Sólin Sólin Rís 09:45 • sest 16:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:12 • Sest 01:51 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:07 • Síðdegis: 14:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:20 • Síðdegis: 21:01 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:45 • sest 16:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:12 • Sest 01:51 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:07 • Síðdegis: 14:34 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 08:20 • Síðdegis: 21:01 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Eru glæpir fátækra afleiðing fátæktar?

Helgi Gunnlaugsson



Ungi betlarinn

Bartolomé Esteban Murillo 1618 - 1682

Rannsóknir á orsökum ofbeldis og glæpa eru fyrirferðamiklar innan afbrota- og félagsfræði enda um athyglisvert og mikilvægt efni að ræða. Niðurstöður sýna að skýringar á afbrotum eru ekki einhlítar heldur margslungnar og taka verður fjölmargt með í reikninginn sem hefur áhrif á eðli og umfang afbrota. Ýmsar almennar ályktanir má þó draga sem varpa ljósi á viðfangsefnið.

Í ljósi opinberra skýrslna lögreglu og dómsyfirvalda á Vesturlöndum eru glæpir eins og auðgunarbrot og ofbeldisverk iðulega hlutfallslega tíðari meðal hópa sem standa höllum fæti í félags- og efnahagslegu tilliti. Þetta á ekki aðeins við um brotamennina heldur eru einnig meiri líkur á að fólk úr þessum hópum verði fórnarlömb glæpa en fólk úr öðrum stéttum. Félagsleg einkenni síbrotamanna hafa því tilhneigingu til að felast í rofnum fjölskyldutengslum þar sem ofbeldi hefur viðgengist, skólaganga verið í molum og efnahagsleg kjör verið bág. Þetta á almennt við um flesta þeirra sem lenda í hvað mestum útistöðum við samfélag sitt og er baksvið þeirra erfiðleika sem þeir valda sjálfum sér og umhverfi sínu. Þó er nauðsynlegt að setja vissa fyrirvara við þessari almennu niðurstöðu.

Afbrotin eru til að mynda mun algengari meðal karla en kvenna og eru einnig mun tíðari meðal ungmenna en þeirra sem eldri eru. Því er ljóst að tengsl glæpa og samfélagshópa ráðast ekki einvörðungu af efnahag. Enda sýna rannsóknir þar sem beitt er öðrum aðferðum en greiningu á opinberum gögnum lögreglu og dómsyfirvalda iðulega aðra mynd af afbrotum en að þau einskorðist við fátækt. Kerfisbundnar athuganir á frásögnum fólks af eigin afbrotum, sérstaklega ungmenna, hafa til dæmis sýnt að glæpir finnast í raun meðal allra stétta samfélagsins og eru langt frá því að vera eingöngu bundnir við lágstéttir. Aðrar sambærilegar rannsóknir hafa þó leitt í ljós, ef brotin eru gaumgæfilega athuguð, að afbrot þeirra sem verr eru stæðir eru í raun bæði tíðari og alvarlegri en þau brot sem framin eru af þeim sem betur mega sín. Þó finnst ein skýr undantekning frá þessari niðurstöðu.

Svokölluð viðskiptabrot, nánast eðli málsins samkvæmt, finnast svo til eingöngu meðal efri stétta samfélagsins. Margir fræðimenn telja þau jafnvel mun kostnaðarsamari og alvarlegri fyrir samfélagið en hefðbundin afbrot þó að umfang þeirra í réttarkerfinu bendi ekki til þess. Þegar vel menntað og efnað fólk úr heimi viðskipta verður uppvíst að glæpum af því taginu virðist hjákátlegt að rekja þau til þess að bágborin efnahagsstaða eða fátækt hafi þvingað viðkomandi út í glæpastarfsemina.

Að öllu samanlögðu má þó segja að rannsóknir hafi sýnt að tíðni heðbundinna glæpa er iðulega meiri að tiltölu og alvarlegri í þéttbýlum og flóknum iðnríkjum en annars staðar. Þar fara saman ólík félags- og efnahagsleg kjör, sundurleitir menningarhópar og ólíkir kynþættir. Þessi þjóðfélagslegu einkenni geta undir vissum kringumstæðum grafið undan trausti, virðingu og tillitssemi við náungann sem fámennari og einsleitari samfélög einatt skapa. Ef við bætist rof eða samkiptaleysi milli fullorðinna og barna auk versnandi kjara og vaxandi ójafnaðar má fastlega búast við að alvarlegum glæpum eins og ofbeldisverkum og auðgunarbrotum fjölgi í kjölfarið.

