Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Hvað er japl, jaml og fuður?

Orðin japl og jaml hafa nokkurn veginn sömu merkingu. Þau eru notuð um nöldur, tuð eða eitthvað í þá veru. Fuður merkir hins vegar ‘ráðleysisfum’. Ástæða þess að þau eru oft nefnd saman er að í þekktu kvæði um umrenninginn Jón hrak eftir Stephan G. Stephansson er þetta erindi:
Þá kvað einn: ,,Vér úrráð höfum:

Út og suður karlinn gröfum.

Ei þarf lubbinn óvandaður

Eins að liggja og dánumaður.

Eftir japl og jaml og fuður

Jón var grafinn út og suður.
Orðið japl er leitt af sögninni að japla sem merkir ‘margtyggja eitthvað, jórtra á einhverju’ en einnig ‘nauða, tuða, stagast á einhverju’ og þekkist í málinu frá 17. öld. Hún er skyld nýnorsku sögninni japla sem merkir að ‘stama’.


Kýr eru jórturdýr og japla þess vegna á fæðunni.

Jaml er leitt af sögninni að jamla sem er yngri og Orðabók Háskólans á elst dæmi um frá 18. öld. Hugsanlega hefur hún borist til landsins frá Noregi en í nýnorsku merkir jamla að ‘mjálma’ og jaml er notað í merkingunni ‘þvaður, tuð’. Fuður er leitt af sögninni fuðra ‘blossa, brenna skyndilega’, samanber að eitthvað fuðrar upp. Hún er til í málinu frá því á 17. öld og skyld orð eru til í sænskum mállýskum futta og dönsku futte ‘blossa upp’.

Mynd:

Útgáfudagur

7.11.2008

Spyrjandi

Eiríkur Rafnsson

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Hvað er japl, jaml og fuður?“ Vísindavefurinn, 7. nóvember 2008. Sótt 20. mars 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=26081.

Guðrún Kvaran. (2008, 7. nóvember). Hvað er japl, jaml og fuður? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=26081

Guðrún Kvaran. „Hvað er japl, jaml og fuður?“ Vísindavefurinn. 7. nóv. 2008. Vefsíða. 20. mar. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=26081>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Jón Snædal

1950

Jón Snædal hefur unnið mestan sinn starfsaldur á öldrunarlækningadeild Landspítalans. Meginviðfangsefni hans hafa verið Alzheimers-sjúkdómur og aðrir sjúkdómar sem valda heilabilun.