Sólin Sólin Rís 08:22 • sest 18:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:46 • Sest 06:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:12 • Síðdegis: 17:29 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:25 • Síðdegis: 23:46 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:22 • sest 18:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:46 • Sest 06:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:12 • Síðdegis: 17:29 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:25 • Síðdegis: 23:46 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvert er upphaf kristni?

Hjalti Hugason

Upphaf kristinnar trúar er að rekja til lífs og starfs Jesú frá Nazaret. Er hann var um þrítugsaldur hóf hann að boða nálægð Guðs ríkis. Að sögn guðspjallanna staðfesti hann boðskap sinn með undrum og kraftaverkum er sannfærðu ýmsa tilheyrendur hans um að Guð væri í verki með honum. Einn þáttur í boðskap hans var að Gyðingum bæri ekki síður en öðrum að snúa frá villu síns vegar og endurnýja samband sitt við Guð. Komst hann í mikla andstöðu við helstu leiðtoga þjóðarinnar, rabbía af flokki farísea og presta af flokki saddúkea. Lauk átökunum svo að Jesús var ákærður fyrir landráð gegn Rómverjum sem réðu ríkjum í heimalandi hans á þessum tíma og tekinn af lífi eftir um það bil þriggja ára starf.

Í kjölfar aftökunnar fóru lærisveinar Jesú huldu höfði enda litu þeir svo á að krossfestingin hefði staðfest að leiðtogi þeirra hefði beðið ósigur og ef til vill verið villutrúarmaður. Að nokkrum dögum liðnum hófu þeir þó að boða að Jesús væri risinn upp frá dauðum og hefði birst þeim sem lifandi væri. Í boðun þeirra fólst einnig að Jesús hefði ekki aðeins verið gyðinglegur farandpredikari heldur hefði hann verið Kristur, sem er komið úr grísku og merkir hinn smurði, eða Messías sem er hebreskt orð. Í því fólst að hann væri sá þjóðfrelsisleiðtogi sem heitið var í ritum Gamla testamentisins og Gyðingar væntu að myndi endurreisa ríki þeirra í líkri mynd í tíð gullaldarkonunganna Sáls, Davíðs og Salómons.

Lærisveinar Jesú Krists túlkuðu þó Messísar-hlutverkið á nýjan hátt og kenndu að Messíasi hafi ekki verið ætlað að verða pólitískur leiðtogi heldur ætti að skilja fyrirheitin um hann þannig að Guð myndi í fyllingu tímans senda eingetinn son sinn í heiminn til að frelsa mannkyn undan syndum þess. Boðskap fyrstu kristnu kynslóðarinnar kynnumst við í bréfum og guðspjöllum Nýja testamentisins.

Í fyrstu litu menn svo á að lærisveinar Krists væru gyðinglegur sértrúarsöfnuður og þannig hafa þeir ugglaust einnig litið á sig sjálfir. Þeir hættu að vísu að taka þátt í fórnarguðsþjónustum í musterinu í Jerúsalem þar sem þeir litu svo á að Kristur hefði með dauða sínum borið fram hina fullkomnu fórn og þar með numið fórnarákvæði lögmálsins í Mósebókum Gamla testamentisins úr gildi. Þeir tóku hins vegar þátt í reglubundnum bænastundum í musterinu og guðsþjónustum í samkunduhúsum Gyðinga, sem nefnast synagogur. Auk þess komu þeir saman í heimahúsum þar sem þeir neyttu meðal annars þakkargjörðar- eða kvöldmáltíðar er vísaði til síðustu máltíðar Krists með lærisveinum sínum skömmu fyrir dauða sinn. Til þessarar máltíðar á altarisgangan í messunni rætur að rekja.

Þeir notfærðu sér einnig þann rétt allra fullorðinna karla að taka til máls í guðsþjónustunni í samkunduhúsunum og boðuðu þá að Messías væri þegar kominn og að Gyðingum bæri að viðurkenna hann. Fékk boðskapur þeirra nokkurt fylgi meðal Gyðinga en þó einkum meðal útlendinga eða heiðingja er hrifist höfðu af eingyðistrú og fleiri þáttum gyðingdóms en hikuðu við að ganga honum á hönd meðal annars vegna umskurnarinnar. Var slíkt fólk oft nefnt „hinir guðhræddu“. Þegar Gyðingar sáu það fylgi er lærisveinar Krists fengu snerust þeir til varnar og útilokuðu þá frá guðsþjónustum sínum. Við þetta óx aðgreiningin milli Gyðinga og lærisveina Krists.

Árin 70 og 135 gerðu Gyðingar miklar uppreisnir gegn Rómverjum. Voru þær báðar brotnar á bak aftur af mikilli hörku. Leiddi þetta til þess að bæði Gyðingar og kristnir menn hröktust frá Jerúsalem og dreifðust út um rómverska ríkið en meirihluti Gyðinga bjó þá þegar utan Palestínu. Olli þetta því að kristni tók nú í auknum mæli að breiðast út meðal annarra þjóða og miðstöð kristninnar fluttist frá Jerúsalem til Rómar. Fyrri uppreisnin ýtti mjög undir fullkominn aðskilnað milli kristinnar trúar og gyðingdóms. Þá þykir þögn kristinna höfunda um síðari uppreisnina sýna að þá þegar hafi fullur aðskilnaður verið orðinn að veruleika og kristnir menn því verið næsta ósnortnir af þeim hörmungum sem gengu yfir Gyðinga í kjölfar uppreisnarinnar.



