
Fullorðnar hagamýs eru oftast grá- eða gulbrúnar að ofan en hvítgráar á kvið. Ungar hagamýs eru dekkri og óvanir rugla þeim oft saman við húsamús. Lengd hagamúsarinnar, án hala, er frá 8-10,5 cm. Músakarlar eru um 29-34 grömm á þyngd en kvendýr um 24-31 g. Rannsóknir sænska vistfræðingsins Bengtsons hafa sýnt fram á að íslenskar hagamýs eru að jafnaði stærri en hagamýs í Skandinavíu og á Bretlandi. Meðgöngutími hagamúsa er um 25 dagar og ungarnir, sem vega um 1-2 g, fæðast blindir og hárlausir. Oftast gýtur kvendýrið 4-7 ungum en í góðu árferði geta þeir verið fleiri. Eftir um 6 daga eru ungarnir komnir með grábrúnan feld og sjónina fá þeir vanalega 10 dögum síðar. Ungarnir eru vandir af spena 18-22 daga gamlir og þurfa þá að bjarga sér sjálfir. Á þessum tíma eru afföll mikil meðal músaunga. Tímgunartími hagamúsa hér á landi er mjög misjafn og fer mjög eftir búsvæði og tíðarfari. Rannsóknir á Bretlandseyjum sýna að tímgunartími músa þar er mun lengri, enda er veðurfar þar mildara. Tímgunartími músa á Bretlandseyjum er frá apríl til október. Um æxlunartíma músa er hægt að lesa nánar í svari við spurningunni Hvenær er æxlunartímabil hjá hagamús, húsamús, brúnrottu og svartrottu?
Hagamúsin heldur til í holum og þar hefur hún hreiður til að ala upp unga sína og forðabúr. Annað hvort grefur hún sjálf holur í brekkur, bakka eða þúfur eða kemur sér fyrir undir steinum. Helsta fæða hagamúsa hérlendis eru einkum grasfræ, ber og fræ ýmissa blóma. Hagamúsin étur líka öll þau smádýr sem hún kemst í tæri við og hræ. Hún er mest á ferli á næturnar. Helstu óvinir hagamúsarinnar eru refir og minkar. Ránfuglar eins og smyrill, fálki, brandugla og kjói veiða einnig töluvert af músum. Auk þess veiða kettir mikið af hagamúsum í grennd við heimili. Hagamýs geta valdið talsverðum skemmdum í híbýlum manna, meðal annars skemma þær matvæli og víða í Evrópu eyðileggja þær tómata-, blómlauks- og matbaunarækt. Skemmdir sem hagamýs valda eru þó frekar litlar. Margir náttúruskoðendur hafa velt því fyrir sér hvernig best sé að greina í sundur húsa- og hagamýs. Fyrir utan litinn - en hagamýs hafa ljósari kvið - eru hagamýs með stærri augu og frammjórra trýni. Öruggasta leiðin er þó að greina þær á framtönnunum. Húsamúsin hefur hak upp í slitflöt á framtönnum í efri skolti en hagamúsin er ekki með slíkt hak. Mynd og heimildir
- Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnarson (ritstj.), Villt íslensk spendýr, Hið íslenska náttúrufræðifélag, Reykjavík, 1993.
- Norsk Zoologisk Forening
- The Mammal Society