Sólin Sólin Rís 03:54 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:46 • Síðdegis: 17:17 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:55 • Síðdegis: 23:37 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:54 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:46 • Síðdegis: 17:17 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:55 • Síðdegis: 23:37 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig lítur Guð út?

Þorsteinn Vilhjálmsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Útlitið sem menn hugsa sér á guðum sínum er með ýmsu móti. Okkur er tamt að hugsa okkur Óðin, Þór og Freyju í mannsmynd og hið sama gildir til dæmis um grísk-rómversku guðina Seif (Júpíter), Afródíte (Venus) og félaga þeirra. Af þeim síðarnefndu eru til frægar höggmyndir sem sýna þetta glöggt. Þessar myndir eru eftir "samtíðarmenn" guðanna, menn sem voru uppi á sama tíma og trúin á guðina var iðkuð og listamennirnir hafa væntanlega flestir tekið þátt í þeirri trúariðkun.

Í sögunum af þessum guðum má einnig segja að þeir séu "teiknaðir" í mannsmynd. Ekki er nóg með að þeir líti út eins og við heldur hafa þeir einnig sams konar tilfinningalíf og við; þekkja til að mynda af eigin raun tilfinningar og hegðun eins og ást og hatur, afbrýðisemi og klæki.

Í sumum trúarbrögðum hafa guðirnir að einhverju leyti mannsmynd en eru þó frábrugðnir mannfólkinu að öðru leyti. Sem dæmi má nefna hindúaguðinn Brahma sem er sagður hafa fjögur höfuð og því sjá í allar áttir. Einnig má nefna Shiva sem er teiknaður með fjórar hendur til merkis um að guðir geti ekki haft venjulega mannsmynd og son Shiva, Ganesha, sem hefur fílshaus og getur heyrt bænir fólks sökum eyrnastærðar sinnar.

Enn má nefna trúarbrögð þar sem guðir hafa ekki svona áþreifanlegt eða nærtækt útlit og væntanlega ekki heldur eins "mannlega" hegðun. Taóistar trúa til dæmis á guðlegt afl, taó, sem býr í öllum hlutum. Það er því tilgangslaust að spyrja taóista hvernig guð, eða taó, líti út. Trú sem þessi nefnist algyðistrú (panþeismi) og er til í ýmsum útfærslum. Allar eiga þær það sameiginlegt að líta ekki á guð sem holdlega veru. Auk þess trúa ýmsir því að guð sé í eðli sínu andleg vera en ekki holdleg, hvort sem hinn guðlega mátt er að finna í öllu eða kannski bara sumum hlutum, og guð geti því ekki “litið út” á einn eða annan hátt.

En spyrjandi hefur væntanlega í huga Guð kristinna manna eins og þeir hugsa sér hann, því að enginn hefur séð Guð eftir því sem við vitum best. Í Biblíunni segir fortakslaust að Guð hafi skapað manninn í sinni mynd:
Guð sagði: Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum, sem skríða á jörðinni.

Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu. (1. Mósebók, 1. kafli)
Samkvæmt þessu er engum blöðum um það að fletta að Guð lítur út eins og við og þannig hafa listamenn hugsað sér hann í aldanna rás, samanber til dæmis hina frægu mynd Michelangelos úr Sixtínsku kapellunni í Róm, sem menn geta séð í mismunandi útgáfum á Veraldarvefnum með því að smella hér eða hér.Jafnframt má ætla að Guð kristinna sé karlkyns, eða að minnsta kosti virðast flestir listamenn hafa hugsað sér hann þannig.

Með þessu er Vísindavefurinn að sjálfsögðu ekki að taka afstöðu til þess hvort Guð sé til í raun og veru, enda eru slíkar spurningar ekki á verksviði hans; við erum eingöngu að lýsa því hvernig Guð lítur út í huga þeirra sem á annað borð hugsa sér að hann sé til í þeim skilningi að hann hafi tiltekið útlit.

Svo má bæta því við að heimspekingar og hugsuðir hafa á öllum tímum efast um tilvist guða, bæði til dæmis grísku guðanna á sínum tíma og síðan þess Guðs sem kristnir menn trúa á. Þýskir heimspekingar á nítjándu öld veltu þessu mjög fyrir sér. Í verkum brautryðjanda þeirra á fyrri hluta aldarinnar, G. W. F. Hegels (1770-1831), kemur guðshugmyndin mjög við sögu án þess að endilega sé ljóst að þar sé átt við Guð kristinna manna samkvæmt venjulegum hugmyndum. Arftakar Hegels eins og Ludwig Feuerbach (1804-1872) og Karl Marx (1818-1883) gerðu sér einnig tíðrætt um trúarbrögð og uppruna þeirra. Viðhorf þeirra til Guðs má draga saman með þeim fleygu orðum að Guð hafi ekki skapað manninn í sinni mynd heldur hafi maðurinn skapað Guð í sinni mynd.

En samkvæmt því ber allt að sama brunni að Guð kristinna manna lítur út eins og við þó að dýpri merking þeirrar fullyrðingar kunni að vera mismunandi eftir því hver setur hana fram.

Mynd af Óðni: Heidnischwerk

Mynd af Brahma: L'hindouisme

Mynd af sköpun Adams: the Artchive

Höfundar

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

24.10.2002

Spyrjandi

Hinrik Palle

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvernig lítur Guð út?“ Vísindavefurinn, 24. október 2002, sótt 19. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2815.

