Tannáta er það sama og tannskemmd. Tennur skemmast vegna þess að bakteríur í munni gerja sykurinn í matvælum sem við neytum og mynda sýru sem brýtur tönnina niður. Sykurlausir drykkir eru því betri fyrir tennurnar með tilliti til tannskemmda.
Hins vegar er annar tannsjúkdómur sem er að ryðja sér til rúms og nefnist hann glerungseyðing, einnig nefndur sýrueyðing. Þessi tannsjúkdómur er óskyldur tannskemmdum og verður eingöngu til af sýru, en sýran leysir glerunginn upp og slípar tönnina niður.
Glerungseyðing er óafturkræfur sjúkdómur og helstu einkenni hans er mikil næmni fyrir hita og kulda og síðar sársauki. Sykurlausir gosdrykkir innihalda sýru eins og sykruðu drykkirnir og eru því jafn slæmir fyrir tennurnar.
Í stuttu máli þá eru sykurlausir drykkir skárri með tilliti til tannskemmda (tannátu), en jafn slæmir og sykruðu drykkirnir með tilliti til glerungseyðingar (sýrueyðingar).
Skoðið einnig önnur svör á Vísindavefnum:- Hvað þarf maður að borða mikið sælgæti, án þess að bursta tennurnar, til að tennurnar detti úr manni? eftir Peter Holbrook
- Er mjólkurneysla tannskemmandi? eftir Sigfús Þór Elíasson
- Er appelsínusafi óhollari en gos? eftir Ólöfu Guðnýju Geirsdóttur
- Fer sýra, t.d. úr sítrónu, illa með tennur? eftir Þorbjörgu Jensdóttur og Peter Holbrook
Mynd: HB