Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Samkvæmt Heimsmetabók Guinness er núverandi heimsmet í köfun 133 metrar. Metið settu bandarísku kafararnir John J. Gruener og R. Neal Watson við Bahamaeyjar 14. október 1968. Kafarinn Bret Gilliam segist hafa kafað fjórum metrum dýpra árið 1990 við strönd Hondúras og Daniel J. Manion fullyrðir að hann hafi komist niður á 155 metra dýpi við Bahamaeyjar árið 1994. Met þessi eru óstaðfest, enda voru engin vitni að þeim.
Vanir kafarar vara við köfun á miklu dýpi. Leikmönnum er ráðlagt að fara ekki niður fyrir 40 metra. Ef farið er dýpra getur aukinn vatnsþrýstingur haft slæm áhrif á líkama kafarans. Við yfirborð sjávar er loftþrýstingur 1,03 kg á hvern cm 2 en á tíu metra dýpi er hann helmingi hærri.
Loftkútur kafara inniheldur um 78% köfnunarefni og 21% súrefni. Vatnsþrýstingur stjórnar því hversu mikið af þessum efnum fer út í blóð kafarans. Þeim mun dýpra sem farið er þeim mun meira fer af köfnunarefni og súrefni út í blóðið. Ef óreyndur kafari fer niður fyrir 40 metra dýpi getur hann dáið af völdum súrefniseitrunar eða kafaraveiki. Of mikið súrefni í blóðinu getur leitt til krampafloga og þá er hætta á því að kafarinn drukkni. Of mikið af köfnunarefni getur brenglað taugakerfi kafarans og gert hann ringlaðan og syfjaðan.
Ef kafarar fara of hratt upp á yfirborðið er hætta á því að þeir fái svonefnda kafaraveiki. Loftbólur myndast þá í blóði kafarans og þær geta orsakað hjartaáfall, blóðtappa eða verk í liðamótum.
Fyrir daga loftkúta voru ýmis ráð reynd til köfunar. Talið er að lista- og vísindamaðurinn Leonardó da Vinci (1452-1519) hafi hannað kafarahjálm úr leðri með hvössum oddum til varnar sæskrímslum. Enski vísindamaðurinn Edmund Halley smíðaði árið 1716 svonefnda köfunarbjöllu sem gerði mönnum kleift að vera neðansjávar í um klukkustund. Rúmlega hundrað árum síðar, eða 1837, var fyrsti alvöru vatnsheldi gúmmíbúningurinn með kafarahjálmi hannaður. Sá búningur var tengdur loftdælu á yfirborðinu.
Saga nútíma köfunar hefst árið 1943 þegar franski kafarinn og sjávarfræðingurinn Jacques-Yves Cousteau og landi hans verkfræðingurinn Émile Gagnan hönnuðu fyrsta loftkútinn sem stýrðist af andardrætti kafarans. Þeir nefndu tækið vatnslunga og það varð fljótlega mjög vinsælt vegna þess hversu ódýrt það var og auðvelt í notkun. Áður höfðu verið til loftkútar, en þeim var stýrt með öðrum og óhentugri hætti, meðal annars með því að ýta á takka.
Ein helsta þörfin fyrir að kafa djúpt er til að fylgjast með og lagfæra olíuborpalla á rúmsjó. Í seinni tíð hafa verið þróaðir kafarabúningar sem gera köfurum kleift að fara hratt upp af miklu dýpi. Árið 1974 hönnuðu Bandaríkjamenn búning sem gerir mönnum kleift að fara hratt upp á yfirborðið af um 600 metra dýpi.
Á miklu dýpi er notað helíum í stað köfnunarefnis í loftkúta. Þegar reynt er að hafa samband við kafara sem starfa við viðgerðir á miklu dýpi er þess vegna engu líkara en í undirdjúpunum starfi teiknimyndapersónur sem tala í falsettu en ekki reyndir kafarar.
Ulrika Andersson. „Hvað er hægt að kafa djúpt með venjulegum loftkúti?“ Vísindavefurinn, 3. september 2002, sótt 10. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2683.
Ulrika Andersson. (2002, 3. september). Hvað er hægt að kafa djúpt með venjulegum loftkúti? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2683
Ulrika Andersson. „Hvað er hægt að kafa djúpt með venjulegum loftkúti?“ Vísindavefurinn. 3. sep. 2002. Vefsíða. 10. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2683>.