Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:26 • Sest 25:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:34 • Síðdegis: 24:14 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er þekking?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Ef þekkingarfræðingum tækist að finna einfalt og þægilegt svar við þessari spurningu yrðu mikil hátíðahöld með flugeldasýningu og öllu tilheyrandi. Hér verður stiklað á stóru um ýmis afbrigði spurningarinnar og nokkrar tilraunir til svara. Þessu svari er engan veginn ætlað að gera spurningunni full skil og lesendur mega búast við því að mörgum mikilvægum og áhugaverðum þáttum sé sleppt.

Til að byrja með er rétt að benda á að orðið þekking er tvírætt. Við getum talað um þekkingu frá sjónarmiði einstaklingsins þannig að þegar við spyrjum "hvað er þekking?" erum við að spyrja hvað eigi sér stað þegar einstaklingur hefur til að bera þekkingu. Hvað er um að vera þegar Sigga hefur þekkingu á einhverju? Á hinn bóginn getum við líka talað um þekkingu frá almennu sjónarmiði, sem safn þess sem vitað er. Þegar við segjum að mannkynið hafi til að bera þekkingu á ákveðnu sviði erum við ekki að segja að einhver einn einstaklingur hafi alla þessa þekkingu eða að allar manneskjur hafi þekkingu á viðkomandi sviði. Við erum að halda því fram að þekking á þessu sviði sé til einhvers staðar, að öllum líkindum hjá mörgum mismunandi einstaklingum. Í þessu svari verður aðaláherslan á þekkingu af fyrri gerðinni, það er þekkingu einstaklings.

Í öðru lagi er gjarnan talað um að minnsta kosti þrjár gerðir þekkingar. Við vitum að tveir plús tveir eru fjórir og að Ísland er eyja, við kunnum að synda eða spila á harmonikku og við þekkjum vini okkar og litina. Allt getur þetta talist þekking. Reyndar hafa sumir talið að það að þekkja og kunna séu ekkert annað en afbrigði af því að vita, til dæmis að það að kunna að synda sé ekkert annað en að vita að það eigi að hreyfa sig á ákveðinn hátt í vatninu. Þetta hafa alls ekki allir viljað samþykkja og sumir talað um að gerðir þekkingar væru jafnvel enn fleiri.

Í þekkingarfræði hefur langmesta áherslan verið lögð á fyrstu þekkingargerðina sem nefnd er hér að ofan, það er leitast hefur verið við að svara spurningunni "hvað er það að vita eitthvað?" Hér getum við svo líka spurt: "Hvað er hægt að vita?" Yfirleitt er talað um að viðföng þess sem við vitum séu staðhæfingar, eða að minnsta kosti eitthvað sem hægt er að tjá á formi staðhæfingar: "Sigga veit að kettir eru spendýr." En getur viðfangsefni staðhæfingarinnar verið hvert sem er? Þeir sem telja að þekking á tilteknu viðfangsefni sé ómöguleg eru sagðir aðhyllast efahyggju um viðkomandi efni. Sumir telja til dæmis að þekking á guðlegum verum og öðrum yfirnáttúrulegum fyrirbærum sé ómöguleg og aðrir hafa gengið svo langt að segja að þekking á efnisheiminum sé ómöguleg. Aðrir hafa svo lagt mikla vinnu í að finna svör við efahyggju af þessu tagi, það er að réttlæta tilkall okkar til þekkingar.

Og þá getum við spurt hvað það er sem einkennir þekkingu. Hvaða kröfur þarf að uppfylla til að um þekkingu sé að ræða fremur en til dæmis ágiskun eða hleypidóma sem við teljum yfirleitt ekki til þekkingar? Í þekkingarfræðinni hefur það orðið hefð að skilgreina þekkingu á staðhæfingum á eftirfarandi hátt: Sigga veit að kettir eru spendýr ef og aðeins ef 1. Staðhæfingin "kettir eru spendýr" er sönn, 2. Sigga trúir því að kettir séu spendýr, 3. trú Siggu á að kettir séu spendýr er byggð á fullnægjandi rökstuðningi.