Þorsteinn Vilhjálmsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2002, 24. október). Hvernig lítur Guð út? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2815

Þorsteinn Vilhjálmsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hvernig lítur Guð út?“ Vísindavefurinn. 24. okt. 2002. Vefsíða. 19. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2815>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig lítur Guð út?
Útlitið sem menn hugsa sér á guðum sínum er með ýmsu móti. Okkur er tamt að hugsa okkur Óðin, Þór og Freyju í mannsmynd og hið sama gildir til dæmis um grísk-rómversku guðina Seif (Júpíter), Afródíte (Venus) og félaga þeirra. Af þeim síðarnefndu eru til frægar höggmyndir sem sýna þetta glöggt. Þessar myndir eru eftir "samtíðarmenn" guðanna, menn sem voru uppi á sama tíma og trúin á guðina var iðkuð og listamennirnir hafa væntanlega flestir tekið þátt í þeirri trúariðkun.

Í sögunum af þessum guðum má einnig segja að þeir séu "teiknaðir" í mannsmynd. Ekki er nóg með að þeir líti út eins og við heldur hafa þeir einnig sams konar tilfinningalíf og við; þekkja til að mynda af eigin raun tilfinningar og hegðun eins og ást og hatur, afbrýðisemi og klæki.

Í sumum trúarbrögðum hafa guðirnir að einhverju leyti mannsmynd en eru þó frábrugðnir mannfólkinu að öðru leyti. Sem dæmi má nefna hindúaguðinn Brahma sem er sagður hafa fjögur höfuð og því sjá í allar áttir. Einnig má nefna Shiva sem er teiknaður með fjórar hendur til merkis um að guðir geti ekki haft venjulega mannsmynd og son Shiva, Ganesha, sem hefur fílshaus og getur heyrt bænir fólks sökum eyrnastærðar sinnar.

Enn má nefna trúarbrögð þar sem guðir hafa ekki svona áþreifanlegt eða nærtækt útlit og væntanlega ekki heldur eins "mannlega" hegðun. Taóistar trúa til dæmis á guðlegt afl, taó, sem býr í öllum hlutum. Það er því tilgangslaust að spyrja taóista hvernig guð, eða taó, líti út. Trú sem þessi nefnist algyðistrú (panþeismi) og er til í ýmsum útfærslum. Allar eiga þær það sameiginlegt að líta ekki á guð sem holdlega veru. Auk þess trúa ýmsir því að guð sé í eðli sínu andleg vera en ekki holdleg, hvort sem hinn guðlega mátt er að finna í öllu eða kannski bara sumum hlutum, og guð geti því ekki “litið út” á einn eða annan hátt.

En spyrjandi hefur væntanlega í huga Guð kristinna manna eins og þeir hugsa sér hann, því að enginn hefur séð Guð eftir því sem við vitum best. Í Biblíunni segir fortakslaust að Guð hafi skapað manninn í sinni mynd:
Guð sagði: Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum, sem skríða á jörðinni.

Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu. (1. Mósebók, 1. kafli)
Samkvæmt þessu er engum blöðum um það að fletta að Guð lítur út eins og við og þannig hafa listamenn hugsað sér hann í aldanna rás, samanber til dæmis hina frægu mynd Michelangelos úr Sixtínsku kapellunni í Róm, sem menn geta séð í mismunandi útgáfum á Veraldarvefnum með því að smella hér eða hér.Jafnframt má ætla að Guð kristinna sé karlkyns, eða að minnsta kosti virðast flestir listamenn hafa hugsað sér hann þannig.

Með þessu er Vísindavefurinn að sjálfsögðu ekki að taka afstöðu til þess hvort Guð sé til í raun og veru, enda eru slíkar spurningar ekki á verksviði hans; við erum eingöngu að lýsa því hvernig Guð lítur út í huga þeirra sem á annað borð hugsa sér að hann sé til í þeim skilningi að hann hafi tiltekið útlit.

Svo má bæta því við að heimspekingar og hugsuðir hafa á öllum tímum efast um tilvist guða, bæði til dæmis grísku guðanna á sínum tíma og síðan þess Guðs sem kristnir menn trúa á. Þýskir heimspekingar á nítjándu öld veltu þessu mjög fyrir sér. Í verkum brautryðjanda þeirra á fyrri hluta aldarinnar, G. W. F. Hegels (1770-1831), kemur guðshugmyndin mjög við sögu án þess að endilega sé ljóst að þar sé átt við Guð kristinna manna samkvæmt venjulegum hugmyndum. Arftakar Hegels eins og Ludwig Feuerbach (1804-1872) og Karl Marx (1818-1883) gerðu sér einnig tíðrætt um trúarbrögð og uppruna þeirra. Viðhorf þeirra til Guðs má draga saman með þeim fleygu orðum að Guð hafi ekki skapað manninn í sinni mynd heldur hafi maðurinn skapað Guð í sinni mynd.

En samkvæmt því ber allt að sama brunni að Guð kristinna manna lítur út eins og við þó að dýpri merking þeirrar fullyrðingar kunni að vera mismunandi eftir því hver setur hana fram.

Mynd af Óðni: Heidnischwerk

Mynd af Brahma: L'hindouisme

Mynd af sköpun Adams: the Artchive...