Spurningin í heild sinni hljóðaði svona: Orðin að bregða einhverjum eru sjaldan notuð í þátíð. Hvað segir maður þegar maður er nýbúinn að bregða einhverjum? Ég bregðaði þér?Sögnin að bregða telst til sterkra sagna sem mynda þátíð með hljóðskiptum (bregða-brá-brugðum-brugðið). Hún beygist svona í nútíð og þátíð:
| Nútíð | Þátíð | |
| 1.p.et. | bregð | brá |
| 2.p.et. | bregður | brást |
| 3.p.et. | bregður | brá |
| 1.p.ft. | bregðum | brugðum |
| 2.p.ft. | bregðið | brugðuð |
| 3.p.ft. | bregða | brugðu |
Sambandið að bregða einhverjum er vel þekkt, meðal annars í glímu, um að gera tilraun til að fella einhvern. Sambandið að láta einhverjum bregða merkir að 'láta einhvern hrökkva við', til dæmis ,,lét ég þér bregða?" Þessum samböndum slær oft saman, einkum í máli barna, þannig að sagt er t.d. ,,ég ætlaði ekki að bregða þér," það er 'láta þig hrökkva við' eða ,,brá ég þér?" 'lét ég þig hrökkva við'. Ein ástæða þess að þátíð er sjaldan notuð í annarri persónu eintölu er að sambandið þú brást mér merkir yfirleitt 'þú hefur svikið mig' og sambandið þú brást mér það er 'lést mér bregða' gæti valdið misskilningi. Réttara er að segja: ,,þú lést mér bregða", ,,hann lét mér bregða", ,,þeir létu mér bregða", ,,lét ég þér bregða?" og svo framvegis.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:- Hvernig er hægt að fá hland fyrir hjartað? eftir Guðrúnu Kvaran
- Hvernig beygist sögnin að skína? Ég skín, hún skín en þú...? Og af hverju? eftir Guðrúnu Kvaran
- Hver er skilgreiningin á því "að vera"? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur
- Spiele der welt. Sótt 22.8.2002.
