Sólin Sólin Rís 09:22 • sest 17:00 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:51 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:25 • Síðdegis: 13:54 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:22 • sest 17:00 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:51 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:25 • Síðdegis: 13:54 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er trúaður maður sem brýtur af sér hræsnari?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Helsta einkenni hræsnara er uppgerð eða blekking. Hræsnari þykist vera eitthvað annað en hann er eða þykist hafa skoðun eða trú sem hann hefur ekki í raun. Þetta gerir hann í því skyni að líta betur út í augum annarra. Hræsnari er sem sagt sá sem þykist betri en hann er.

Ef maður fordæmir aðra fyrir hegðun sem hann sjálfur er sekur um og afneitar því jafnframt telst hann hræsnari þar sem hann reynir að sýnast betri en hann í raun er. Vissulega getur trúaður maður gerst sekur um slíkt en ekki verður séð að trúin sé það sem gerir brotamanninn að hræsnara. Maður sem hefur stolið gæti til dæmis boðað trú sem fæli í sér fordæmingu á þjófum en það veltur svo á því hvort hann viðurkennir að hann sé sjálfur einn af þjófunum hvort hann telst hræsnari eða ekki.

Trú virðist hvorki nauðsynleg né nægjanleg forsenda fyrir hræsni. Það er til dæmis hægur leikur að fordæma aðra án þess að trúa (eða þykjast trúa) á æðri máttarvöld. Trúleysingi sem fullyrðir að þeir sem stela séu upp til hópa úrhrök og óþjóðalýður, óalandi og óferjandi, og er um leið að fela það að hann sé þjófur sjálfur, hlýtur að teljast hræsnari. Í tilviki sem þessu skiptir í raun engu máli hvort viðkomandi trúir á einhvern guð eða ekki, hræsnin er nákvæmlega sú sama. En ef einhver segir "það er ljótt að stela og ég er því miður sekur um slíkt brot" er ekki um hræsni að ræða og aftur skiptir ekki máli hvort viðkomandi er trúaður.

Hræsni getur einnig lýst sér í trúariðkun, það er að fólk getur iðkað trú til að ganga í augun á öðrum án þess að það hafi hana í raun. Í slíkum tilvikum snýst hræsnin ekki um brotlega hegðun heldur um það að gera sér upp skoðanir. Hugur fylgir þar ekki máli. Að baki hræsni af þessu tagi hlýtur að búa sú hugmynd að þeir sem eru trúaðir séu einhverra hluta vegna taldir betri manneskjur eða virðingarverðari en trúleysingjarnir. Hræsnarar af þessari gerð álíta að fólk telji þá betri ef þeir eru trúræknir og þykjast þannig "betri" með því að þykjast trúaðri en þeir eru í raun. Þetta er líka kallað skinhelgi.

Ef til vill getur einhvers konar hræsni líka falist í þeirri skoðun sumra sem trúaðir eru að þeir séu, eingöngu vegna trúar sinnar, betri manneskjur í raun en þeir sem hafa aðra trú eða enga. Öfugt við skinhelgina mætti svo alveg hugsa sér hræsni í hina áttina í þjóðfélagi þar sem þætti ófínt að trúa. Þá mundu sumir sem í raun væru trúaðir þykjast trúlausir til að sýnast "betri" eða "fínni."

Svo er líka til sú gerð hræsni sem við köllum gjarnan smjaður. Smjaður snýst um að gera sér upp skoðanir í þeim tilgangi að þóknast einhverjum í von um eigin ávinning. Þetta getur meðal annars falist í að samsinna skoðunum viðkomandi gegn eigin sannfæringu eða að hrósa honum fyrir eitthvað sem manni þykir í raun lítið til koma. Smjaður getur í sumum tilfellum snúist um trú, það er ef smjaðrarinn þykist trúaður í þeim tilgangi að þóknast hinum, en getur einnig falið í sér uppgerðar skoðanir um hvaðeina.

