspekinni og skipti það miklu máli fyrir viðtökur heimspeki Aristótelesar á 13. öld, því að þá fengu fræðimenn bæði heildartexta Frumspekinnar og skýringar á textanum. Siðfræðina þýddu ýmsir fræðimenn um svipað leyti, m.a. enski heimspekingurinn Robert Grosseteste um 1246, svo og ýmis náttúrufræðirit.

Flæmski dóminíkanamunkurinn Wilhelm frá Moerbeke, sem starfaði bæði á Grikklandi og við páfahirðina á Ítalíu, þýddi úr grísku þau rit sem á vantaði og endurskoðaði fyrri þýðingar á árunum 1260-1280 og var yfirleitt stuðst við þýðingar hans eftir það, en þó var það ekki algilt. Stjórnspekina þýddi hann upp úr 1260 og Skáldskaparfræðin um 1278. Segja má að öll rit Aristótelesar hafi verið aðgengileg á latínu um 1300. Til samanburðar má benda á að öll rit Platóns voru ekki til í latneskum þýðingum fyrr en undir 1500.

Áhrif Aristótelesar eru fólgin bæði í aðferðum hans og hugtökum, en ekki hvað síst í þeirri heildarheimsmynd sem rit hans létu miðaldamönnum í té og vék ekki fyrr en með vísindabyltingunni á 17. öld. Auk heimsmyndarinnar má segja að Aristóteles hafi með rökfræðiritum sínum haft mikil áhrif á hugsunarhátt Vesturlandabúa með greiningu sinni á hlut og eiginleika, sönnum og ósönnum setningum og samsetningu þeirra í gildri rökfærslu (syllogisma). Á miðöldum gætir hrifa frá frumspeki hans til dæmis hjá Tómas frá Akvínó, frá stjórnspeki hans hjá Marsiliusi frá Padua og frá rökfræði hans hjá Vilhjálmi af Ockham. Á 13. öld voru rit hans bönnuð með reglulegu millibili, fyrst 1210, og síðasta og áhrifamesta bannið var sett í París 1277, þegar ýmsar kenningar kenndar við Averroes voru bannaðar. Talið er að þetta bann hafi að einhverju leyti ýtt undir breyttar áherslur í heimspeki 14. aldar og breytt viðhorf til hlutverks skynseminnar í guðfræði.

Heimild

The Cambridge History of Later Medieval Philosophy, ritstj. Norman Kretzmann, Anthony Kenny og Jan Pinborg, Cambridge University Press, 1982.

Um rökfræði Aristótelesar má lesa í svari Ólafs Páls Jónssonar við spurningunni Hvers vegna er rökfræðin svona flókin og hver er tilgangurinn með henni?

Rit eftir Aristóteles á íslensku

Umsagnir, Sigurjón Halldórsson þýddi, Ararit 1992.

Frumspekin I, Svavar Hrafn Svavarsson þýddi, Hið íslenzka bókmenntafélag 1999.

Um skáldskaparlistina, Kristján Árnason þýddi, Hið íslenzka bókmenntafélag 1976.

Siðfræði Nikomakkosar, Hið íslenzka bókmenntafélag 1995.

Um sálina, Sigurjón Björnsson þýddi, Hið íslenzka bókmenntafélag, 1985.



Mynd af Aristótelesi: High Altitude Observatory

Mynd af Ockham: Universitat i Oslo

Mynd af Tómasi frá Akvínó: The Public Philosopher...