Rubeus Hagrid var risi í grískri goðafræði og konungur gimsteinanna. Á grísku hét hann Hagrid Rubeus, en Hagrid þýðir risi og Rubeus þýðir gimsteinn. Hann var sagður vænstur guða, en Hades kom á hann sök fyrir dauða eins sona Perseifs. Seifur sá aumur á honum og Hagrid fékk að halda til á Ólympsfjalli sem gæslumaður dýra.Útgáfur af þessari sögu má finna hér og hér auk fjölda annarra vefsetra helguðum Harry Potter og félögum. Eftir þó nokkra eftirgrennslan er niðurstaða undirritaðrar að sagan hljóti að vera uppspuni. Reyndar er í henni sá sannleiksmoli að í grískri goðafræði er talað um risann Agríos (Agrius á ensku og latínu) eða öllu heldur tvo risa sem bera það nafn. Annar var sagður sonur Gaiu, jarðarinnar, og drepinn af örlaganornunum í bardaga milli goða og risa. Hinn var sonur Pólýfontu og bjarnar nokkurs en Hermes refsaði honum og Óríosi bróður hans fyrir að heiðra ekki goðin og stunda mannát með því að breyta þeim í hrægamma. Nokkra mennska Agríosa er að finna í grískum sögnum en sé það rétt að nafn Hagrids eigi sér grískan uppruna hljóta risarnir að teljast líklegastir. Agríos merkir "villtur" og eins og Harry Potter-aðdáendur vita á það prýðilega við persónuna Hagrid. Hugsanlegt er því að Rowling hafi nefnt Hagrid eftir risanum Agríosi eða sé að vísa til merkingarinnar "villtur". Aðrir hlutar sögunnar af vefnum eiga ekki við nokkur rök að styðjast. Í grískri goðafræði er hvergi talað um neitt í líkingu við guð gimsteinanna og almennt voru risar ekki vel séðir á Ólympsfjalli og því ósennilegt að Seifur hafi ráðið risa til að gæta dýra þar. Eftir því sem best verður séð er ekki að finna sögu í grískri goðafræði sem líkist sögunni hér að ofan. Auk þess er Rubeus latína en ekki gríska og orðmyndina 'rub-' er ekki að finna í grísku. Á latínu merkir Rubeus ekki "gimsteinn" heldur "rauðleitur." Það að ósönn saga breiðist út um veraldarvefinn er ekkert einsdæmi. Algengt er að eigendur vefsetra birti það sem þeim finnst hljóma sniðugt án þess að ganga úr skugga um að heimildir séu traustar. Þannig getur ýmiss konar vafasamur "fróðleikur" dreifst um vefinn með undraverðum hraða. Sem dæmi um þetta má nefna þá staðhæfingu að kvak anda bergmáli ekki sem fjallað er um í þessu svari Einars Arnar Þorvaldssonar. Þrátt fyrir að nafnið Hagrid komi ef til vill frá hinum gríska Agríosi koma aðrar skýringar til greina á nafninu. Á ensku hefur hagridden merkinguna "þjakaður af martröðum eða óraunsæjum ótta" og sumir telja að þaðan fái Hagrid nafn sitt. Ekki er ljóst að persónan Hagrid þjáist meira af martröðum eða óraunsæjum ótta en aðrar persónur bókanna en þó má vel vera að Rowling hafi kosið að gefa honum þetta nafn vegna skyldleikans við 'hagridden' án þess að hún líti svo á að merkingin sé nákvæm lýsing á persónuleika hans. Annar möguleiki er að með forskeytinu 'hag-' sé vísað í nafnorðið hag sem getur þýtt "norn" eða orðið haggard sem getur þýtt "ótemja." Þriðji möguleikinn er svo kannski sá að nafnið komi frá Agríosi en Rowling hafi kosið að nefna persónuna Hagrid frekar en Agrid sem væri kannski nærtækara til að vísa í "hagridden." Sem sagt má lengi velta fyrir sér skýringunni á þessu nafni. Þar sem rubeus merkir "rauðleitur" er hugsanlegt að Rowling hafi hugsað sér að Rubeus Hagrid sé rjóður í kinnum eða eitthvað slíkt. Að minnsta kosti er skýringuna ekki að finna í háralitnum þar sem Hagrid er sagður svarthærður. Önnur skýring er að Rowling hafi haft aðra merkingu orðsins rubeus í huga en í klassískri latínu var það notað um þyrnótta runna á borð við brómberjarunna. Víst er að Rubeus Hagrid hefur hrjúft yfirbragð. Þriðji möguleikinn er svo að nafnið Rubeus sé hér dregið af enska nafnorðinu rube sem notað er yfir þann sem þykir óheflaður. Eins og sjá má af þessu svari er ljóst að lengi má velta fyrir sér hvað liggur að baki nafnavali Rowlings. Hún hefur greinilega lagt mikla vinnu í nöfnin hvort sem þau vísa í goðafræði eða eitthvað annað. Höfundur þakkar Sólrúnu Höllu Einarsdóttur, Katherine Woolfitt og Charles Brittain gagnlegar umræður og ábendingar um Harry Potter-sögurnar, gríska goðafræði og grískar og latneskar orðsifjar. Gagnleg vefsetur: Perseus Digital Library (inniheldur meðal annars gagnagrunn um fornbókmenntir Grikkja og Rómverja) Greek Mythology Link (þar má fletta upp ýmsu um gríska goðafræði) Mynd af Hagrid fengin af The Internet Movie Database
Er Hagrid í Harry Potter-bókunum til í grískri eða rómverskri goðafræði?
Útgáfudagur
17.9.2002
Spyrjandi
Tinna Gígja, f. 1984
Tilvísun
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er Hagrid í Harry Potter-bókunum til í grískri eða rómverskri goðafræði?“ Vísindavefurinn, 17. september 2002, sótt 4. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2716.
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2002, 17. september). Er Hagrid í Harry Potter-bókunum til í grískri eða rómverskri goðafræði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2716
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er Hagrid í Harry Potter-bókunum til í grískri eða rómverskri goðafræði?“ Vísindavefurinn. 17. sep. 2002. Vefsíða. 4. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2716>.