Aðmírálsfiðrildi eru nokkrar tegundir innan ættarinnar nymphalidae (Lepidoptera). Þetta eru hraðfleyg skordýr og mjög í uppáhaldi hjá söfnurum vegna þess hversu litskrúðug þau eru. Að öllum líkindum er rauði aðmírállinn (Vanessa atalanta) kunnast af þessum fiðrildum vegna þess hversu mikla útbreiðslu það hefur. Það finnst meðal annars um nánast alla Evrópu, Norður-Ameríku og norðanverða Afríku.
Rauði aðmírállinn er farskordýr, þegar kólna tekur á haustin fer fiðrildið suður á bóginn líkt og farfuglar gera á tempruðu svæðunum norðan miðbaugs.
Lirfa rauða aðmírálsins gerir sér púpu með því að líma saman lauf af netlum með silkiþráðum. Lirfan spinnur silkiþræðina með þar til gerðum spunavörtum. Aðrar tegundir aðmírálsfiðrilda nota sömu aðferð við gerð púpa en sækjast í aðrar tegundir af jurtum til að púpa sig á.
Þess má geta að rauði aðmírállinn flækist oft hingað til lands í sunnanvindum á sumrin.
Skoðið einnig svör Gísla Más Gíslasonar við eftirfarandi spurningum
- Geta aðmírálsfiðrildin sem berast hingað með heitum vindi lifað af sumarið á íslenskum blómum eða eru þau of auðveld bráð?
- Hafa fiðrildi vængi?