Sólin Sólin Rís 10:59 • sest 15:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:50 • Sest 21:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:33 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:59 • sest 15:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:50 • Sest 21:32 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:33 • Síðdegis: 22:04 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað varð um Manna, bróður Jóns Sveinssonar (Nonna)?

Helga Birgisdóttir

Nonnabækur Jóns Sveinssonar (1857-1944) komu út á árunum 1913-1944 og eru tólf talsins. Bækurnar fjalla um ævintýri Jóns Sveinssonar og ferðalög hans, bæði á æsku- og fullorðinsárum. Aðalpersónan er Nonni sjálfur en Manni, yngri bróðir Nonna, leikur einnig stórt hlutverk. Þetta á einkum við um bókina Nonni og Manni en Manni kemur einnig við sögu í öðrum Nonnabókum.

Manni hét fullu nafni Ármann Sveinsson og fæddist árið 1861. Hann var þriðja barn foreldra sinna, þeirra Sigríðar Jónsdóttur (1826-1910) og Sveins Þórarinssonar ritara (1821-1869) sem komst á legg. Hin fjögur voru Björg (Bogga, 1854-1882), Jón Stefán (Nonni, 1857-1944), Friðrik (1864-1943) og Sigríður Guðlaug (1868-1916). Manni var látinn heita í höfuðið á elsta syni foreldra sinna sem hafði dáið í frumbernsku og var eftirlætisbarn móður sinnar og föður.

Fyrstu ár ævi sinnar bjó Manni ásamt foreldrum sínum og systkinum á Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem Sveinn var ritari amtmannsins, Péturs Hafsteins. Sveinn sagði svo upp vinnunni hjá amtmanninum og fjölskyldan flutti inn á Akureyri árið 1865 og settist að í Pálshúsi, sem í dag er kallað Nonnahús. Sveinn lést árið 1869 og þá stóð Sigríður ein uppi, bláfátæk ekkja með fjögur börn á framfæri en því fimmta, Friðriki, hafði verið komið í fóstur. Lífið hefur verið ekkjunni og börnum hennar erfitt en um það fjallar Jón Sveinsson ekki í bókum sínum. Hann einskorðar sig við ævintýri æskunnar og Manni fær að taka þátt í mörgum þeirra.

Garðar Thor Cortes og Einar Örn Einarsson í hlutverkum Nonna og Manna í sjónvarpsþáttum sem sýndir hafa verið hér á landi, fyrst árið 1989.

Frægasta ævintýri þeirra bræðra er um það þegar þeir fara út á sjó á lítilli bátskel í þeim tilgangi að veiða fisk. Þá rekur á haf út og þeir lenda í ofsaveðri og bráðri lífshættu þegar þeir sigla inn í miðja hvalaþvögu. Þeim tekst sem betur fer að róa í burtu frá hvölunum en þeir eru engu að síðu kaldir, hraktir og hræddir. Þá dettur Manna í hug að þeir skuli heita guði því að gerast trúboðar að fyrirmynd heilags Franz Xavier ef þeim verður bjargað úr þessum háska. Bræðurnir strengja sitt heit og síðan fellur Manni í svefn. Hann dreymir að til sín komi heilagur Franz Xavier og leiði hann inn í Péturskirkjuna í Róm þar sem frelsarinn bíði hans. Stuttu seinna er bræðrunum bjargað um borð í franskt herskip.

Gunnar F. Guðmundsson hefur fært rök fyrir því að þessi frásögn sé ekki sannleikanum samkvæm. Hann bendir á að hún sé að mörgu leyti eins og dæmigerð helgisaga og telur ekki ólíklegt að Nonni hafi litið á Manna sem sérstakt guðs barn – sem játara trúarinnar. Það er ekki ólíklegt þegar við hugsum til þess hvernig fór fyrir Manna.

Nonna og Manna býðst báðum að fara til Frakklands til náms og Sigríður leyfir sonunum að fara, enda vissi hún að þetta var eina tækifæri þeirra til að menntast. Fyrst er Nonna boðið að fara og hann leggur af stað árið 1870, dvelur í Danmörku í eitt ár og fer síðan til Amiens í Norður-Frakklandi. Þar gengur hann í skóla jesúíta og býr á sérstakri heimavist, ætlaðri afburðanemendum sem síðar ætla að ganga í raðir trúboða. Árið 1873 sendir Sigríður Manna á eftir Nonna.

