Þörungar gegna afar mikilvægu hlutverki fyrir vistkerfi sjávar. Vistfræðileg staða þeirra er sambærileg við gróður á þurrlendi. Frumframleiðsla sjávar fer að mestu leyti fram meðal þörunga. Á þessu fyrsta fæðuþrepi er orka sólarinnar beisluð og þaðan berst hún upp eftir fæðukeðjunni.
Dæmi um fæðuþrep í hafinu við Ísland gæti verið á þessa leið: Sviflægir þörungar eru étnir af smásæjum sviflægum krabbadýrum, til dæmis ljósátu, sem er mikilvæg fæða margra fiskitegunda svo sem loðnu, en loðnan er mikilvæg fæða þorsksins, sérstaklega þorska á ákveðnu stærðarbili eða frá 20-70 cm á lengd. Ýmis stærri dýr og spendýr, þar á meðal maðurinn, éta svo þorskinn eins og kunnugt er.
Reyndar er réttara að kalla fæðukeðjuna frekar fæðuvef þar sem um mjög flókin fæðutengsl er að ræða hjá fjölmörgum lífverum, samanber til dæmis að aðrir þorskar eru umtalsverður hluti fæðunnar hjá hverjum þorski um sig.

Á vorin kemur yfirleitt svokallaður toppur í svifþörungaflóruna umhverfis landið og þá tekur allt vistkerfið kipp. Ef afkomubrestur verður hins vegar hjá þörungum þá minnkar fæða allra dýra í hafinu. Nýliðun bregst hjá fjölda dýrategunda, svo sem meðal krabbadýra, og það sama gildir um nýliðun þorsks og annarra nytjastofna í hafinu. Heildarframleiðni vistkerfis sjávar dregst saman og það skilar sér strax í minni verðmætasköpun íslensks sjávarútvegs sem er langmikilvægasta einstaka atvinnugreinin á Íslandi. Ef slíkt ástand í hafinu yrði til langframa mætti þess vegna búast við samdrætti og kreppu í efnhagslífinu. [Viðbót ritstjóra:] Lesandinn sér væntanlega í hendi sér að áhrif þörungaskorts á dýralífið í sjónum eru svipuð því sem gerist á landi ef afturkippur kemur í gróður eða aðgang landdýra að honum til að mynda við jarðbönn. Sömuleiðis hefur það lengst af valdið erfiðleikum í húsdýrahaldi ef illa heyjast hér á norðurslóð. Ýjað var að þessari hliðstæðu í upphafi svarsins.