Sólin Sólin Rís 04:07 • sest 22:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:38 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:41 • Síðdegis: 20:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:41 • Síðdegis: 13:46 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:07 • sest 22:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:38 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:41 • Síðdegis: 20:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:41 • Síðdegis: 13:46 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hverjar eru helstu kenningar í sambandi við fjöldadauða í lok tríastímabilsins?

Leifur A. Símonarson

Talið er að aðeins fjórum til fimm sinnum í sögu jarðar hafi átt sér stað jafn umfangsmikill útdauði tegunda og varð í lok tríastímabils fyrir um 208 milljónum ára. Meira en 20% af þeim 300 ættum hryggleysingja og hryggdýra sem lifðu í sjó um þetta leyti dóu út. Einnig hefur verið sýnt fram á að landdýr urðu illa úti og margar tegundir þeirra hurfu úr jarðsögunni.

Í sjó voru kolkrabbar hart leiknir, einkum ammónítar og þá dó út einn ættbálkur þeirra, seratítar (Ceratites). Um miðbik Carnian-tíma á trías, fyrir um það bil 227 milljónum ára, voru lifandi um 150 ættkvíslir seratíta. Nokkrum ármilljónum seinna voru 100 ættkvíslir ennþá lifandi, en þær hurfu síðan endanlega fyrir um 208 milljónum ára.

Útdauðinn virðist þannig hafa tekið nokkrar ármilljónir. Hjá sæsniglum dóu út 13 ættir um þetta leyti, 13 hurfu einnig hjá sæskriðdýrum, átta ættir hjá samlokum, 12 hjá armfætlum og átta hjá svömpum. Talið er að í lok trías hafi 42% af þeim samlokuættkvíslum, sem þá lifðu í sjó við strendur Evrópu, dáið út og tegundaútdauðinn hjá þessum hópi hafi verið að minnsta kosti 92%. Hjá landdýrum hurfu 35 ættir skordýra í lok tríastímabils, átta hjá beinfiskum í ferskvatni og einnig átta ættir boleðla.

Hinu er ekki að leyna að um þetta leyti komu fram dýr sem síðar áttu eftir að setja mjög svip sinn á dýrasamfélög bæði í sjó og á landi. Nægir þar að nefna risaeðlur, flugeðlur og spendýr.

Eins og bent hefur verið á hér á undan virðist þessi útdauði í lok tríastímabils standa yfir í nokkrar ármilljónir, og raunar hefur verið bent á að líklega hafi verið um þrjár meginhrinur að ræða. Flestir fræðimenn telja líklegast að fækkun og útdauða ferfætlinga á landi á þessum tíma megi rekja til loftslagsbreytinga, en talið hefur verið að loftslag hafi þornað talsvert um þetta leyti og það leitt til verulegra breytinga í gróðurfari á stórum svæðum.

Ljóst er að í lok trías átti sér stað mikið afflæði sjávar og minnkandi fellingafjallamyndun samfara því að verulega dró úr jarðskorpuhreyfingum og plötureki. Við það drógust grunnhöf verulega saman og lífsvæði stórra hópa fóru forgörðum. Einnig hefur verið bent á að í kjölfarið virðist súrefnisinnihald sjávar hafa minnkað, en það hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir marga dýrahópa. Kemur þetta meðal annars fram í því að svört og kolefnisrík sjávarsetlög verða meira áberandi.

Á landi minnkaði fjölbreytileiki lífsvæða verulega við stækkun láglendissvæða því að færri þröskuldar eða hindranir komu í veg fyrir samgang dýra til æxlunar á stórum svæðum og það dró úr tegundamyndun.

Þá hefur einnig verið bent á að loftsteinn eða halastjarna hafi ef til vill rekist á jörðina í lok trías, en í Kanada hefur fundist stór gígur (Manicougan), um 70 kílómetrar í þvermál, og virðist aldur hans vera 206-213 milljónir ára. Þetta kann að hafa haft mjög slæm áhrif á dýr og plöntur og valdið miklum útdauða eins og sambærilegir atburðir á mörkum krítar- og tertíer-tímabila þegar risaeðlurnar dóu út.

Hins vegar hefur verið bent á að magn iridíns í jarðlögum virðist ekki hafa aukist um það leyti sem útdauðinn átti sér stað í lok Trías og kvarskristallar á jörðu hafa ekki sprungið við högg. Því er ekki talið eins líklegt að slíkur atburður hafi skipt sköpum.

Mynd: UCLA - IGPP Center for Astrobiology

Höfundur

prófessor í steingervingafræði við HÍ

Útgáfudagur

30.10.2002

Spyrjandi

Ásgeir Ásgeirsson

Tilvísun

Leifur A. Símonarson. „Hverjar eru helstu kenningar í sambandi við fjöldadauða í lok tríastímabilsins?“ Vísindavefurinn, 30. október 2002, sótt 23. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2827.

