Áhrif keltnesku á íslensku í upphafi Íslands byggðar eru einkum á sviði tökuorða, mannanafna og örnefna. Merkasta rannsóknin á þessu sviði er verk Helga Guðmundssonar, Um haf innan, sem kom út hjá Háskólaútgáfunni 1997. Undirtitill bókarinnar er Vestrænir menn og íslenzk menning á miðöldum. Á blaðsíðum 127-160 er rætt um gelísk tökuorð í norrænum málum og má þar finna ýmis orð sem enn eru lifandi í málinu, önnur hafa aftur á móti gleymst. Nefna má til dæmis brekán 'ábreiða', des, heydes 'heystakkur', gjalti í orðasambandinu verða að gjalti, sem í nútímamáli merkir 'fara hjá sér, fuglsheitið jaðrakan, kapall 'hestur', kláfur 'hrip, heymeis', fjalaköttur 'músagildra'.
Nokkur keltnesk mannanöfn hafa lifað í íslenskum nafnaforða frá landnámsöld, önnur hafa verið endurvakin og sótt til Íslendingasagna. Meðal nafna, sem lifað hafa fram á þennan dag eru Kjartan, Kormákur og Njáll en meðal endurvakinna nafna eru Brjánn, Kalman, Trostan, Eðna, Kaðlín og Melkorka. Eitt þekktasta örnefni af keltneskum toga er fjallsheitið Dímon en það er nafn á hólum og hæðum á nokkrum stöðum á landinu. Það er bæði notað í karlkyni og kvenkyni. Oftast eru hólarnir tveir og þá nefndir Stóri/Stóra, Litli/Litla Dímon. Nafnið hefur oft verið skýrt á þann veg að það sé sett saman úr dí- 'tveir' og muin 'bak, háls', það er tvítyppta fjallið.
Kort: BabyWatch