Höfundur

Helgi Gunnlaugsson

prófessor í félagsfræði við HÍ

Útgáfudagur

22.3.2000

Spyrjandi

Þórhallur Barði Kárason

Tilvísun

Helgi Gunnlaugsson. „Eru glæpir fátækra afleiðing fátæktar?“ Vísindavefurinn, 22. mars 2000, sótt 11. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=278.

Helgi Gunnlaugsson. (2000, 22. mars). Eru glæpir fátækra afleiðing fátæktar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=278

Helgi Gunnlaugsson. „Eru glæpir fátækra afleiðing fátæktar?“ Vísindavefurinn. 22. mar. 2000. Vefsíða. 11. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=278>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Eru glæpir fátækra afleiðing fátæktar?



Ungi betlarinn

Bartolomé Esteban Murillo 1618 - 1682

Rannsóknir á orsökum ofbeldis og glæpa eru fyrirferðamiklar innan afbrota- og félagsfræði enda um athyglisvert og mikilvægt efni að ræða. Niðurstöður sýna að skýringar á afbrotum eru ekki einhlítar heldur margslungnar og taka verður fjölmargt með í reikninginn sem hefur áhrif á eðli og umfang afbrota. Ýmsar almennar ályktanir má þó draga sem varpa ljósi á viðfangsefnið.

Í ljósi opinberra skýrslna lögreglu og dómsyfirvalda á Vesturlöndum eru glæpir eins og auðgunarbrot og ofbeldisverk iðulega hlutfallslega tíðari meðal hópa sem standa höllum fæti í félags- og efnahagslegu tilliti. Þetta á ekki aðeins við um brotamennina heldur eru einnig meiri líkur á að fólk úr þessum hópum verði fórnarlömb glæpa en fólk úr öðrum stéttum. Félagsleg einkenni síbrotamanna hafa því tilhneigingu til að felast í rofnum fjölskyldutengslum þar sem ofbeldi hefur viðgengist, skólaganga verið í molum og efnahagsleg kjör verið bág. Þetta á almennt við um flesta þeirra sem lenda í hvað mestum útistöðum við samfélag sitt og er baksvið þeirra erfiðleika sem þeir valda sjálfum sér og umhverfi sínu. Þó er nauðsynlegt að setja vissa fyrirvara við þessari almennu niðurstöðu.

Afbrotin eru til að mynda mun algengari meðal karla en kvenna og eru einnig mun tíðari meðal ungmenna en þeirra sem eldri eru. Því er ljóst að tengsl glæpa og samfélagshópa ráðast ekki einvörðungu af efnahag. Enda sýna rannsóknir þar sem beitt er öðrum aðferðum en greiningu á opinberum gögnum lögreglu og dómsyfirvalda iðulega aðra mynd af afbrotum en að þau einskorðist við fátækt. Kerfisbundnar athuganir á frásögnum fólks af eigin afbrotum, sérstaklega ungmenna, hafa til dæmis sýnt að glæpir finnast í raun meðal allra stétta samfélagsins og eru langt frá því að vera eingöngu bundnir við lágstéttir. Aðrar sambærilegar rannsóknir hafa þó leitt í ljós, ef brotin eru gaumgæfilega athuguð, að afbrot þeirra sem verr eru stæðir eru í raun bæði tíðari og alvarlegri en þau brot sem framin eru af þeim sem betur mega sín. Þó finnst ein skýr undantekning frá þessari niðurstöðu.

Svokölluð viðskiptabrot, nánast eðli málsins samkvæmt, finnast svo til eingöngu meðal efri stétta samfélagsins. Margir fræðimenn telja þau jafnvel mun kostnaðarsamari og alvarlegri fyrir samfélagið en hefðbundin afbrot þó að umfang þeirra í réttarkerfinu bendi ekki til þess. Þegar vel menntað og efnað fólk úr heimi viðskipta verður uppvíst að glæpum af því taginu virðist hjákátlegt að rekja þau til þess að bágborin efnahagsstaða eða fátækt hafi þvingað viðkomandi út í glæpastarfsemina.

Að öllu samanlögðu má þó segja að rannsóknir hafi sýnt að tíðni heðbundinna glæpa er iðulega meiri að tiltölu og alvarlegri í þéttbýlum og flóknum iðnríkjum en annars staðar. Þar fara saman ólík félags- og efnahagsleg kjör, sundurleitir menningarhópar og ólíkir kynþættir. Þessi þjóðfélagslegu einkenni geta undir vissum kringumstæðum grafið undan trausti, virðingu og tillitssemi við náungann sem fámennari og einsleitari samfélög einatt skapa. Ef við bætist rof eða samkiptaleysi milli fullorðinna og barna auk versnandi kjara og vaxandi ójafnaðar má fastlega búast við að alvarlegum glæpum eins og ofbeldisverkum og auðgunarbrotum fjölgi í kjölfarið....