Íslenska orðið biskup er líklegast fengið úr fornensku. Þar kemur fyrir orðið biscop eða bisceop í sömu merkingu. Það kemur líka fyrir í latínu (episcopus) en upphaflega er það komið úr forngrísku, episkopoV (epískopos). Það orð er dregið af grísku sögninni episkopew (episkopéo) sem þýðir: 'horfa á', 'skoða', 'fylgjast með' eða 'líta eftir'. Hún er aftur á móti samsett úr sögninni skopew (skopéo) sem merkir: 'sjá', 'virða fyrir sér', 'athuga' eða líta eftir, og forsetningunni epi- (epi) sem í samsetningum þýðir: 'upp(i) á', 'yfir', 'til', 'gagnvart' eða 'eftir'.
Upphaflega merkti biskup þess vegna 'eftirlitsmaður' eða 'tilsjónarmaður'. Í frumkristni var það notað um nokkurs konar yfirmann í söfnuðinum sem hafði sérstakt vald um helgisiði, skírnir, altarissakramenti, vígslur, fyrirgefningu synda, fjármál og málamiðlanir í deilum. Uppruni embættisins er óviss, en á annarri öld hafði það fest sig í sessi, ásamt embættum presta og djákna. Eftir því sem kirkjunni óx fiskur um hrygg þurfti meira skipulag svo til varð stigveldi þar sem prestar voru í forustu safnaða, höfðu djákna sér til aðstoðar og voru undir eftirliti biskupa sem höfðu marga söfnuði í sinni umsjá. Upp af þessu varð svo til enn flóknara skipulag þegar leið á miðaldirnar.
Nokkrar kirkjudeildir, sérlega rómversk-kaþólska kirkjan og gríska rétttrúnaðarkirkjan, telja að biskupar séu eftirmenn postulanna og hafi vald sitt í krafti þess. Við siðaskiptin höfnuðu margir þessari hugmynd enda hafa flestar mótmælendakirkjur enga biskupa. Lúthersku kirkjurnar á Norðurlöndum og í Þýskalandi hafa þó haldið í biskupsembættið en fæstar þeirra telja biskupana arftaka postulanna.
Heimildir
- Greinarnar: bishop og episcopacy af vef Encyclopædia Britannica
- Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Reykjavík, Orðabók Háskóla Íslands, 1995.
- Goodwin, William W. Greek Grammar, Bristol Classical Press, London, 1997,
Mynd af biskupi Íslands: Íslenski söfnuðurinn í Kaupmannahöfn Mynd af skákbiskupum: HB