Við skulum skoða hverja kröfu fyrir sig:

  1. Staðhæfingin "kettir eru spendýr" er sönn. Við segjum ekki að einhver viti eitthvað sem er ósatt. Ef kettir væru ekki spendýr en Sigga tryði samt sem áður að þeir væru spendýr gætum við sagt að hún héldi að kettir væru spendýr en ekki að hún vissi það.
  2. Sigga trúir því að kettir séu spendýr. Ef Sigga tryði því ekki að kettir væru spendýr væri ekki hægt að halda því fram að hún vissi það. Ef Sigga tryði því til dæmis að kettir væru skordýr en ekki spendýr segðum við ekki að hún vissi að þeir væru spendýr og hið sama gildir ef Sigga trúir hvorki einu né neinu um ketti vegna þess að hún hefur aldrei um þá heyrt.
  3. Trú Siggu á að kettir séu spendýr er rökstudd. Hér er átt við rökstuðning í víðri merkingu orðsins. Ef Sigga hefur til dæmis ekki hugmynd um hvað það er að vera spendýr en hefur heyrt orðið og dregur þá ályktun að kettir séu spendýr eingöngu vegna þess að henni finnst það hljóma vel lítum við ekki svo á að um rökstuðning sé að ræða. Hins vegar getur rökstuðningurinn falist í ýmsu, allt frá því að vísa í áralangar vísindarannsóknir á köttum og öðrum spendýrum til þess að hafa horft á sjónvarpsþátt um ketti eða einfaldlega vísa í hegðun og líkamsbyggingu katta og almenna þekkingu á spendýrum.
Þekkingarfræðingar voru margir hverjir nokkuð sáttir við þá skilgreiningu að það að vita væri að hafa sanna, rökstudda skoðun eins og lýst er hér að ofan þar til Edmund nokkur Gettier birti stutta grein árið 1963 þar sem hann sýndi fram á að þótt skilyrðin þrjú kunni að vera nauðsynleg þá séu þau ekki nægjanleg til að hægt sé að tala um að vita. Þetta gerði Gettier með tveimur ímynduðum dæmum og annað þeirra var einhvern veginn á þessa leið:
Sveinn og Jónas eru umsækjendur um sama starfið. Forstjóri fyrirtækisins sem auglýsti starfið hefur sagt Sveini að Jónas muni að öllum líkindum fá starfið. Sveinn hefur persónulega talið smápeningana í vasa Jónasar og veit að þeir eru tíu. Hann hefur því traustar heimildir fyrir hvoru tveggja. Af þessu dregur Sveinn þá ályktun að maðurinn sem mun fá starfið hafi tíu smápeninga í vasa sínum.

Það sem Sveinn veit ekki er að í raun mun hann en ekki Jónas fá starfið og að Sveinn hefur sjálfur tíu smápeninga í vasa sínum án þess að hafa talið þá. Staðhæfingin "maðurinn sem mun fá starfið hefur tíu smápeninga í vasa sínum" er því sönn, Sveinn trúir henni og ekkert er við rökstuðning hans að athuga. Hins vegar er ljóst að Sveinn veit ekki að maðurinn sem mun fá starfið hafi tíu smápeninga í vasa sínum þar sem sannleiksgildi staðhæfingarinnar veltur á fjölda smápeninga í vasa Sveins en Sveinn byggir trú sína á fjölda smápeninga í vasa Jónasar.
Dæmi um sanna, rökstudda trú án þekkingar eru nú kölluð Gettier-dæmi. Annað Gettier-dæmi gæti verið svona: Gunna trúir því að staðhæfingin "Lísa er vestur á Borgarfirði" sé sönn. Þessu trúir hún vegna þess að Lísa sagði henni sjálf fyrir nokkrum dögum að hún væri að fara vestur á Borgarfjörð og yrði þar næstu vikurnar. Það sem Gunna veit ekki er að Lísa mismælti sig og ætlaði að segja "austur á Borgarfjörð" þar sem för hennar var heitið á Borgarfjörð eystri. Þegar Lísa var komin á Borgarfjörð eystri fékk hún hins vegar óvænt boð í veislu í Borgarfirði fyrir vestan og þar sem hún er mikið samkvæmisljón settist hún upp í bílinn sinn og ók þangað í skyndi. Staðhæfingin "Lísa er vestur á Borgarfirði" er því sönn, Gunna trúir henni og trú hennar er rökstudd. Hins vegar segjum við tæpast að Gunna viti þetta.