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

5.9.2002

Spyrjandi

Haukur Brynjar

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er trúaður maður sem brýtur af sér hræsnari?“ Vísindavefurinn, 5. september 2002, sótt 4. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2690.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2002, 5. september). Er trúaður maður sem brýtur af sér hræsnari? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2690

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er trúaður maður sem brýtur af sér hræsnari?“ Vísindavefurinn. 5. sep. 2002. Vefsíða. 4. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2690>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er trúaður maður sem brýtur af sér hræsnari?
Helsta einkenni hræsnara er uppgerð eða blekking. Hræsnari þykist vera eitthvað annað en hann er eða þykist hafa skoðun eða trú sem hann hefur ekki í raun. Þetta gerir hann í því skyni að líta betur út í augum annarra. Hræsnari er sem sagt sá sem þykist betri en hann er.

Ef maður fordæmir aðra fyrir hegðun sem hann sjálfur er sekur um og afneitar því jafnframt telst hann hræsnari þar sem hann reynir að sýnast betri en hann í raun er. Vissulega getur trúaður maður gerst sekur um slíkt en ekki verður séð að trúin sé það sem gerir brotamanninn að hræsnara. Maður sem hefur stolið gæti til dæmis boðað trú sem fæli í sér fordæmingu á þjófum en það veltur svo á því hvort hann viðurkennir að hann sé sjálfur einn af þjófunum hvort hann telst hræsnari eða ekki.

Trú virðist hvorki nauðsynleg né nægjanleg forsenda fyrir hræsni. Það er til dæmis hægur leikur að fordæma aðra án þess að trúa (eða þykjast trúa) á æðri máttarvöld. Trúleysingi sem fullyrðir að þeir sem stela séu upp til hópa úrhrök og óþjóðalýður, óalandi og óferjandi, og er um leið að fela það að hann sé þjófur sjálfur, hlýtur að teljast hræsnari. Í tilviki sem þessu skiptir í raun engu máli hvort viðkomandi trúir á einhvern guð eða ekki, hræsnin er nákvæmlega sú sama. En ef einhver segir "það er ljótt að stela og ég er því miður sekur um slíkt brot" er ekki um hræsni að ræða og aftur skiptir ekki máli hvort viðkomandi er trúaður.

Hræsni getur einnig lýst sér í trúariðkun, það er að fólk getur iðkað trú til að ganga í augun á öðrum án þess að það hafi hana í raun. Í slíkum tilvikum snýst hræsnin ekki um brotlega hegðun heldur um það að gera sér upp skoðanir. Hugur fylgir þar ekki máli. Að baki hræsni af þessu tagi hlýtur að búa sú hugmynd að þeir sem eru trúaðir séu einhverra hluta vegna taldir betri manneskjur eða virðingarverðari en trúleysingjarnir. Hræsnarar af þessari gerð álíta að fólk telji þá betri ef þeir eru trúræknir og þykjast þannig "betri" með því að þykjast trúaðri en þeir eru í raun. Þetta er líka kallað skinhelgi.

Ef til vill getur einhvers konar hræsni líka falist í þeirri skoðun sumra sem trúaðir eru að þeir séu, eingöngu vegna trúar sinnar, betri manneskjur í raun en þeir sem hafa aðra trú eða enga. Öfugt við skinhelgina mætti svo alveg hugsa sér hræsni í hina áttina í þjóðfélagi þar sem þætti ófínt að trúa. Þá mundu sumir sem í raun væru trúaðir þykjast trúlausir til að sýnast "betri" eða "fínni."

Svo er líka til sú gerð hræsni sem við köllum gjarnan smjaður. Smjaður snýst um að gera sér upp skoðanir í þeim tilgangi að þóknast einhverjum í von um eigin ávinning. Þetta getur meðal annars falist í að samsinna skoðunum viðkomandi gegn eigin sannfæringu eða að hrósa honum fyrir eitthvað sem manni þykir í raun lítið til koma. Smjaður getur í sumum tilfellum snúist um trú, það er ef smjaðrarinn þykist trúaður í þeim tilgangi að þóknast hinum, en getur einnig falið í sér uppgerðar skoðanir um hvaðeina.

...