Manni saknaði móður sinna og átti dálítið bágt fyrst um sinn í Amiens en hann nýtur þess að vera með bróður sínum á ný og kann vel við sig á heimavistinni. Gunnar F. Guðmundsson segir að af þeim fáu bréfum Nonna og Manna sem varðveitt eru frá þessum tíma sé ekki að sjá að þeir séu haldnir heimþrá eða djúpum söknuði eftir móður sinni. Manni stendur sig vel í skólanum, eins og bróðir hans. Hann var drátthagur, frábær leikari og söng svo vel að hann var látinn syngja fyrir hefðarfólk í nágrenni skólans.

En bræðurnir þurftu svo að skiljast að enn á ný þegar Nonni fór í framhaldsnám og svo til kennslustarfa í Danmörku. Nonni saknaði Manna sárt og þráði að fá hann til sín til Danmerkur. Sú von brást þegar Manni lést árið 1885. Manni var aðeins 24 ára gamall þegar hann andaðist úr tæringu á prestaheimili jesúíta í Louvain í Belgíu. Hann var þá að búa sig undir að verða prestur og trúboði, eins og bræðurnir hétu úti á bátskelinni forðum daga, en varð hvorugt. Jón Sveinsson náði sér aldrei að fullu eftir lát bróður síns og það hefur eflaust verið honum huggun að ímynda sér bróður sinn sem sérstakt og útvalið barn guðs.

Helstu heimildir og mynd:

  • Gunnar F. Guðmundsson. 2006. „Nonni fer til náms: Um skólanám rithöfundarins Jóns Sveinssonar í Frakklandi 1871-1878“. Merki krossins. 1:49-67.
  • Gunnar F. Guðmundsson. 2009. „„Sannleikurinn“ í Nonnabókunum“. Merki krossins 1-2:53-65.
  • Jón Sveinsson. 1964. Nonni og Manni. 3. útgáfa. Freysteinn Gunnarsson þýddi. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík.
  • Páll Skúlason. 2008. Nonni – „rætt við Guðmund F. Guðmundsson sagnfræðing“. Skjöldur 17(2):4-9.
  • Mynd: Bergvík. Sótt 27. 1. 2011.

Höfundur

Helga Birgisdóttir

aðjúnkt á Menntavísindasviði HÍ

Útgáfudagur

27.1.2011

Síðast uppfært

18.11.2021

Spyrjandi

Sigurjón Sigurðsson

Tilvísun

Helga Birgisdóttir. „Hvað varð um Manna, bróður Jóns Sveinssonar (Nonna)?“ Vísindavefurinn, 27. janúar 2011, sótt 6. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=28194.

Helga Birgisdóttir. (2011, 27. janúar). Hvað varð um Manna, bróður Jóns Sveinssonar (Nonna)? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=28194

Helga Birgisdóttir. „Hvað varð um Manna, bróður Jóns Sveinssonar (Nonna)?“ Vísindavefurinn. 27. jan. 2011. Vefsíða. 6. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=28194>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað varð um Manna, bróður Jóns Sveinssonar (Nonna)?
Nonnabækur Jóns Sveinssonar (1857-1944) komu út á árunum 1913-1944 og eru tólf talsins. Bækurnar fjalla um ævintýri Jóns Sveinssonar og ferðalög hans, bæði á æsku- og fullorðinsárum. Aðalpersónan er Nonni sjálfur en Manni, yngri bróðir Nonna, leikur einnig stórt hlutverk. Þetta á einkum við um bókina Nonni og Manni en Manni kemur einnig við sögu í öðrum Nonnabókum.

Manni hét fullu nafni Ármann Sveinsson og fæddist árið 1861. Hann var þriðja barn foreldra sinna, þeirra Sigríðar Jónsdóttur (1826-1910) og Sveins Þórarinssonar ritara (1821-1869) sem komst á legg. Hin fjögur voru Björg (Bogga, 1854-1882), Jón Stefán (Nonni, 1857-1944), Friðrik (1864-1943) og Sigríður Guðlaug (1868-1916). Manni var látinn heita í höfuðið á elsta syni foreldra sinna sem hafði dáið í frumbernsku og var eftirlætisbarn móður sinnar og föður.

Fyrstu ár ævi sinnar bjó Manni ásamt foreldrum sínum og systkinum á Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem Sveinn var ritari amtmannsins, Péturs Hafsteins. Sveinn sagði svo upp vinnunni hjá amtmanninum og fjölskyldan flutti inn á Akureyri árið 1865 og settist að í Pálshúsi, sem í dag er kallað Nonnahús. Sveinn lést árið 1869 og þá stóð Sigríður ein uppi, bláfátæk ekkja með fjögur börn á framfæri en því fimmta, Friðriki, hafði verið komið í fóstur. Lífið hefur verið ekkjunni og börnum hennar erfitt en um það fjallar Jón Sveinsson ekki í bókum sínum. Hann einskorðar sig við ævintýri æskunnar og Manni fær að taka þátt í mörgum þeirra.