Þeir lesendur sem ekki eru hræddir við nördastimpilinn (eða eru þegar komnir með hann og hafa engu að tapa) geta svo á mannamótum keppt í því að hugsa upp langsóttasta Gettier-dæmið.

Þekkingarfræðingar hafa átt í vandræðum með að lýsa nægjanlegum skilyrðum fyrir þekkingu í ljósi þess sem fram kemur hér að ofan. Tilraunir til þess hafa yfirleitt snúist um að rökstuðningurinn þurfi að vera af réttri gerð en erfitt er að festa hendur á því hvernig "rétt gerð" af rökstuðningi þurfi að vera. Skilyrðið sem vantar virðist þó tengjast ytri aðstæðum fremur en að snúast um frekari kröfur til einstaklingsins. Sumir hafa viljað byggja þetta á orsakatengslum og sagt eitthvað á þá leið að rökstuðningurinn og orsakatengsl milli staðhæfingarinnar og þess sem trúað er þurfi að falla saman en á þeirri kenningu eru líka ýmsir gallar.

Heimild:

Edmund Gettier (1963), "Is Justified True Belief Knowledge?," Analysis 26, bls. 144-6.

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

25.9.2002

Spyrjandi

Heiða María Gunnarsdóttir

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvað er þekking?“ Vísindavefurinn, 25. september 2002, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2740.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2002, 25. september). Hvað er þekking? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2740

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvað er þekking?“ Vísindavefurinn. 25. sep. 2002. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2740>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er þekking?
Ef þekkingarfræðingum tækist að finna einfalt og þægilegt svar við þessari spurningu yrðu mikil hátíðahöld með flugeldasýningu og öllu tilheyrandi. Hér verður stiklað á stóru um ýmis afbrigði spurningarinnar og nokkrar tilraunir til svara. Þessu svari er engan veginn ætlað að gera spurningunni full skil og lesendur mega búast við því að mörgum mikilvægum og áhugaverðum þáttum sé sleppt.

Til að byrja með er rétt að benda á að orðið þekking er tvírætt. Við getum talað um þekkingu frá sjónarmiði einstaklingsins þannig að þegar við spyrjum "hvað er þekking?" erum við að spyrja hvað eigi sér stað þegar einstaklingur hefur til að bera þekkingu. Hvað er um að vera þegar Sigga hefur þekkingu á einhverju? Á hinn bóginn getum við líka talað um þekkingu frá almennu sjónarmiði, sem safn þess sem vitað er. Þegar við segjum að mannkynið hafi til að bera þekkingu á ákveðnu sviði erum við ekki að segja að einhver einn einstaklingur hafi alla þessa þekkingu eða að allar manneskjur hafi þekkingu á viðkomandi sviði. Við erum að halda því fram að þekking á þessu sviði sé til einhvers staðar, að öllum líkindum hjá mörgum mismunandi einstaklingum. Í þessu svari verður aðaláherslan á þekkingu af fyrri gerðinni, það er þekkingu einstaklings.