Skoðið einnig svör við eftirfarandi spurningum á Vísindavefnum

Höfundur

Hjalti Hugason

prófessor emeritus í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

27.6.2002

Spyrjandi

Helga Sæmundsdóttir, f. 1987

Tilvísun

Hjalti Hugason. „Hvert er upphaf kristni?“ Vísindavefurinn, 27. júní 2002, sótt 16. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2537.

Hjalti Hugason. (2002, 27. júní). Hvert er upphaf kristni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2537

Hjalti Hugason. „Hvert er upphaf kristni?“ Vísindavefurinn. 27. jún. 2002. Vefsíða. 16. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2537>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvert er upphaf kristni?
Upphaf kristinnar trúar er að rekja til lífs og starfs Jesú frá Nazaret. Er hann var um þrítugsaldur hóf hann að boða nálægð Guðs ríkis. Að sögn guðspjallanna staðfesti hann boðskap sinn með undrum og kraftaverkum er sannfærðu ýmsa tilheyrendur hans um að Guð væri í verki með honum. Einn þáttur í boðskap hans var að Gyðingum bæri ekki síður en öðrum að snúa frá villu síns vegar og endurnýja samband sitt við Guð. Komst hann í mikla andstöðu við helstu leiðtoga þjóðarinnar, rabbía af flokki farísea og presta af flokki saddúkea. Lauk átökunum svo að Jesús var ákærður fyrir landráð gegn Rómverjum sem réðu ríkjum í heimalandi hans á þessum tíma og tekinn af lífi eftir um það bil þriggja ára starf.

Í kjölfar aftökunnar fóru lærisveinar Jesú huldu höfði enda litu þeir svo á að krossfestingin hefði staðfest að leiðtogi þeirra hefði beðið ósigur og ef til vill verið villutrúarmaður. Að nokkrum dögum liðnum hófu þeir þó að boða að Jesús væri risinn upp frá dauðum og hefði birst þeim sem lifandi væri. Í boðun þeirra fólst einnig að Jesús hefði ekki aðeins verið gyðinglegur farandpredikari heldur hefði hann verið Kristur, sem er komið úr grísku og merkir hinn smurði, eða Messías sem er hebreskt orð. Í því fólst að hann væri sá þjóðfrelsisleiðtogi sem heitið var í ritum Gamla testamentisins og Gyðingar væntu að myndi endurreisa ríki þeirra í líkri mynd í tíð gullaldarkonunganna Sáls, Davíðs og Salómons.

Lærisveinar Jesú Krists túlkuðu þó Messísar-hlutverkið á nýjan hátt og kenndu að Messíasi hafi ekki verið ætlað að verða pólitískur leiðtogi heldur ætti að skilja fyrirheitin um hann þannig að Guð myndi í fyllingu tímans senda eingetinn son sinn í heiminn til að frelsa mannkyn undan syndum þess. Boðskap fyrstu kristnu kynslóðarinnar kynnumst við í bréfum og guðspjöllum Nýja testamentisins.

Í fyrstu litu menn svo á að lærisveinar Krists væru gyðinglegur sértrúarsöfnuður og þannig hafa þeir ugglaust einnig litið á sig sjálfir. Þeir hættu að vísu að taka þátt í fórnarguðsþjónustum í musterinu í Jerúsalem þar sem þeir litu svo á að Kristur hefði með dauða sínum borið fram hina fullkomnu fórn og þar með numið fórnarákvæði lögmálsins í Mósebókum Gamla testamentisins úr gildi. Þeir tóku hins vegar þátt í reglubundnum bænastundum í musterinu og guðsþjónustum í samkunduhúsum Gyðinga, sem nefnast synagogur. Auk þess komu þeir saman í heimahúsum þar sem þeir neyttu meðal annars þakkargjörðar- eða kvöldmáltíðar er vísaði til síðustu máltíðar Krists með lærisveinum sínum skömmu fyrir dauða sinn. Til þessarar máltíðar á altarisgangan í messunni rætur að rekja.

Þeir notfærðu sér einnig þann rétt allra fullorðinna karla að taka til máls í guðsþjónustunni í samkunduhúsunum og boðuðu þá að Messías væri þegar kominn og að Gyðingum bæri að viðurkenna hann. Fékk boðskapur þeirra nokkurt fylgi meðal Gyðinga en þó einkum meðal útlendinga eða heiðingja er hrifist höfðu af eingyðistrú og fleiri þáttum gyðingdóms en hikuðu við að ganga honum á hönd meðal annars vegna umskurnarinnar. Var slíkt fólk oft nefnt „hinir guðhræddu“. Þegar Gyðingar sáu það fylgi er lærisveinar Krists fengu snerust þeir til varnar og útilokuðu þá frá guðsþjónustum sínum. Við þetta óx aðgreiningin milli Gyðinga og lærisveina Krists.

Árin 70 og 135 gerðu Gyðingar miklar uppreisnir gegn Rómverjum. Voru þær báðar brotnar á bak aftur af mikilli hörku. Leiddi þetta til þess að bæði Gyðingar og kristnir menn hröktust frá Jerúsalem og dreifðust út um rómverska ríkið en meirihluti Gyðinga bjó þá þegar utan Palestínu. Olli þetta því að kristni tók nú í auknum mæli að breiðast út meðal annarra þjóða og miðstöð kristninnar fluttist frá Jerúsalem til Rómar. Fyrri uppreisnin ýtti mjög undir fullkominn aðskilnað milli kristinnar trúar og gyðingdóms. Þá þykir þögn kristinna höfunda um síðari uppreisnina sýna að þá þegar hafi fullur aðskilnaður verið orðinn að veruleika og kristnir menn því verið næsta ósnortnir af þeim hörmungum sem gengu yfir Gyðinga í kjölfar uppreisnarinnar.



Skoðið einnig svör við eftirfarandi spurningum á Vísindavefnum...