Það er mikill munur á tungli og stjörnu. Stjörnur eru sólir sem framleiða eigið ljós og hita líkt og sólin okkar gerir. Sólstjarna myndar orku sína við ákveðið ferli sem nefnist kjarnasamruni, en þá ummyndast vetni í kjarna stjörnunnar í helíum. Stjarna getur mest haft 120 sinnum meiri massa en sólin okkar, ef hún væri massameiri myndi hún springa vegna eigin geislunar. Minnsti massi sólstjörnu er 8% af massa sólarinnar en fyrir neðan þetta mark geta stjörnur aldrei orðið nægilega heitar til að koma af stað kjarnasamruna. Þess háttar fyrirbæri nefnast brúnn dvergur. Flestar stjörnurnar sem við sjáum á himninum eru stærri en sólin okkar og í næsta nágrenni við okkur.
Tungl er lítill hnöttur sem gengur umhverfis stærri hnött sem sjálfur er á sporbaug umhverfis sólstjörnu. Fylgihnettir sólar framleiða ekki sitt eigið ljós, heldur endurvarpa því sólarljósi sem á þá fellur. Allar reikistjörnur sólkerfisins hafa tungl umhverfis sig, að Merkúríusi og Venusi undanskilinni.
Skoðið einnig skyld svör:- Hvernig eru reikistjörnur og plánetur skilgreindar? eftir Sævar Helga Bragason og Þorstein Vilhjálmsson.
- Hvað getur maður séð margar stjörnur á heiðskýrri nóttu? eftir Sævar Helga Bragason.
- Hvað eru mörg tungl í sólkerfinu? eftir Sævar Helga Bragason.
- Ridpath, Ian. A Dictionary of Astronomy. London, Oxford University Press, 1999.
- Þorsteinn Sæmundsson. Stjörnufræði – Rímfræði. Reykjavík, Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins, 1972.
Myndir: Astronomival Society of South Australia