Í öðru lagi er gjarnan talað um að minnsta kosti þrjár gerðir þekkingar. Við vitum að tveir plús tveir eru fjórir og að Ísland er eyja, við kunnum að synda eða spila á harmonikku og við þekkjum vini okkar og litina. Allt getur þetta talist þekking. Reyndar hafa sumir talið að það að þekkja og kunna séu ekkert annað en afbrigði af því að vita, til dæmis að það að kunna að synda sé ekkert annað en að vita að það eigi að hreyfa sig á ákveðinn hátt í vatninu. Þetta hafa alls ekki allir viljað samþykkja og sumir talað um að gerðir þekkingar væru jafnvel enn fleiri.

Í þekkingarfræði hefur langmesta áherslan verið lögð á fyrstu þekkingargerðina sem nefnd er hér að ofan, það er leitast hefur verið við að svara spurningunni "hvað er það að vita eitthvað?" Hér getum við svo líka spurt: "Hvað er hægt að vita?" Yfirleitt er talað um að viðföng þess sem við vitum séu staðhæfingar, eða að minnsta kosti eitthvað sem hægt er að tjá á formi staðhæfingar: "Sigga veit að kettir eru spendýr." En getur viðfangsefni staðhæfingarinnar verið hvert sem er? Þeir sem telja að þekking á tilteknu viðfangsefni sé ómöguleg eru sagðir aðhyllast efahyggju um viðkomandi efni. Sumir telja til dæmis að þekking á guðlegum verum og öðrum yfirnáttúrulegum fyrirbærum sé ómöguleg og aðrir hafa gengið svo langt að segja að þekking á efnisheiminum sé ómöguleg. Aðrir hafa svo lagt mikla vinnu í að finna svör við efahyggju af þessu tagi, það er að réttlæta tilkall okkar til þekkingar.

Og þá getum við spurt hvað það er sem einkennir þekkingu. Hvaða kröfur þarf að uppfylla til að um þekkingu sé að ræða fremur en til dæmis ágiskun eða hleypidóma sem við teljum yfirleitt ekki til þekkingar? Í þekkingarfræðinni hefur það orðið hefð að skilgreina þekkingu á staðhæfingum á eftirfarandi hátt: Sigga veit að kettir eru spendýr ef og aðeins ef 1. Staðhæfingin "kettir eru spendýr" er sönn, 2. Sigga trúir því að kettir séu spendýr, 3. trú Siggu á að kettir séu spendýr er byggð á fullnægjandi rökstuðningi.

Við skulum skoða hverja kröfu fyrir sig:

  1. Staðhæfingin "kettir eru spendýr" er sönn. Við segjum ekki að einhver viti eitthvað sem er ósatt. Ef kettir væru ekki spendýr en Sigga tryði samt sem áður að þeir væru spendýr gætum við sagt að hún héldi að kettir væru spendýr en ekki að hún vissi það.
  2. Sigga trúir því að kettir séu spendýr. Ef Sigga tryði því ekki að kettir væru spendýr væri ekki hægt að halda því fram að hún vissi það. Ef Sigga tryði því til dæmis að kettir væru skordýr en ekki spendýr segðum við ekki að hún vissi að þeir væru spendýr og hið sama gildir ef Sigga trúir hvorki einu né neinu um ketti vegna þess að hún hefur aldrei um þá heyrt.
  3. Trú Siggu á að kettir séu spendýr er rökstudd. Hér er átt við rökstuðning í víðri merkingu orðsins. Ef Sigga hefur til dæmis ekki hugmynd um hvað það er að vera spendýr en hefur heyrt orðið og dregur þá ályktun að kettir séu spendýr eingöngu vegna þess að henni finnst það hljóma vel lítum við ekki svo á að um rökstuðning sé að ræða. Hins vegar getur rökstuðningurinn falist í ýmsu, allt frá því að vísa í áralangar vísindarannsóknir á köttum og öðrum spendýrum til þess að hafa horft á sjónvarpsþátt um ketti eða einfaldlega vísa í hegðun og líkamsbyggingu katta og almenna þekkingu á spendýrum.
Þekkingarfræðingar voru margir hverjir nokkuð sáttir við þá skilgreiningu að það að vita væri að hafa sanna, rökstudda skoðun eins og lýst er hér að ofan þar til Edmund nokkur Gettier birti stutta grein árið 1963 þar sem hann sýndi fram á að þótt skilyrðin þrjú kunni að vera nauðsynleg þá séu þau ekki nægjanleg til að hægt sé að tala um að vita. Þetta gerði Gettier með tveimur ímynduðum dæmum og annað þeirra var einhvern veginn á þessa leið:
Sveinn og Jónas eru umsækjendur um sama starfið. Forstjóri fyrirtækisins sem auglýsti starfið hefur sagt Sveini að Jónas muni að öllum líkindum fá starfið. Sveinn hefur persónulega talið smápeningana í vasa Jónasar og veit að þeir eru tíu. Hann hefur því traustar heimildir fyrir hvoru tveggja. Af þessu dregur Sveinn þá ályktun að maðurinn sem mun fá starfið hafi tíu smápeninga í vasa sínum.