Garðar Thor Cortes og Einar Örn Einarsson í hlutverkum Nonna og Manna í sjónvarpsþáttum sem sýndir hafa verið hér á landi, fyrst árið 1989.

Frægasta ævintýri þeirra bræðra er um það þegar þeir fara út á sjó á lítilli bátskel í þeim tilgangi að veiða fisk. Þá rekur á haf út og þeir lenda í ofsaveðri og bráðri lífshættu þegar þeir sigla inn í miðja hvalaþvögu. Þeim tekst sem betur fer að róa í burtu frá hvölunum en þeir eru engu að síðu kaldir, hraktir og hræddir. Þá dettur Manna í hug að þeir skuli heita guði því að gerast trúboðar að fyrirmynd heilags Franz Xavier ef þeim verður bjargað úr þessum háska. Bræðurnir strengja sitt heit og síðan fellur Manni í svefn. Hann dreymir að til sín komi heilagur Franz Xavier og leiði hann inn í Péturskirkjuna í Róm þar sem frelsarinn bíði hans. Stuttu seinna er bræðrunum bjargað um borð í franskt herskip.

Gunnar F. Guðmundsson hefur fært rök fyrir því að þessi frásögn sé ekki sannleikanum samkvæm. Hann bendir á að hún sé að mörgu leyti eins og dæmigerð helgisaga og telur ekki ólíklegt að Nonni hafi litið á Manna sem sérstakt guðs barn – sem játara trúarinnar. Það er ekki ólíklegt þegar við hugsum til þess hvernig fór fyrir Manna.

Nonna og Manna býðst báðum að fara til Frakklands til náms og Sigríður leyfir sonunum að fara, enda vissi hún að þetta var eina tækifæri þeirra til að menntast. Fyrst er Nonna boðið að fara og hann leggur af stað árið 1870, dvelur í Danmörku í eitt ár og fer síðan til Amiens í Norður-Frakklandi. Þar gengur hann í skóla jesúíta og býr á sérstakri heimavist, ætlaðri afburðanemendum sem síðar ætla að ganga í raðir trúboða. Árið 1873 sendir Sigríður Manna á eftir Nonna.

Manni saknaði móður sinna og átti dálítið bágt fyrst um sinn í Amiens en hann nýtur þess að vera með bróður sínum á ný og kann vel við sig á heimavistinni. Gunnar F. Guðmundsson segir að af þeim fáu bréfum Nonna og Manna sem varðveitt eru frá þessum tíma sé ekki að sjá að þeir séu haldnir heimþrá eða djúpum söknuði eftir móður sinni. Manni stendur sig vel í skólanum, eins og bróðir hans. Hann var drátthagur, frábær leikari og söng svo vel að hann var látinn syngja fyrir hefðarfólk í nágrenni skólans.

En bræðurnir þurftu svo að skiljast að enn á ný þegar Nonni fór í framhaldsnám og svo til kennslustarfa í Danmörku. Nonni saknaði Manna sárt og þráði að fá hann til sín til Danmerkur. Sú von brást þegar Manni lést árið 1885. Manni var aðeins 24 ára gamall þegar hann andaðist úr tæringu á prestaheimili jesúíta í Louvain í Belgíu. Hann var þá að búa sig undir að verða prestur og trúboði, eins og bræðurnir hétu úti á bátskelinni forðum daga, en varð hvorugt. Jón Sveinsson náði sér aldrei að fullu eftir lát bróður síns og það hefur eflaust verið honum huggun að ímynda sér bróður sinn sem sérstakt og útvalið barn guðs.

Helstu heimildir og mynd:

  • Gunnar F. Guðmundsson. 2006. „Nonni fer til náms: Um skólanám rithöfundarins Jóns Sveinssonar í Frakklandi 1871-1878“. Merki krossins. 1:49-67.
  • Gunnar F. Guðmundsson. 2009. „„Sannleikurinn“ í Nonnabókunum“. Merki krossins 1-2:53-65.
  • Jón Sveinsson. 1964. Nonni og Manni. 3. útgáfa. Freysteinn Gunnarsson þýddi. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík.
  • Páll Skúlason. 2008. Nonni – „rætt við Guðmund F. Guðmundsson sagnfræðing“. Skjöldur 17(2):4-9.
  • Mynd: Bergvík. Sótt 27. 1. 2011.

...