Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Er til hálf hola? (svar 1)

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Ef svara á því hvort hálf hola sé til er kannski réttast að velta því fyrst fyrir sér hvort holur séu yfirleitt til og hvað þær eru þá. Eru holur, göt, dældir, göng, holrúm og annað slíkt efnislegir hlutir? Holur eiga það sameiginlegt með efnislegum hlutum að hafa rúmtak; þær hafa bæði stærð og lögun. Hins vegar geta þær tæpast talist "efnislegar" þar sem ekkert er í þeim efnið. Sumir halda kannski að í þeim sé loft, en svo er ekki ef betur er að gáð; við tölum um holur þó að í þeim sé lofttæmi eða jafnvel annað efni, til dæmis vatn: Holur eru einmitt þar sem ekkert efni er, að minnsta kosti ekkert sem skiptir máli í samhenginu.

Af þessum sökum vilja sumir meina að holur og göt séu ekki til og að strangt til tekið ættum við bara að tala um holótta og götótta hluti í staðinn fyrir holur og göt. Götóttur dúkur er þá til en gatið á dúknum sem við tölum stundum um er hvorki eitt né neitt. Ef við aðhyllumst þessa skoðun er hálf hola væntanlega ekki til frekar en heil hola. Fólk getur svo kannski reynt að fá afslátt í Hvalfjarðargöngunum á þeim forsendum að göngin séu ekki til.

Aðrir telja að holur séu til þrátt fyrir að þær séu ýmsum óvenjulegum eiginleikum gæddar. Þær séu til dæmis gerðar úr rúmi (þar sem þær hafa rúmtak) án þess að vera gerðar úr neinum ákveðnum hluta af rúminu. Hola í holóttum osti í kassa í flutningabíl á ferð hefur ákveðna stærð og lögun en er í sífellu á nýjum og nýjum stað í rúminu. Holur hafa líka þá sérstöðu að vera háðar öðrum hlutum um tilvist sína. Hola í oststykki getur ekki verið til nema oststykkið sé til og hún sé í því. Þegar osturinn hefur verið etinn upp til agna er holan ekki lengur til. Svo má kannski velta því fyrir sér hvort holan hafi þá verið etin með ostinum. Gárungarnir segja raunar að holurnar séu einmitt það besta í ostinum.

Ef við gerum ráð fyrir að holur séu til hafa hálfar holur væntanlega sömu stöðu og hálfar hrúgur, hálfir slattar og hálfar agnir. Ef fyllt er upp í helminginn af holu þannig að hún verði helmingi minni en áður er yfirleitt ekki sagt að við séum með hálfa holu. Hið sama gildir um hrúgur; þótt hrúga sé minnkuð um helming er hún samt hrúga en ekki hálf hrúga. Að auki getur samsemd holna, hrúga og fleiri slíkra fyrirbæra valdið okkur ýmiss konar heilabrotum. Ef tvær holur hlið við hlið eru sameinaðar (hugsum okkur að veggurinn milli þeirra sé brotinn niður) verða þær víst ein og sama holan. En er þessi stóra nýja hola sama holan og önnur af minni holunum eða eru minni holurnar hættar að vera til og glæný hola komin í staðinn?

Merking hugtaka á borð við "hálf hola" og "hálf hrúga" er mjög óljós. Þetta stafar væntanlega af því að holur og hrúgur hafa hvorki staðlaða stærð né lögun. Til þess að geta talað um "hálfan" af einhverju þurfum við að minnsta kosti sæmilega skýra hugmynd um það hvað "heill" af því sama mundi vera. Þannig á hálfur vel við um hinar ýmsu mælieiningar, svo sem metra og lítra. Um leið og við erum komin út fyrir svið mælieininga verður það samhengisbundið hvort og hvenær hálfur á við. Við getum hugsað okkur tvö tré sem standa hlið við hlið, annað er 2 metrar á hæð en hitt er aðeins metri á hæð. Samt sem áður er minna tréð ekki bara hálft tré heldur er það alveg jafn heilt og hið stærra. En hvað gerist ef tré er sagað í sundur? Þá má ef til vill tala um hálft tré enda er það þá yfirleitt öðruvísi í laginu en heilt tré. Þetta gildir um ótal aðra hluti. Barn sem er helmingi minna en fullorðin manneskja er til dæmis ekki hálf manneskja og almennt lítum við ekki svo á að til séu hálfar manneskjur í bókstaflegri merkingu. Hins vegar er hægt að tala um hálfa mannslíkama og í sumum tilvikum getur orðið "manneskja" kannski merkt mannslíkami.

Þrátt fyrir að yfirleitt sé ekki talað um hálfar holur má hugsa sér tilvik þar sem slíkt tal ætti við. Væntanlega hafa til dæmis holur á golfvöllum staðlaða stærð og lögun og þá gæti hola sem er helmingi minni en slík hola kallast "hálf golfhola." En þá erum við farin að líta á golfholur sem mælieiningu eða staðal um lögun þannig að hálf golfhola væri þá í laginu eins og hálft tungl. Höfundur þakkar nafnlausum ritrýnanda Vísindavefsins þessa ábendingu.

Í stuttu máli má því segja að ef við skilgreinum holu á einhvern hátt sem mælieiningu eða staðal geti vissulega verið til hálfar holur en þegar talað er um holur sem hluti af ákveðinni gerð séu ekki til hálfar holur.

Þeim sem vilja lesa sér meira til um holur og göt er bent á þessa bók:

Roberto Casati & Achille C. Varzi (1994), Holes and Other Superficialities, Cambridge (Mass.)/London: MIT Press.

