Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hér er einnig svar við spurningunni: Hvaðan kemur bakterían sem veldur magasári, er hún í matinum okkar eða fæðumst við með hana?Magasár er oft notað sem samheiti yfir svonefnd ætisár í maga og skeifugörn. Ætisár eru býsna algeng, en áætlað er að einn af hverjum 100 einstaklingum fái ætisár á lífsleiðinni. Ætisár myndast þegar varnarþættir slímhúðar maga og skeifugarnar bresta fyrir tilstuðlan ýmissa þátta. Við það kemst magasafinn (sýrur og aðrir meltingarhvatar) í snertingu við dýpri lög slímhúðarinnar og nær þannig að melta hana og framkalla sár.
Einkenni ætisára eru margskonar, svo sem kviðverkir, hungurtilfinning, ógleði og uppþemba, en slík einkenni eru einnig algeng án þess að ætisár séu fyrir hendi. Helstu fylgikvillar ætisára eru blæðingar (tjörusvartar hægðir, blóðug uppköst), blóðleysi og rof (gat) á maga eða skeifugörn. Magaspeglun er nákvæmasta aðferðin til að greina ætisár en röntgenmyndataka er stundum notuð.
Fyrir um 20 árum síðan sýndu tveir ástralskir vísindamenn fram á að spírallaga baktería, Helicobacter pylori, sýkir magaslímhúðina og veldur magabólgum sem veikja slímhúðina og geta leitt til ætisára. Í dag er almennt viðurkennt að þessi baktería orsakar um 80-90% ætisára, en sýkillinn er einnig talinn áhættuþáttur magakrabbameins.
Helicobacter pylori er ein algengasta bakteríusýking í mönnum og fer tíðni sýkingar hækkandi með aldri. Á Íslandi er um 10% tvítugra einstaklinga sýktir en um helmingur fimmtugra. Flestir sýktra eru einkennalausir og innan við 5% sýktra fá ætisár vegna sýkingarinnar. Smit verður er sýkillinn berst um munn í maga og er smithættan mest ef margir einstaklingar búa þröngt saman við bágborið hreinlæti. Líklega smitast einstaklingar af öðrum snemma á lífsleiðinni með munnvatni eða saurmengun, en vatn og matur er ekki talin algeng smitleið og smit verður ekki frá gæludýrum. Ekki hefur enn tekist að framleiða virkt bóluefni gegn sýklinum. Sýkinguna má greina með útöndunarprófi, sýnatöku í magaspeglun, blóðvatnsprófi eða saurprófi.
Næstalgengasta orsök ætisára er notkun bólgueyðandi gigtarlyfja og skyldra lyfja. Tóbak, streita, áfengi og ef til vill kaffi eru meðvirkandi áhættuþættir. Meðferð ætisára byggist á því að uppræta Helicobacter pylori sýkilinn með sýklalyfjum, hætta/forðast inntöku bólgueyðandi gigtarlyfja og annarra áðurnefndra áhættuþátta. Auk þessa eru sýruhamlandi lyf notuð í 4-8 vikur til að draga úr sýruframleiðslu magans. Flest ætisár gróa að fullu með slíkri meðferð og heyrir skurðaðgerð nú nánast sögunni til, nema í alvarlegri tilvikum.
Sigurbjörn Birgisson. „Hvers vegna myndast magasár?“ Vísindavefurinn, 21. október 2002, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2804.
Sigurbjörn Birgisson. (2002, 21. október). Hvers vegna myndast magasár? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2804
Sigurbjörn Birgisson. „Hvers vegna myndast magasár?“ Vísindavefurinn. 21. okt. 2002. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2804>.