Fótbolti er vinsælasta íþrótt í heimi. Samkvæmt tölum frá FIFA (frá árinu 2000) leika rúmlega 240 milljónir manna um heim allan fótbolta. Það þýðir að einn af hverjum 25 iðka knattspyrnu reglulega. Í dómarastétt knattspyrnunnar eru um 5 milljónir manna.
Knattspyrna er leikin í öllum heimshornum. Ef börn og aðrir sem ekki æfa fótbolta að staðaldri eru ekki talin með eru flestir knattspyrnumenn í Bandaríkjunum, eða alls 18 milljónir. Í Indónesíu eru þeir 10 milljónir, í Mexíkó 7,4 milljónir, í Kína 7,2 milljónir, í Brasilíu 7 milljónir og í Þýskalandi 6,3 milljónir. Um 300.000 fótboltafélög eru starfrækt í heiminum og alls eru til um 1,5 milljón lið.
Um áhorfendatölur er það að segja að á sumum leikvöngum komast rúmlega 100.000 áhorfendur og í sjónvarpi fylgjast milljónir manna með knattspyrnuleikjum. Áætlað er að um einn milljarður manna hafi horft á sjónvarpsútsendingu frá úrslitaleik heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sumarið 1998, en það er um fjórðungur af öllum þeim sem hafa tök á að horfa á sjónvarp.
Skoðið einnig svör við eftirfarandi spurningum
- Hver fann upp fótboltann? eftir Unnar Árnason
- Hvernig er styrkleikalisti FIFA reiknaður út? eftir JGÞ
Myndir: 2002 FIFA World Cup