Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stutta svarið við þessari spurningu er einfaldlega að þetta gerist ekki. Hvorki vatn (H2O) né vetnisperoxíð (H2O2) innihalda kolefni (C) og því getur sykur ekki myndast með nokkru móti.
Hér verður hins vegar svarað spurningunni "Hvers vegna mælist sykur þegar einn dropi af 35% vetnisperoxíði er settur út í glas af vatni þar sem enginn sykur mældist áður?"
Til eru ýmsar leiðir til að mæla sykurmagn í vökvasýnum. Algengasta mæliaðferðin er að nota svokallaða glúkósastrimla (e. glucose test strips). Þeir eru bæði einfaldir og fljótlegir í notkun og því talsvert notaðir, bæði á læknastofum og á heimilum, einkum til að mæla glúkósamagn í blóði og þvagi.
Glúkósi (C6H12O6), einnig nefndur þrúgusykur, er algengasta sex kolefna einsykran. Hann finnst í mörgum plöntum og er einnig sá sykur sem átt er við þegar talað er um blóðsykur í mönnum. Glúkósi er byggingareining í mörgum algengum fleir- og fásykrum, meðal annars súkrósa (hvítum sykri), sterkju, sellulósa (beðmi) og maltósa (maltsykri).
Glúkósastrimlar eru plaststrimlar með lítinn bút af síupappír á öðrum endanum. Pappírsbúturinn er vættur í lausn sem inniheldur ensímin glúkósaoxídasa og peroxídasa, auk kalíumjoðíðs (KI), og er hulinn þunnri himnu sem aðeins litlar sameindir á borð við glúkósa komast gegnum.
Þegar strimlinum er dýft ofan í glúkósalausn smjúga glúkósasameindinar í gegnum himnuna, þar sem eftirfarandi hvarf á sér stað fyrir milligöngu glúkósaoxídasans:
glúkósi + súrefni + vatn --> glúkónsýra + vetnisperoxíð
Hér myndast vetnisperoxíð (H2O2) sem nokkurs konar aukaafurð en er notað í seinni hluta prófsins í stað glúkónsýrunnar (C6H12O7), sem erfiðara er að mæla. Vetnisperoxíðið hvarfast þá við kalíumjoðíðið í strimlinum fyrir tilstilli seinna ensímsins, peroxídasa. Efnahvarfið er:
vetnisperoxíð + kalíumjoðíð --> joð + vatn + súrefni
Hér myndast joð (I2) og hinn einkennandi og sterki brúni litur þess gefur til kynna að glúkósi hafi verið í lausninni. Einnig tíðkast notkun annarra litvísa en kalíumjoðíðs, en hugmyndin er þó alltaf sú sama; litvísirinn breytir um lit eftir hvarf við vetnisperoxíð.
Af ofansögðu er ljóst að prófunar strimillinn skiptir um lit ef honum er dýft í vetnisperoxíðlausn (jafnvel eins daufa lausn og spurt er um), þrátt fyrir að enginn glúkósi sé í lausninni. Sé sykurmælingin endurtekin með annarri mæliaðferð mun því enginn sykur mælast í lausninni.
Finnbogi Óskarsson. „Hvers vegna myndast sykur þegar einn dropi af 35% vetnisperoxíði er settur í glas af vatni þar sem enginn sykur mældist áður?“ Vísindavefurinn, 14. október 2002, sótt 4. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2780.
Finnbogi Óskarsson. (2002, 14. október). Hvers vegna myndast sykur þegar einn dropi af 35% vetnisperoxíði er settur í glas af vatni þar sem enginn sykur mældist áður? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2780
Finnbogi Óskarsson. „Hvers vegna myndast sykur þegar einn dropi af 35% vetnisperoxíði er settur í glas af vatni þar sem enginn sykur mældist áður?“ Vísindavefurinn. 14. okt. 2002. Vefsíða. 4. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2780>.