Hlébarði (Panthera pardus) og snjóhlébarðinn, sem oftar er nefndur snæhlébarði (Leo uncia) eru tvær fjarskyldar tegundir af kattarætt (Felidae).
Talsverður útlitsmunur er á þessum tegundum. Hlébarðar eru mun stærri dýr og vega frá 50-100 kg en snæhlébarðar eru einungis um 23-41 kg.
Snæhlébarðar lifa við mjög erfið skilyrði í fjalllendi í austurhluta Asíu, Mið-Asíu og í Himalajafjöllum. Kjörlendi þeirra er í 1.800 til allt að 5.500 metra hæð. Í þessari hæð geta veðurfarsskilyrði verið ákaflega erfið enda hafa snæhlébarðarnir mjög þykkan feld, mun þykkari en hlébarðar og önnur kattardýr. Feldur snæhlébarða er hvítur með svörtu rósettumynstri en feldur hlébarða appelsínugulur með svörtum deplum; það er dæmigerð aðlögun að lifnaðarháttum í skóglendi.

Líffræðingar hafa löngum flokkað snæhlébarðann í ættkvísl stórkattanna (Panthera) vegna ýmissa sameiginlegra líffærafræðilegra einkenna. Vegna sérstöðu hans hafa aðrir sett hann í ættkvíslina uncia og er hann eina tegundin sem flokkuð er í þessa ættkvísl. Myndirnar eru fengnar af vefsetrunum Endangered Wildlife og Animals of the Rainforest.