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

3.9.2002

Spyrjandi

Gísli Freyr Svavarsson

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er til hálf hola? (svar 1).“ Vísindavefurinn, 3. september 2002. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2681.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2002, 3. september). Er til hálf hola? (svar 1). Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2681

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er til hálf hola? (svar 1).“ Vísindavefurinn. 3. sep. 2002. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2681>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er til hálf hola? (svar 1)
Ef svara á því hvort hálf hola sé til er kannski réttast að velta því fyrst fyrir sér hvort holur séu yfirleitt til og hvað þær eru þá. Eru holur, göt, dældir, göng, holrúm og annað slíkt efnislegir hlutir? Holur eiga það sameiginlegt með efnislegum hlutum að hafa rúmtak; þær hafa bæði stærð og lögun. Hins vegar geta þær tæpast talist "efnislegar" þar sem ekkert er í þeim efnið. Sumir halda kannski að í þeim sé loft, en svo er ekki ef betur er að gáð; við tölum um holur þó að í þeim sé lofttæmi eða jafnvel annað efni, til dæmis vatn: Holur eru einmitt þar sem ekkert efni er, að minnsta kosti ekkert sem skiptir máli í samhenginu.

Af þessum sökum vilja sumir meina að holur og göt séu ekki til og að strangt til tekið ættum við bara að tala um holótta og götótta hluti í staðinn fyrir holur og göt. Götóttur dúkur er þá til en gatið á dúknum sem við tölum stundum um er hvorki eitt né neitt. Ef við aðhyllumst þessa skoðun er hálf hola væntanlega ekki til frekar en heil hola. Fólk getur svo kannski reynt að fá afslátt í Hvalfjarðargöngunum á þeim forsendum að göngin séu ekki til.

Aðrir telja að holur séu til þrátt fyrir að þær séu ýmsum óvenjulegum eiginleikum gæddar. Þær séu til dæmis gerðar úr rúmi (þar sem þær hafa rúmtak) án þess að vera gerðar úr neinum ákveðnum hluta af rúminu. Hola í holóttum osti í kassa í flutningabíl á ferð hefur ákveðna stærð og lögun en er í sífellu á nýjum og nýjum stað í rúminu. Holur hafa líka þá sérstöðu að vera háðar öðrum hlutum um tilvist sína. Hola í oststykki getur ekki verið til nema oststykkið sé til og hún sé í því. Þegar osturinn hefur verið etinn upp til agna er holan ekki lengur til. Svo má kannski velta því fyrir sér hvort holan hafi þá verið etin með ostinum. Gárungarnir segja raunar að holurnar séu einmitt það besta í ostinum.

Ef við gerum ráð fyrir að holur séu til hafa hálfar holur væntanlega sömu stöðu og hálfar hrúgur, hálfir slattar og hálfar agnir. Ef fyllt er upp í helminginn af holu þannig að hún verði helmingi minni en áður er yfirleitt ekki sagt að við séum með hálfa holu. Hið sama gildir um hrúgur; þótt hrúga sé minnkuð um helming er hún samt hrúga en ekki hálf hrúga. Að auki getur samsemd holna, hrúga og fleiri slíkra fyrirbæra valdið okkur ýmiss konar heilabrotum. Ef tvær holur hlið við hlið eru sameinaðar (hugsum okkur að veggurinn milli þeirra sé brotinn niður) verða þær víst ein og sama holan. En er þessi stóra nýja hola sama holan og önnur af minni holunum eða eru minni holurnar hættar að vera til og glæný hola komin í staðinn?

Merking hugtaka á borð við "hálf hola" og "hálf hrúga" er mjög óljós. Þetta stafar væntanlega af því að holur og hrúgur hafa hvorki staðlaða stærð né lögun. Til þess að geta talað um "hálfan" af einhverju þurfum við að minnsta kosti sæmilega skýra hugmynd um það hvað "heill" af því sama mundi vera. Þannig á hálfur vel við um hinar ýmsu mælieiningar, svo sem metra og lítra. Um leið og við erum komin út fyrir svið mælieininga verður það samhengisbundið hvort og hvenær hálfur á við. Við getum hugsað okkur tvö tré sem standa hlið við hlið, annað er 2 metrar á hæð en hitt er aðeins metri á hæð. Samt sem áður er minna tréð ekki bara hálft tré heldur er það alveg jafn heilt og hið stærra. En hvað gerist ef tré er sagað í sundur? Þá má ef til vill tala um hálft tré enda er það þá yfirleitt öðruvísi í laginu en heilt tré. Þetta gildir um ótal aðra hluti. Barn sem er helmingi minna en fullorðin manneskja er til dæmis ekki hálf manneskja og almennt lítum við ekki svo á að til séu hálfar manneskjur í bókstaflegri merkingu. Hins vegar er hægt að tala um hálfa mannslíkama og í sumum tilvikum getur orðið "manneskja" kannski merkt mannslíkami.

Þrátt fyrir að yfirleitt sé ekki talað um hálfar holur má hugsa sér tilvik þar sem slíkt tal ætti við. Væntanlega hafa til dæmis holur á golfvöllum staðlaða stærð og lögun og þá gæti hola sem er helmingi minni en slík hola kallast "hálf golfhola." En þá erum við farin að líta á golfholur sem mælieiningu eða staðal um lögun þannig að hálf golfhola væri þá í laginu eins og hálft tungl. Höfundur þakkar nafnlausum ritrýnanda Vísindavefsins þessa ábendingu.

Í stuttu máli má því segja að ef við skilgreinum holu á einhvern hátt sem mælieiningu eða staðal geti vissulega verið til hálfar holur en þegar talað er um holur sem hluti af ákveðinni gerð séu ekki til hálfar holur.

Þeim sem vilja lesa sér meira til um holur og göt er bent á þessa bók:

Roberto Casati & Achille C. Varzi (1994), Holes and Other Superficialities, Cambridge (Mass.)/London: MIT Press.

...