Framleiðsla á krókódílakjöti er hliðargrein í framleiðslu á krókódílaskinni og þess vegna ákvarðast aldur krókódíls til slátrunar á því hvenær hægt sé að gera úr honum góða tösku. Algengt er að krókódílum sé slátrað þegar þeir hafa náð tveggja og hálfs árs aldri. Þá eru þeir um einn og hálfur metri á lengd og kviður þeirra um 35 sentimetrar. Það þykir ákjósanleg stærð til að gera góða tösku úr krókódílaskinni. Fínt krókódílaskinn selst á um 275 dali en sé það sútað er hægt að fá um 600 dali fyrir það.
Á krókódílabúgarðinum Hartley’s Creek í Ástralíu ná sex ára kvenkyns krókódílar 2,2 metra lengd. Villtir kvenkyns krókódílar eru helmingi lengur að ná sömu stærð. Sex ára ræktaðir karlkrókódílar eru um 2,7 metrar en villtir krókódílar eru um 3,3 metrar þegar þeir hafa náð 16 ára aldri.

Þeir sem komast yfir krókódílakjöt geta haft hliðsjón af þessari skýringarmynd til að átta sig á hvar meyrasta kjötið er. Halinn og kjötið undir kjálkanum er meyrast. Búkurinn er ágætlega meyr en kjótið við lappir skepnunnar hentar eingöngu í pottrétti eða mauksoðnar kássur. Krókódílakjöt hefur hærra prótíninnihald en svína- og kjúklingakjöt og er einnig fitusnauðara.
Skoðið einnig svör við spurningunum
- Hver er munurinn á alligators og crocodiles? eftir Jón Má Halldórsson
- Ef krókódílar voru uppi á sama tíma og risaeðlur af hverju dóu þeir þá ekki út? eftir Leif A. Símonarson