Leifur A. Símonarson. (2002, 30. október). Hverjar eru helstu kenningar í sambandi við fjöldadauða í lok tríastímabilsins? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2827

Leifur A. Símonarson. „Hverjar eru helstu kenningar í sambandi við fjöldadauða í lok tríastímabilsins?“ Vísindavefurinn. 30. okt. 2002. Vefsíða. 23. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2827>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hverjar eru helstu kenningar í sambandi við fjöldadauða í lok tríastímabilsins?
Talið er að aðeins fjórum til fimm sinnum í sögu jarðar hafi átt sér stað jafn umfangsmikill útdauði tegunda og varð í lok tríastímabils fyrir um 208 milljónum ára. Meira en 20% af þeim 300 ættum hryggleysingja og hryggdýra sem lifðu í sjó um þetta leyti dóu út. Einnig hefur verið sýnt fram á að landdýr urðu illa úti og margar tegundir þeirra hurfu úr jarðsögunni.

Í sjó voru kolkrabbar hart leiknir, einkum ammónítar og þá dó út einn ættbálkur þeirra, seratítar (Ceratites). Um miðbik Carnian-tíma á trías, fyrir um það bil 227 milljónum ára, voru lifandi um 150 ættkvíslir seratíta. Nokkrum ármilljónum seinna voru 100 ættkvíslir ennþá lifandi, en þær hurfu síðan endanlega fyrir um 208 milljónum ára.

Útdauðinn virðist þannig hafa tekið nokkrar ármilljónir. Hjá sæsniglum dóu út 13 ættir um þetta leyti, 13 hurfu einnig hjá sæskriðdýrum, átta ættir hjá samlokum, 12 hjá armfætlum og átta hjá svömpum. Talið er að í lok trías hafi 42% af þeim samlokuættkvíslum, sem þá lifðu í sjó við strendur Evrópu, dáið út og tegundaútdauðinn hjá þessum hópi hafi verið að minnsta kosti 92%. Hjá landdýrum hurfu 35 ættir skordýra í lok tríastímabils, átta hjá beinfiskum í ferskvatni og einnig átta ættir boleðla.

Hinu er ekki að leyna að um þetta leyti komu fram dýr sem síðar áttu eftir að setja mjög svip sinn á dýrasamfélög bæði í sjó og á landi. Nægir þar að nefna risaeðlur, flugeðlur og spendýr.

Eins og bent hefur verið á hér á undan virðist þessi útdauði í lok tríastímabils standa yfir í nokkrar ármilljónir, og raunar hefur verið bent á að líklega hafi verið um þrjár meginhrinur að ræða. Flestir fræðimenn telja líklegast að fækkun og útdauða ferfætlinga á landi á þessum tíma megi rekja til loftslagsbreytinga, en talið hefur verið að loftslag hafi þornað talsvert um þetta leyti og það leitt til verulegra breytinga í gróðurfari á stórum svæðum.

Ljóst er að í lok trías átti sér stað mikið afflæði sjávar og minnkandi fellingafjallamyndun samfara því að verulega dró úr jarðskorpuhreyfingum og plötureki. Við það drógust grunnhöf verulega saman og lífsvæði stórra hópa fóru forgörðum. Einnig hefur verið bent á að í kjölfarið virðist súrefnisinnihald sjávar hafa minnkað, en það hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir marga dýrahópa. Kemur þetta meðal annars fram í því að svört og kolefnisrík sjávarsetlög verða meira áberandi.

Á landi minnkaði fjölbreytileiki lífsvæða verulega við stækkun láglendissvæða því að færri þröskuldar eða hindranir komu í veg fyrir samgang dýra til æxlunar á stórum svæðum og það dró úr tegundamyndun.

Þá hefur einnig verið bent á að loftsteinn eða halastjarna hafi ef til vill rekist á jörðina í lok trías, en í Kanada hefur fundist stór gígur (Manicougan), um 70 kílómetrar í þvermál, og virðist aldur hans vera 206-213 milljónir ára. Þetta kann að hafa haft mjög slæm áhrif á dýr og plöntur og valdið miklum útdauða eins og sambærilegir atburðir á mörkum krítar- og tertíer-tímabila þegar risaeðlurnar dóu út.

Hins vegar hefur verið bent á að magn iridíns í jarðlögum virðist ekki hafa aukist um það leyti sem útdauðinn átti sér stað í lok Trías og kvarskristallar á jörðu hafa ekki sprungið við högg. Því er ekki talið eins líklegt að slíkur atburður hafi skipt sköpum.

Mynd: UCLA - IGPP Center for Astrobiology...