Það sem Sveinn veit ekki er að í raun mun hann en ekki Jónas fá starfið og að Sveinn hefur sjálfur tíu smápeninga í vasa sínum án þess að hafa talið þá. Staðhæfingin "maðurinn sem mun fá starfið hefur tíu smápeninga í vasa sínum" er því sönn, Sveinn trúir henni og ekkert er við rökstuðning hans að athuga. Hins vegar er ljóst að Sveinn veit ekki að maðurinn sem mun fá starfið hafi tíu smápeninga í vasa sínum þar sem sannleiksgildi staðhæfingarinnar veltur á fjölda smápeninga í vasa Sveins en Sveinn byggir trú sína á fjölda smápeninga í vasa Jónasar.
Dæmi um sanna, rökstudda trú án þekkingar eru nú kölluð Gettier-dæmi. Annað Gettier-dæmi gæti verið svona: Gunna trúir því að staðhæfingin "Lísa er vestur á Borgarfirði" sé sönn. Þessu trúir hún vegna þess að Lísa sagði henni sjálf fyrir nokkrum dögum að hún væri að fara vestur á Borgarfjörð og yrði þar næstu vikurnar. Það sem Gunna veit ekki er að Lísa mismælti sig og ætlaði að segja "austur á Borgarfjörð" þar sem för hennar var heitið á Borgarfjörð eystri. Þegar Lísa var komin á Borgarfjörð eystri fékk hún hins vegar óvænt boð í veislu í Borgarfirði fyrir vestan og þar sem hún er mikið samkvæmisljón settist hún upp í bílinn sinn og ók þangað í skyndi. Staðhæfingin "Lísa er vestur á Borgarfirði" er því sönn, Gunna trúir henni og trú hennar er rökstudd. Hins vegar segjum við tæpast að Gunna viti þetta.

Þeir lesendur sem ekki eru hræddir við nördastimpilinn (eða eru þegar komnir með hann og hafa engu að tapa) geta svo á mannamótum keppt í því að hugsa upp langsóttasta Gettier-dæmið.

Þekkingarfræðingar hafa átt í vandræðum með að lýsa nægjanlegum skilyrðum fyrir þekkingu í ljósi þess sem fram kemur hér að ofan. Tilraunir til þess hafa yfirleitt snúist um að rökstuðningurinn þurfi að vera af réttri gerð en erfitt er að festa hendur á því hvernig "rétt gerð" af rökstuðningi þurfi að vera. Skilyrðið sem vantar virðist þó tengjast ytri aðstæðum fremur en að snúast um frekari kröfur til einstaklingsins. Sumir hafa viljað byggja þetta á orsakatengslum og sagt eitthvað á þá leið að rökstuðningurinn og orsakatengsl milli staðhæfingarinnar og þess sem trúað er þurfi að falla saman en á þeirri kenningu eru líka ýmsir gallar.

Heimild:

Edmund Gettier (1963), "Is Justified True Belief Knowledge?," Analysis 26, bls. 144-6.

...