Kynjahlutfallið er einnig breytilegt eftir löndum. Í Lettlandi voru til dæmis 85 karlar á móti 100 konum árið 2001. Ef kynjahlutfallið er skoðað eftir aldri má sjá að eftir 65 ára aldur eru karlarnir í Lettlandi enn færri eða eingöngu 48 á móti 100 konum. Dæmið snýst alveg við ef litið er til Katar en þar lifa mun fleiri karlar en konur eða 192 karlar á móti 100 konum. Ástæðan fyrir þessu má sjálfsagt rekja til þess að stór hluti þjóðarinnar er útlent vinnuafl sem í miklum meirihluta eru karlar. Á Íslandi er hlutfallið 1:1 sem þýðir að hér eru jafnmargir karlar og konur.
Í Kína reyna stjórnvöld að stemma stigu við mannfjölgun og mega hjón eingöngu eignast 1 barn. Afleiðingin hefur orðið sú að kínverskir karlar eru mun fleiri en kínverskar konur. Ástæðan er sú að í Kína er ætlast til þess að synir sjái foreldrum sínum farborða þegar þau eru orðin öldruð. Drengir eru því eftirsóttari en stúlkur og ekki er óalgent að konur beri út stúlkubörn eða fari í fóstureyðingu ef þær ganga með stúlkur. Afleiðingin er sú að kynjahlutfallið er orðið skekkt og 116 karlar eru á móti 100 konum í Kína.
Kynjahlutfallið breytist með aldrinum og þannig eru konur yfirleitt hlutfallslega fleiri eftir 65 ára aldur vegna þess að konur lifa lengur en karlar eða 100 konur á móti 81 karli.
Svör um svipað efni
- Er það rétt að mun fleiri karlar en konur hafi fæðst eftir síðari heimsstyrjöld þangað til jafnvægi var náð milli kynjanna?
- Hvort eru fleiri konur eða karlar á Íslandi?
- Hvað hafa margir fæðst í heiminum frá upphafi?
Sameinuðu þjóðirnar
CIA World Fact Book
Our stolen future
The Guardian
Myndina tók ljósmyndarinn Dan Heller