Með faraldsfræði er átt við rannsóknir á dreifingu og áhrifaþáttum ástands eða fyrirbæra er varða heilbrigði í tilteknum þýðum. Jafnframt fæst hún við hagnýtingu rannsóknanna til að hafa stjórn á heilbrigðisvandamálum.Faraldsfræðingar fást við rannsóknir á útbreiðslu og orsökum sjúkdóma hjá hópum manna. Meginviðfangsefni rannsóknanna er samband áreitis (exposure) og endapunkts (outcome). Áreitin geta verið margvísleg. Oftast tengjast þau aukinni hættu á að veikjast af tilteknum sjúkdómi og kallast áhættuþættir. Sem dæmi má nefna reykingar, krabbameinsvaldandi efni í fæðu, mengun sem tengist atvinnu, háan blóðþrýsting, vírussýkingar og meðfæddar stökkbreytingar í sjúkdómsgenum. Áhrif annarra áreita eru til þess fallin að draga úr líkum á tilteknum sjúkdómum. Í þeim flokki eru meðal annars afoxandi efni í fæðu, brjóstagjöf, bólusetningar og fræðsla um skaðsemi reykinga. Endapunktar rannsóknanna eru oftast sjúkdómar en geta einnig verið slys, dauðsföll, mótefni í semi, tiltekin áhættuhegðun og fleira. Þar sem efniviður rannsókna faraldsfræðinnar er fólk, er grundvallarmunur á henni og öllum öðrum aðferðum til að rannsaka orsakir sjúkdóma. Það er bæði styrkleiki og veikleiki faraldsfræðinnar að maðurinn skuli vera viðfang rannsóknanna. Styrkurinn felst í því að ekki leikur vafi á að niðurstöðurnar megi yfirfæra á lifandi fólk, á meðan sá vafi er oftast til staðar varðandi niðurstöður sem byggjast á dýratilraunum eða rannsóknum á vefjum, frumum eða smærri einingum. Veikleiki faraldsfræðinnar liggur hins vegar einnig í þessum viðkvæma rannsóknarefnivið. Í tilraunum á rannsóknarstofum er hægt að hafa stjórn á mörgum þáttum sem hugsanlega tengjast sambandi áreitis og endapunkts, en við rannsóknir á fólki er lítt hægt að stýra slíkum þáttum og því þarf að fara aðrar leiðir. Þróaðar hafa verið aðferðir til þess að taka tillit til atriða sem geta truflað niðurstöður en þær aðferðir byggjast meðal annars á því að tiltekin atriði séu könnuð og skráð strax á hönnunarstigi rannsóknanna. Því þarf að vanda mjög vel til verks frá upphafi. Fyrst er sett fram tilgáta um tengsl áreitis og endapunkts. Því næst er rannsóknaraðferðin valin á grundvelli tilgátunnar en jafnframt með tilliti til þeirra möguleika sem rannsakandinn hefur á gagnaöflun. Áhugasömum lesendum er bent á að á heimasíðu Krabbameinsfélagsins www.krabb.is er að finna grein eftir höfund þessa svars um faraldsfræðilegar rannsóknir hjá Krabbameinsfélaginu.
Hvað er faraldsfræði?
Útgáfudagur
8.10.2002
Spyrjandi
Þuríður Þórarinsdóttir
Tilvísun
Laufey Tryggvadóttir. „Hvað er faraldsfræði?“ Vísindavefurinn, 8. október 2002, sótt 13. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2769.
Laufey Tryggvadóttir. (2002, 8. október). Hvað er faraldsfræði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2769
Laufey Tryggvadóttir. „Hvað er faraldsfræði?“ Vísindavefurinn. 8. okt. 2002. Vefsíða. 13. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2769>.